Ljósmæður eru reiðar og lýsa yfir megnustu vanþóknun vegna ummæla Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra á Alþingi í gær. Í yfirlýsingu sem Ljósmæðrafélag Íslands og Bandalag háskólamanna sendu frá sér í morgun segir að Svandís hafi þar látið orð falla sem megi skilja sem svo „að hún telji að ljósmæður geti sjálfum sér um kennt að þær lækki í launum við að bæta við sig námi. Þessa stöðu megi rekja til þess að ljósmæður hafi valið að vera í sérstöku stéttarfélagi innan BHM. Ráðherrann gaf í skyn að hagsmunum ljósmæðra yrði betur borgið ef Ljósmæðrafélag Íslands, sem var stofnað árið 1919, yrði lagt niður og ljósmæður sæktu um aðild að Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga.“
Í yfirlýsingunni segir ennfremur að ljósmæður og BHM lýsi yfir undrun sinni og vanþóknun á ummælunum. Áslaug Íris Valsdóttir Petty, formaður Ljósmæðrafélags Íslands, segir í samtali við Stundina að ljósmæður séu móðgaðar vegna þessara orða ráðherrans. „Þetta eru afskaplega óheppileg ummæli og alls ekki til að liðka fyrir í kjaradeilunni sem nú stendur. Við höfum svo sem heyrt það á að minnsta kosti einum samningafundi að við getum þá bara farið og verið hjúkrunarfræðingar. Þetta er svo vitlaus umræða að það nær ekki nokkurri átt. Ljósmæðrafélagið er að verða 100 ára og var stofnað löngu áður en forkrafa um hjúkrunarfræðinám kom til, það var ekki fyrr en árið 1982. Í mínum huga er þetta alveg glórulaust, á að meta verðmæti starfa út frá því í hvaða stéttarfélagi fólk er? Svona leysir ekki nokkurn skapaðan hlut. Það er mikil óánægja meðal ljósmæðra vegna þessa og þessi orð ráðherra koma okkur mjög á óvart.“
„Þetta er svo vitlaus umræða að það nær ekki nokkurri átt“
Í yfirlýsingunni segir enn fremur að það blasi við að fullkomlega óeðlilegt sé að ljósmæður lækki í launum við að bæta við sig tveggja ára ströngu háskólanámi ofan á hjúkrunarfræðinám. „Fráleitt er að rökstyðja eða réttlæta slíka launalækkun með vísan til þess að ljósmæður hafi valið að vera í sérstöku stéttarfélagi innan heildarsamtaka háskólamenntaðra á íslenskum vinnumarkaði. Staðan í kjaraviðræðum ljósmæðra við ríkið er alfarið á ábyrgð stjórnvalda sem hafa hafnað því að koma til móts við sjálfsagðar og eðlilegar kröfur ljósmæðra.“
Athugasemdir