Svanhildur Hólm Valsdóttir, aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra, segir að það hafi aldrei verið auðvelt að eignast sína fyrstu íbúð. Í færslu á Facebook síðu sinni fjallar hún um þær áhyggjur ungs fólks að erfitt sé að kaupa fyrstu íbúð og deilir reynslu sinni af fyrstu íbúðarkaupum sínum með fyrri sambýlismanni árið 1998.
„Við greiddum útborgun á einu ári og tókum lán fyrir rest, en á þeim tíma gat maður mest fengið 70% lán hjá Íbúðalánasjóði. Við bjuggum reyndar svo vel að við gátum fengið veð í húsi foreldra minna og tekið lífeyrissjóðslán, en það var samt heilmikil brekka að brúa bilið,“ skrifar Svanhildur.
Vísar hún í grein eiginmanns síns, Loga Bergmanns Eiðssonar fréttamanns, í Morgunblaðinu með yfirskriftinni „Hver sagði að þetta væri auðvelt?“. Logi skrifar að hann hafi séð unga konu á Twitter kvarta yfir að geta aldrei keypt sér íbúð, en gleðjast yfir að hafa keypt miða á tónleikahátíðir í Danmörku og Englandi. „Auðvitað væri meiriháttar ef það væri ekkert mál að kaupa sér íbúð og allir gætu það,“ skrifar Logi. „En það er ekki að fara að gerast. Aldrei.“
„Það kemur kannski ekki á óvart að ég er alveg sammála manninum mínum í þessu máli,“ skrifar Svanhildur. „Það er heldur enginn að segja að það sé auðvelt að kaupa sér íbúð núna. Það er vesen, eins og það hefur alltaf verið og íbúðir kosta hvítuna úr augunum.“ Svanhildur hefur verið aðstoðarmaður Bjarna frá 2013. Laun aðstoðarmanna ráðherra eru nú um 1,2 milljón króna á mánuði. Árið 1998, þegar hún keypti sína fyrstu íbúð, var hún hins vegar í námi og vann samhliða því, en keyrði um á tíu ára gömlum bíl.
Leigu- og kaupverð hækka umfram laun
Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs, bendir á í umræðum um grein Loga á Twitter að nú sé erfiðara en áður að leigja eða kaupa íbúð. Leiguverð og kaupverð hafi hækkað mun hraðar en laun frá árinu 2016 og ungt fólk standi verr að vígi á húsnæðismarkaðnum. Hann vísar jafnframt í umfjöllun Arion banka, þar sem fram kemur að ungt fólk hafi setið eftir í kaupmáttaraukningu undanfarinna áratuga. „Kostnaðurinn við komast inn (eiga fyrir útborgun) er mun hærri og ávöxtunin af sparnaði til að kaupa íbúð er minni,“ skrifar Konráð og segir vandann liggja þar.
Ríkisstjórnin kynnti í síðustu viku fjármálaáætlun sína, en í henni dregst húsnæðisstuðningur saman frá fjárlögum ársins 2018 úr 13,4 milljörðum niður í 11,7 milljarða árið 2023. Þá segir í áætluninni að „lélegt fjármálalæsi hjá almenningi“ sé ein af helstu áskorunum sem stjórnvöld standa frammi fyrir á sviði fjölskyldumála. Fjárhagsvandi ungs fólks, meðal annars tekjulágra einstaklinga á leigumarkaði, bendi til þess að þörf sé á eflingu fjármálalæsis og aukinni fjármálafræðslu í grunn- og framhaldsskólum landsins.
Athugasemdir