Þeir sem hafa heyrt eða fylgst með tilraun B-listans til að reyna að koma á fót mótframboði til stjórnarkjörs í Verslunarmannafélagi Suðurnesja, geta verið sammála að lýðræði er ekki það sem kemur upp í huga þegar hugsað er um framferði kjörstjórnar vegna mótframboðs B-lista.
Hentugleiki virðist stjórna hvaða hefðir og reglur eru týndar til hverju sinni og varfærnislega valdar eingöngu þær, sem henta sitjandi stjórn, sem í þegjandi hljóði ætlar ekki með kosningu að fá staðfest hvort að umboð sé til staðar frá félagsmönnum. Umboð sem ekki hefur verið kosið um í yfir 20 ár.

Hátt myndi heyrast í núverandi formanni ef sami leikur væri á borði við sveitastjórnarkosningar sem eru að renna í garð. Ef annar flokkur í mótframboði myndi sitja í kjörstjórn og taka ákvörðun um lögmæti allra mótframboða og án vísan til reglugerða eða laga, gæti bara sagt „okkur finnst þetta of mikið galli á framboðinu“. Hvergi myndi frasinn „okkur finnst“ halda vatni sem rök í einhverju máli.
Það sem mér finnst hins vegar alvarlegra og félagsmenn þurfa að fá vitneskju um, er að í núverandi stjórn félagsins og í framlögðum A-lista til stjórnar sitja einstaklingar sem hafa ríkra hagsmuna að gæta. Þetta eru bæði eigendur smárra og stærri fyrirtækja og stjórnarmenn annara fyrirtækja þrátt fyrir að í lögum félagsins sé kveðið á um að atvinnurekendur geti ekki verið meðlimir.
Það er beinn hagsmunarárekstur að atvinnurekendur sitji í stjórn verkalýðsfélags og geti þar með haft áhrif á kjarabaráttu og launahækkanir starfsmanna sinna. Ekki verður litið öðruvísi á en að með þessu sé núverandi stjórn að færa valdið frá félagsmönnum yfir til atvinnurekenda sem munu njóta góðs af lægri launagreiðslum í formi aukins hagnaðar.
Nú hafa félagsmenn sent inn erindi með kröfu á félagsfund til að krefjast kosninga um stjórn félagsins. Eðlilegast væri að núverandi stjórn myndi sækja raunverulegt umboð til félagsmanna sinna með kosningu og taka þar með af allan vafa, en ekki sitja áfram umboðlaus þar sem klárlega er komin þörf á endurnýjun á forystu félagsins.







Athugasemdir