Dómsmálaráðherra gerði eina smávægilega orðalagsbreytingu á reglugerð um útlendinga vegna athugasemda Rauða krossins, en sendi út sérstaka tilkynningu um að ráðuneytið hefði tekið tillit til gagnrýni samtakanna.
Stundin greindi nýlega frá því að Sigríður Andersen dómsmálaráðherra hefði sett reglugerð sem þrengir að réttindum hælisleitenda þann 6. mars síðastliðinn, sama dag og umræða og atkvæðagreiðsla um vantraust á hana fór fram. Reglugerðin felur í sér að skilyrði fyrir því að stjórnvöld geti tekið umsóknir hælisleitenda til efnismeðferðar vegna heilsufarsástæðna eru þrengd verulega.
Eftir að Rauði krossinn gagnrýndi reglugerðina og Stundin fjallaði um málið sendi ráðuneytið frá sér tilkynningu um að brugðist hefði verið við gagnrýni Rauða krossins. „Tekið var tillit til athugasemda Rauða krossins þannig að mat stjórnvalda var rýmkað hvað varðar það að heilbrigðisþjónusta teldist ekki óaðgengileg þrátt fyrir að greiða þyrfti fyrir hana.“
Rauði krossinn hafði í umsögn gagnrýnt sérstaklega þá málsgrein sem snýr að getu hælisleitenda til að borga fyrir heilbrigðisþjónustu. „Möguleikar þeirra til að afla sér tekna eru verulega skertir og ekki hægt að gera þá kröfu að þeir greiði fyrir nauðsynlega heilbrigðisþjónustu,“ sagði í umsögn Rauða krossins.
Þegar borin eru saman drög að reglugerðinni frá 11. desember 2017 og endanleg útgáfa hennar frá 6. mars er ekki að sjá að tekið hafi verið tillit til athugasemda Rauða krossins nema að mjög litlu leyti.
Drögin voru birt opinberlega í tvær vikur og bárust umsagnir frá Rauða krossinum og fleiri aðilum. Þá var fulltrúum Rauða krossins boðið til fundar vegna málsins. Textinn í drögunum og endanlegri reglugerð er hins vegar samhljóða, fyrir utan orðin „að öllu jöfnu“.
Málsgreinin snýr að því hvort meðferð vegna alvarlegra veikinda hælisleitanda teljist óaðgengileg ef greiða þurfi fyrir hana. „Meðferð telst, að öllu jöfnu, ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð er til í viðtökuríkinu en viðkomandi muni ekki standa hún til boða, eða ef umsækjanda, vegna þungunar, stendur ekki til boða fullnægjandi fæðingaraðstoð í viðtökuríki,“ segir í reglugerðinni.
Í svari dómsmálaráðuneytisins við fyrirspurn Stundarinnar segir að með orðunum „að öllu jöfnu“ hafi verið tekið tillit til athugasemda Rauða krossins. „Með þessari viðbót var matið rýmkað frá því sem áður var þannig að gert er ráð fyrir tilvikum þar sem meðferð geti verið óaðgengileg ef greiða þurfi fyrir hana,“ segir í svarinu. „Árétta má að í reglugerðinni er að finna almenn viðmið sem líta ber til við meðferð mála og því ekki tæmandi talin þau tilvik sem stjórnvöldum ber eða er heimilt að líta til við afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd í þeim tilvikum er Dyflinnarreglugerðin á við.“
Veik börn verði send úr landi
Rauði krossinn gagnrýndi reglugerðina harðlega þegar hún var staðfest, en í henni kemur meðal annars fram að heilsufar hælisleitenda skuli hafa „takmarkað vægi“ nema ákveðin skilyrði séu uppfyllt. Þau skilyrði gætu verið að hælisleitendur glími við „mikil og alvarleg veikindi, svo sem skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm og meðferð við honum [sé] aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki“.
Í umsögn frá Rauða krossinum er bent á að þessi hertu skilyrði nái bæði til fullorðinna og barna. „Þannig virðist vera gert ráð fyrir að börn sem eru haldin sjúkdómi sem ekki nær þeim alvarleikaþröskuldi að teljast skyndilegur og lífshættulegur skuli endursend til viðtökuríkis, jafnvel þó að foreldrar barnsins muni þurfa að greiða fyrir meðferð við sjúkdómnum í viðtökuríki, án þess að frekara mat fari fram á einstaklingsbundnum aðstæðum barnsins.“
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur sagt að sér hafi ekki verið kunnugt um efnisinnihald reglugerðarinnar fyrr en eftir að hún var sett.
Athugasemdir