Já, ég spyr margra spurninga. Einhverjir hafa gagnrýnt það og kallað það eyðslu á almannafé. Hvað kosta ég sem þingmaður út af öllum fyrirspurnunum? Ágætis spurning út af fyrir sig og til þess að komast að því báðum við um skýrslu frá Ríkisendurskoðun sem á að fjalla um hvernig farið er með peningana sem við setjum í þessa upplýsingaveitu og eftirlitstæki sem fyrirspurnir þingmanna eiga að vera.
En hér ætla ég að fjalla aðeins um fyrirspurnirnar mínar vegna þess að mér finnst mikilvægt að það sé fjallað efnislega um þær. Fjöldinn á ekki að skipta neinu máli ef spurningarnar sjálfar eru gagnlegar. Slík gagnrýni, að það sé vandamál hversu margar fyrirspurnirnar eru, er ekki mjög málefnaleg og ber þess frekar merki að það sé ekkert varðandi efni spurninganna að athuga. Að ástæða þess að verið sé að kvarta séu frekar varnarviðbrögð kerfisins sem er tregt til þess að upplýsa um þá galla sem þar fyrirfinnast. Það eru ekki óeðlileg viðbrögð. Það eru bara mjög mannleg viðbrögð meira að segja. Við eigum hins vegar að vera fagleg og vegna þess að gagnrýnin er komin fram finnst mér eðlilegt að svara henni, efnislega. Hérna eru því fyrirspurnirnar og stutt útskýring um hverja þeirra.
-
Afgreiðsla umsókna um skattfrjálsa úttekt séreignarsparnaðar fyrirspurn til fjármála- og efnahagsráðherra
Mér bárust athugasemdir um að afgreiðslutími á umsóknum vegna þessa úrræðis væri óvenjulega langur. Langur biðtími hefur áhrif á ýmislegt, til dæmis vaxtagreiðslur á meðan ekki er verið að greiða niður lán með séreignarsparnaði. Langur biðtími getur munað þó nokkrum pening fyrir fólk þar sem áhrifanna gætir út lánstímann. Spurningin snýst því um að athuga hvort það séu einhverjar reglur í gildi um afgreiðslutíma, hver meðal afgreiðslutími er og hver eru áhrif þess á lántakendur.
-
Aksturskostnaður alþingismanna fyrirspurn til forseta
Það hefur þó nokkuð verið spurt um þessi mál. Fjölmiðlar hafa ítrekað leitað svara við þessum spurningum en engin fengið. Heimildir mínar voru að það væri verið að innheimta aksturskostnað vegna ferða sem varða alls ekkert störf þingmanna og því ákvað ég að leita að upplýsingum um umfang þessa kostnaðar. Þetta er síðasta spurningin af mörgum til þess að komast að því hvort það væri óeðlilega mikil dreifing á aksturskostnaði á milli þingmanna.
-
Atkvæðakassar fyrirspurn til dómsmálaráðherra
Ég var umboðsmaður í kosningum fyrir nokkrum árum. Þar sá ég botninn falla undan atkvæðakassa og atkvæði byrja að flæða úr honum áður en kassinn var aftur lagður niður. Seinna heyrði ég frá öðrum umboðsmönnum að svipuð atvik hefðu gerst á öðrum kjörstöðum í öðrum kosningum. Því spyr ég hversu algengt þetta sé því kjörkassarnir sem við notum eru einstaklega lélegir. Svarið sem barst við þessari fyrirspurn passaði svo alls ekki við persónulega reynslu mína af málinu þar sem af svarinu mátti ráða að enginn kjörkassi hefði gersamlega fallið í sundur.
-
Atkvæðakassar fyrirspurn til dómsmálaráðherra
Þetta er endurtekin spurning vegna þess að svör bárust ekki við þessum spurningum í fyrstu tilraun. Sjá spurningu 24.
-
Ábendingar í rannsóknarskýrslum Alþingis beiðni um skýrslu til forsætisráðherra
Á 146. þingi þá flutti Einar Brynjólfsson, þingmaður Pírata í NA kjördæmi, ræðu um rannsókn á fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands. Þar hafði hann ætlað að mæta með rannsóknarskýrslur Alþingis um hrun bankanna í ræðustól en aðstæður gerðu það að verkum að hann náði því ekki. Ég hljóp því niður í fundarherbergi og náði í staflann sem Einar vísaði svo til í ræðu sinni. Svandís Svavarsdóttir fór svo í andsvör við flutningsræðu Einars og sagði meðal annars: “Við tókum til að mynda við þyngsta pakkanum, þ.e. stóru rannsóknarskýrslunni, öllum bindunum, töluvert innblásin og fjölluðum um það í nefndum í framhaldinu o.s.frv. og samþykktum 63:0 alls konar áform um að breyta og bæta vinnubrögð okkar og laga allt til framtíðar. Sumt af því hefur gerst en annað alls ekki.”
Þessi orð, “sumt af því hefur gerst en annað alls ekki”, ásamt því að vera með þennan hálfa meter af rannsóknarskýrslum fyrir framan mig bjó til þessa skýrslubeiðni um ábendingar í rannsóknarskýrslum til Alþingis. Að það væri gríðarlega nauðsynlegt að láta ekki alla þessa vinnu gleymast því það voru mjög miklir peningar og vinna sett í að greina og leggja til úrlausnir við þeim vandamálum sem orsökuðu hrunið.
-
Ábendingar í rannsóknarskýrslum Alþingis og viðbrögð við þeim fyrirspurn til forseta
Þetta er svipað og skýrslubeiðnin til forsætisráðherra um ábendingar í rannsóknarskýrslum Alþingis. Sumar ábendingarnar beindust að Alþingi, því þarf forseti Alþingis að svara til um það.
-
Birting gagna fyrirspurn til fjármála- og efnahagsráðherra
Það tók rúman mánuð að svara þessu. Svarið er í heildina 98 orð og segja í raun efnislega ekki neitt. Lengri lýsing mín á svarinu en svarið var er:
Ég ætla að vitna í orð Mikka refs þegar ég segi, þetta er það mesta bull sem ég hef nokkurn tíma heyrt. Það er gersamlega fáránlegt að ráðherra komist upp með að svara svona.
Í fyrsta lagi var skýrslan ekki unnin að frumkvæði Bjarna, hann tók sér þá ábyrgð að gera þessa skýrslu af þingnefnd sem hafði áform um að láta gera samskonar skýrslu. Hvers vegna nefndin leyfði Bjarna að taka skýrsluna í sínar hendur hef ég ekki hugmynd um.
Í öðru lagi þá kemur það "frumkvæði" nákvæmlega ekkert við hvort ráðherra á að sinna upplýsingaskyldu sinni eða ekki. Ef ráðherra fær upplýsingar í hendurnar sem varða almannahag þá á, samkvæmt siðareglum, ráðherra að hafa _frumkvæði_ að því að birta slíkar upplýsingar.
Í þriðja lagi er ráðherra að segja þarna að það hafi einmitt ekkert mat verið gert á því hvort ráðherra hafi haft undir höndunum upplýsingar sem vörðuðu almannahag. Það eitt og sér er stórkostlega athugavert. Það er bara sagt að efni skýrslunnar hafi verið utan gildissviðs siðareglna.
Í síðasta lagi þá segist ráðuneytið kappkosta að birta almenningi allt það efni á hvern þann hátt sem er talinn heppilegastur hverju sinni ... eða með öðrum orðum, ef það er skýrsla með upplýsingar sem varða almannahag og fjallar efnislega um ástæður þess að blásið var snemma til kosninga, þá er bara heppilegt að stinga þeirri skýrslu ofan í skúffu.
Ég lýsi hér með yfir skýlausu vantrausti mínu á fjármála- og efnahagsráðherra --- ef það var nokkurn tíma í vafa þá er best að gera grein fyrir því hér og nú svo það velkist enginn í vafa um það.
-
Efnisgjöld á framhaldsskólastigi óundirbúin fyrirspurn til mennta- og menningarmálaráðherra
Þetta var óundirbúin fyrirspurn vegna þess að í fjárlagagerðinni samþykkti Alþingi að veita 250 milljónum til framhaldsskóla vegna kostnaðar við að fella burt heimild þeirra til þess að rukka fyrir efnisgjöld. Það kom hins vegar ábending um það að það ætti að nota þennan pening til þess að endurgreiða eldri efnisgjöld sem höfðu verið ofrukkuð.
-
Eftirlit með vátryggingaskilmálum fyrirspurn til fjármála- og efnahagsráðherra
Eftirlit “eftir því sem kostur er” er mjög undarlegt eftirlit. Af einhverjum ástæðum eru engir aðgengilegir verðmiðar á tryggingum. Það eru verðmiðar á bílum, mjólk og bíómiðum en ekki tryggingum og eftirlit “eftir því sem kostur er” með slíkri verðmiðalagningu er stórkostlega undarlegt. Hér er verið að grennslast fyrir um hvaða skilningur er lagður í svona skilyrt eftirlit.
-
Ferðakostnaður og dagpeningar ráðherra fyrirspurn til ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra
-
Ferðakostnaður og dagpeningar ráðherra fyrirspurn til félags- og jafnréttismálaráðherra
-
Ferðakostnaður og dagpeningar ráðherra og ráðuneytisstjóra fyrirspurn til forsætisráðherra
-
Ferðakostnaður og dagpeningar ráðherra og ráðuneytisstjóra fyrirspurn til fjármála- og efnahagsráðherra
-
Ferðakostnaður og dagpeningar ráðherra og ráðuneytisstjóra fyrirspurn til dómsmálaráðherra
-
Ferðakostnaður og dagpeningar ráðherra og ráðuneytisstjóra fyrirspurn til heilbrigðisráðherra
-
Ferðakostnaður og dagpeningar ráðherra og ráðuneytisstjóra fyrirspurn til samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra
-
Ferðakostnaður og dagpeningar ráðherra og ráðuneytisstjóra fyrirspurn til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra
-
Ferðakostnaður og dagpeningar ráðherra og ráðuneytisstjóra fyrirspurn til mennta- og menningarmálaráðherra
-
Ferðakostnaður og dagpeningar ráðherra og ráðuneytisstjóra fyrirspurn til utanríkisráðherra
-
Ferðakostnaður og dagpeningar ráðherra og ráðuneytisstjóra fyrirspurn til umhverfis- og auðlindaráðherra
Ein spurning til allra ráðherra. Ráðherrar eru á lægri dagpeningum en gengur og gerist vegna þess að ákveðinn kostnaður er greiddur fyrir þá og þar af leiðandi ekki gert ráð fyrir því að dagpeningar greiði þann hluta. Hins vegar eru reglur um dagpeninga þannig að ef ráðherrar fá einhvers konar hlunnindi, eins og til dæmis far á ráðherrabílnum á flugvöllinn þá á að draga þann hluta frá dagpeningunum, þar sem dagpeningarnir eiga að duga fyrir þeim kostnaði. Fyrirspurnin snýst um upphæðir, til þess að skilja umfangið, og hvort það sé í raun og veru verið að draga hlunnindi frá dagpeningum eða ekki.
-
Formleg erindi frá heilbrigðisstofnunum fyrirspurn til heilbrigðisráðherra
Það bárust kvartanir til fjárlaganefndar að erindum til Heilbrigðisráðuneytisins væri ekki svarað. Svarið leiddi í ljós að enn væri verið að svara nokkrum erindum sem bárust á síðasta ári. Þetta er aðhalds- og eftirlitsspurning. Er stjórnsýslan að sinna þeim skyldum sem henni ber að fylgja?
-
Framkvæmd laga um almennar íbúðir og húsnæðissamvinnufélög fyrirspurn til félags- og jafnréttismálaráðherra
Ný lög um húsnæðissamvinnufélög voru samþykkt 2016 til þess að gera öllum auðveldara fyrir að stofna slík félög. Fréttir um að það tæki marga mánuði af skriffinnsku og veseni að búa til slík félög koma því á óvart og mikilvægt að athuga hvort það sé einhver galli í lögunum eða hvað veldur því að þau séu ekki að ná markmiðum sínum.
-
Fæðingarstaður barns fyrirspurn til samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra
Hinn hluti þessarar spurningar er orðinn dálítið alræmdur, það voru einhverjir að hneykslast á því að ég að spyrja um nafn höfuðborgarinnar, eins og það væri ekki augljóst. En eins og sést á þessu svari þá er það alls ekkert augljóst. Sumstaðar er fæðingarstaður skráður sem sveitarfélag (sem væri þá Reykjavíkurborg) en til dæmis í tilviki Reykjarvíkur og Akureyrar, þá er nafn þeirra bæjarfélaga skráð þó um fæðingar utan þeirra, í sama sveitarfélagi, sé um að ræða. Annað áhugavert við svarið við þessari spurningu er “Þjóðskrá Íslands hefur ekki borist tilkynning um breytingu á heitum þessara sveitarfélaga”. Samt eru þessi nöfn rétt skráð hjá rsk.is. Spurning hversu lengi skráningin hefur verið “Reykjavíkurborg” þar sem þar stendur líka: “Stofnað/Skráð: 13.02.1969”.
-
Hnjask á atkvæðakössum fyrirspurn til dómsmálaráðherra
Eftirfylgnispurning vegna þriðju spurningarinnar á þessum lista. Í svari við spurningu 3. þá pössuðu upplýsingarnar ekki við þær staðreyndir málsins sem ég hafði. Því þurfti ég að ítreka spurninguna.
-
Húsnæði ríkisins í útleigu fyrirspurn til fjármála- og efnahagsráðherra
Á 146. þingi spurði ég um leigukostnað stofnanna. Svörin voru mjög áhugaverð og hafa gagnast mjög vel í kjölfarið í greiningu á ástæðum fyrir erfiðum rekstri ýmissa embætta og stofnanna. Í þær upplýsingar vantaði að spyrja hvort eitthvað húsnæði í eigu hins opinbera væri í útleigu til annarra aðila en stofnunum í A-hluta ríkisins. Þessi fyrirspurn fyllir upp í það gat.
-
Húsnæðis-, dvalar- og ferðakostnaður alþingismanna fyrirspurn til forseta
Þetta var tilraun til þess að fá fram hversu margir væru að þiggja húsnæðisstyrk eða ferðakostnað. Markmiðið með þessari spurningu var að sýna fram á (án þess að þurfa að nafngreina) að ákveðnir þingmenn væru að þiggja húsnæðisgreiðslur þrátt fyrir að segjast ekki gera það. Eins og sést í svarinu þá þiggja allir þingmenn NA-kjördæmis húsnæðisgreiðslur (amk. grunnfjárhæð).
-
Kaup á ráðgjafarþjónustu fyrirspurn til fjármála- og efnahagsráðherra
Þessi fyrirspurn er gagnaöflunarspurning. Markmiðið er að sýna fram á það hver kostnaðurinn við ráðgjafaþjónustu er, hvernig hann hefur þróast og hvaða tegundir ráðgjafar eru dýrastar. Þær upplýsingar er svo hægt að nota í framhaldinu til þess að spara með ýmsum aðferðum.
-
Kjararáð óundirbúin fyrirspurn til fjármála- og efnahagsráðherra
Þetta var óundirbúin fyrirspurn vegna hækkunar launa fyrir setu í kjararáði um launavísitölu. Ég spurði fjármálaráðherra hvort honum þætti eðlilegt að láta kjararáð fylgja launavísitölu og þá hvort aðrir ættu ekki einnig að fá slíka hækkun. Ekki var mikið um svör.
-
Kjarasamningar framhaldsskólakennara fyrirspurn til mennta- og menningarmálaráðherra
Gögn benda til þess að í kjölfar kjarasamninga hafi framhaldsskólarnir ekki fengið það fjármagn sem munaði um vegna hækkunar launa. Laun hækkuðu semsagt en ekki fjármagn til framhaldsskóla. Framhaldsskólar þurftu samt að greiða kennurum hærri laun og peningurinn fyrir því þurfti þá að koma af öðrum fjárframlögum til skólanna. Ég hef nokkrum sinnum áður reynt að fá svar við þessari spurningu en mér er alltaf vísað á næsta og næsta ráðherra.
-
Kostnaður við Landeyjahöfn og Vestmannaeyjaferju fyrirspurn til samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra
Þetta er gagnasöfnun til þess að hægt sé að spyrja hvort við séum að fara vel með opinbert fé eða ekki. Miðað við upphæðirnar sem virðast fara í þessi verkefni, væri hægt að gera eitthvað annað úrræði varanlegt, fyrir minni pening?
-
Landvarsla fyrirspurn til umhverfis- og auðlindaráðherra
-
Landverðir óundirbúin fyrirspurn til umhverfis- og auðlindaráðherra
Umhverfisráðherra segir að það eigi að fjölga landvörðum, enda ekki vanþörf á. Allar greiningar segja að landvarsla sé ódýrt og skilvirkt úrræði til þess að glíma við aukið álag vegna ferðamanna. Upplýsingar annarsstaðar frá segja hins vegar að landvörðum sé ekkert að fjölga miðað við síðasta ár. Þegar það eru misvísandi upplýsingar þá sendir maður inn fyrirspurn til þess að fá opinbera heimild um hvað sé rétt.
-
Notkun akstursbóka í bifreiðum Alþingis og greiðslur dagpeninga til forseta Alþingis fyrirspurn til forseta
Ég spurði um ferðakostnað þingmanna. Það er algjör óþarfi að skilja forseta Alþingis eftir útundan. Hann er með aðgang að bifreiðum Alþingis og sá aðgangur verður að teljast með sem hluti af akstursstyrkjum til hans.
-
Nöfn sveitarfélaga fyrirspurn til samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra
Þessi fyrirspurn olli smá undrun. Skiljanlega þar sem samhengið við spurninguna um fæðingarstað barna var ekki augljós. Þessar spurningar voru ein spurning en þeim var skipt í tvær í meðferð þingsins. Ég hefði átt að sjá að sú skipting var óhentug út af samhenginu en fannst það ekki skipta máli af því að upplýsingarnar sem ég var að biðja um myndu komast til skila hvort sem var. Eftir á að hyggja, út af athyglinni sem þessi fyrirspurn fékk en ekki aðalspurningin um fæðingarstað barna, þá hefði ekki átt að skipta þessum spurningum í tvennt. Man það bara næst.
-
Ráðgjöf vegna siðareglna fyrirspurn til forsætisráðherra
Siðareglur ráðherra hafa verið mér ofarlega í huga síðan fjármálaráðherra ákvað að stinga skýrslu um skattaskjól undir stól rétt fyrir kosningar. Þetta er ein af nokkrum fyrirspurnum sem ætlað er að fylla upp í atburðarrásina og komast að því hvernig siðareglur ráðherra eru notaðar.
-
Ráðherrabílar og bílstjórar fyrirspurn til forsætisráðherra
-
Ráðherrabílar og bílstjórar fyrirspurn til samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra
-
Ráðherrabílar og bílstjórar fyrirspurn til heilbrigðisráðherra
-
Ráðherrabílar og bílstjórar fyrirspurn til dómsmálaráðherra
-
Ráðherrabílar og bílstjórar fyrirspurn til mennta- og menningarmálaráðherra
-
Ráðherrabílar og bílstjórar fyrirspurn til fjármála- og efnahagsráðherra
-
Ráðherrabílar og bílstjórar fyrirspurn til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra
-
Ráðherrabílar og bílstjórar fyrirspurn til utanríkisráðherra
-
Ráðherrabílar og bílstjórar fyrirspurn til ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra
-
Ráðherrabílar og bílstjórar fyrirspurn til umhverfis- og auðlindaráðherra
-
Ráðherrabílar og bílstjórar fyrirspurn til félags- og jafnréttismálaráðherra
Í kosningabaráttunni fyrir síðustu kosningar tók ég eftir að ráðherrabíll forsætisráðherra var lagt fyrir utan fund vegna kosninganna. Svoleiðis fundur er ekki vegna starfa hans sem ráðherra heldur hlýtur hann að vera þar sem frambjóðandi. Markmið þessara spurninga er að komast að því hversu mikið þeir eru notaðir og hvernig skráningum á notkun þeirra er háttað, þegar ráðherrabíll er notaður til þess að hjálpa frambjóðanda að fara á kosningafund, hver borgar?
-
Ráðningar ráðherrabílstjóra fyrirspurn til forsætisráðherra
-
Ráðningar ráðherrabílstjóra fyrirspurn til fjármála- og efnahagsráðherra
-
Ráðningar ráðherrabílstjóra fyrirspurn til dómsmálaráðherra
-
Ráðningar ráðherrabílstjóra fyrirspurn til ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra
-
Ráðningar ráðherrabílstjóra fyrirspurn til félags- og jafnréttismálaráðherra
-
Ráðningar ráðherrabílstjóra fyrirspurn til heilbrigðisráðherra
-
Ráðningar ráðherrabílstjóra fyrirspurn til mennta- og menningarmálaráðherra
-
Ráðningar ráðherrabílstjóra fyrirspurn til samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra
-
Ráðningar ráðherrabílstjóra fyrirspurn til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra
-
Ráðningar ráðherrabílstjóra fyrirspurn til umhverfis- og auðlindaráðherra
-
Ráðningar ráðherrabílstjóra fyrirspurn til utanríkisráðherra
Allir ráðherrabílstjórarnir eru karlmenn, af einhverjum orsökum. Kannski af því að það voru bara karlkyns umsækjendur. Miðað við þau svör sem hafa borist þá virðist það vera málið.
-
Rekstur framhaldsskóla fyrirspurn til mennta- og menningarmálaráðherra
Rekstur framhaldsskóla hefur verið mjög tæpur á undanförnum árum, af ýmsum ástæðum. Þar spila inn í kjarasamningar framhaldsskólakennara og fjárframlög sem skólarnir fá (eða ekki) vegna þeirra, aðhaldskrafa vegna Hrunsins, brottfall nemenda, hvernig reiknilíkanið sem á að segja til um fjárframlög er notað og svo framvegis. Nú þegar það er verið að stytta námið í framhaldsskólum og loforðum um að það hafi ekki áhrif á fjárframlög til framhaldsskólanna, þá þarf að safna upplýsingum um hvernig þessi mál hafa þróast á undanförnum árum.
-
Rekstur háskóla fyrirspurn til mennta- og menningarmálaráðherra
Svipuð spurning og númer 58, nema um háskólana.
-
Samræmd próf fyrirspurn til mennta- og menningarmálaráðherra
-
Samræmd próf og innritun í framhaldsskóla fyrirspurn til mennta- og menningarmálaráðherra
Markmið þessara spurninga var að fá fagleg rök fyrir því af hverju samræmd próf eru haldin og hvort það sé eðlilegt að þau séu “áhættupróf”. Nú hefur verið ákveðið að hætta að leyfa framhaldsskólum að nota niðurstöður samræmdra prófa sem viðbótargögn í umsóknarferli nemenda í framhaldsskóla (aftur). Samræmdu prófin eru því aftur orðin samræmd könnunarpróf sem valda nemendum ekki áhættu vegna umsóknar í framhaldsskóla.
-
Siðareglur og upplýsingagjöf fyrirspurn til forsætisráðherra
-
Siðareglur ráðherra óundirbúin fyrirspurn til forsætisráðherra
Fleiri spurningar um siðareglur ráðherra. Það er ekki augljóst hvar ábyrgðin og eftirfylgnin liggur. Miðað við svör forsætisráðherra þá er það ábyrgð hvers ráðherra að framfylgja siðareglum og forsætisráðuneytið hefur bara leiðbeinandi hlutverk.
-
Skriflegt svar við fyrirspurn þingmanns fyrirspurn til fjármála- og efnahagsráðherra
Þetta er spurning vegna fyrirspurnar sem var ekki svarað, þrátt fyrir að það hafi verið farið langt fram yfir lögboðinn svartíma. Þessi fyrirspurn var gerð til þess að komast að því hvar svarið strandaði og af hverju.
-
Stuðningur við Fjölskyldumiðstöð Rauða krossins fyrirspurn til félags- og jafnréttismálaráðherra
-
Stuðningur við Samtök umgengnisforeldra fyrirspurn til félags- og jafnréttismálaráðherra
Þessar tvær fyrirspurnir tengjast breytingum sem hafa verið gerðar í málaflokki umgengnismála barna. Ráðuneytið hefur ákveðið að fjármagna ekki úrræði sem voru mikið notuð án þess að neitt kæmi í staðinn.
-
Styrkir til tölvuleikjagerðar fyrirspurn til mennta- og menningarmálaráðherra
Kvikmyndagerð fær gríðarlega mikla styrki. Hvers vegna ekki tölvuleikjagerð?
-
Störf þingmanna á vegum framkvæmdarvaldsins fyrirspurn til forsætisráðherra
-
Störf þingmanna á vegum framkvæmdarvaldsins fyrirspurn til fjármála- og efnahagsráðherra
-
Störf þingmanna á vegum framkvæmdarvaldsins fyrirspurn til dómsmálaráðherra
-
Störf þingmanna á vegum framkvæmdarvaldsins fyrirspurn til heilbrigðisráðherra
-
Störf þingmanna á vegum framkvæmdarvaldsins fyrirspurn til mennta- og menningarmálaráðherra
-
Störf þingmanna á vegum framkvæmdarvaldsins fyrirspurn til samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra
-
Störf þingmanna á vegum framkvæmdarvaldsins fyrirspurn til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra
-
Störf þingmanna á vegum framkvæmdarvaldsins fyrirspurn til umhverfis- og auðlindaráðherra
-
Störf þingmanna á vegum framkvæmdarvaldsins fyrirspurn til utanríkisráðherra
Það að þingmenn starfi undir boðvaldi ráðherra er alvarlegt mál. Þannig verða skilin á milli framkvæmdavalds og löggjafarvalds mjög óskýr og þingið getur lent í hagsmunaárekstrum þegar það á að sinna eftirlitshlutverki sínu gagnvart framkvæmdavaldinu. Þetta eru gagnaöflunarspurningar til þess að fá upplýsingar um umfang þeirra verkefna sem þingmenn vinna fyrir framkvæmdavaldið.
-
Túlkun siðareglna fyrirspurn til forsætisráðherra
Enn ein spurningin um siðareglur ráðherra. Hér er verið að spyrja um ráðgjöf forsætisráðherra vegna siðareglna.
-
Úrskurðir sýslumanns í umgengnismálum fyrirspurn til dómsmálaráðherra
Sýslumaður virðist taka sér löggjafarvald þegar hann úrskurðar í umgengnismálum. Einnig virðist málsmeðferð brjóta í bága við barnaverndarlög. Þetta var fyrirspurn til munnlegs svars. Svar ráðherra var á þann veg að það þarf að fylgja því á eftir með skriflegri fyrirspurn til þess að fá nákvæmari svör.
Athugasemdir