Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdarstjóri ASÍ, segir að félagslegu undirboðin hjá hestaleigum sem Stundin fjallaði um í nýjasta tölublaði séu skólabókardæmi um brotastarfsemi sem sé alltof algeng í ferðaþjónustu á Íslandi.
Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands, er sama sinnis og segir sambandið hafa verulegar áhyggjur af félagslegum undirboðum hjá hestaleigufyrirtækjum.
Umfangið er gríðarlegt, en upplýsingar sem Stundin aflaði frá hestaleigum benda til þess að sum fyrirtækjanna spari sér tugi milljóna á hverju ári með því að notfæra sér ódýrt erlent vinnuafl, sjálfboðaliða og fólk í ólaunaðri vinnu, og öðlist þannig gríðarlegt samkeppnisforskot gagnvart þeim fyrirtækjum sem fylgja lögum og greiða starfsfólki samkvæmt kjarasamningum.
„Í raun er þetta ekkert annað en launaþjófnaður,“ segir Halldór Grönvold og bendir á að ólíkt því sem tíðkast víða annars staðar séu kjarasamningar á Íslandi lágmarksréttindi samkvæmt lögum. Það að fylgja þeim ekki feli í sér launaþjófnað.
Birtingarmyndirnar séu einkum þrenns konar. „Í fyrsta lagi eru greidd laun langt undir kjarasamningum, það er ein myndin. Önnur myndin er þegar starfsmenn eru ráðnir sem sjálfboðaliðar en látnir vinna störf sem kjarasamningar gilda um. Í þriðja lagi er algengt að menn skýli sér á bak við að fólk komi í einhvers konar starfsnám eða starfsþjálfun. Í grunninn er þetta ekkert annað en brotastarfsemi, því um þessi störf gilda kjarasamningar og kjarasamningar kveða á um lágmarksréttindi varðandi laun og önnur starfskjör. Allt annað er með öllu ólíðandi.“
„Í grunninn er þetta ekkert
annað en brotastarfsemi“
Samkvæmt íslenskum lögum eru sjálfboðastörf einungis réttlætanleg þegar um er að ræða vinnu fyrir mannúðar- eða hjálparsamtök, verkefni sem lúta að náttúruvernd eða störf sem ellegar væru ekki unnin. Um önnur störf gilda ákvæði kjarasamninga. Ólaunuð vinna við „efnahagslega starfsemi“ – það er framleiðslu og sölu á vöru eða þjónustu á markaði, oftast í hagnaðarskyni og í samkeppni við fyrirtæki í sömu atvinnustarfsemi – felur hins vegar í sér óásættanleg undirboð.
Halldór segir mörg dæmi um að fólki sem hefur starfað á launum hjá ferðaþjónustufyrirtækjum sé rutt út og ungt fólk, ólaunað eða á launum langt undir kjarasamningum, tekið inn í staðinn. „Þetta kemur líka auðvitað niður á þeim fyrirtækjum sem starfa heiðarlega, þeirra samkeppnisstaða verður óásættanleg. Loks er verið að hafa af tekjur af samfélaginu, því það fylgir þessari brotastarfsemi að ekki eru greiddir skattar og skyldur til að halda uppi samneyslunni.“
Hann bendir á að oft setji strik í reikninginn að ungt fólk sem kemur til Íslands til að sinna ólaunaðri vinnu sjái ekki ástæðu til að sækja rétt sinn. Auk þess séu starfsmenn gjarnan ótryggðir og átti sig ekki á því hvaða staða kemur upp ef þeir slasast við vinnu.
En hvað er til ráða? „Í fyrsta lagi þarf að upplýsa fólk um réttindi þess, bæði atvinnurekendur og launamenn, um þær reglur sem gilda hérna svo menn geti ekki skákað í skjóli þess að segjast ekki vita betur. Í öðru lagi þarf að reyna að fá einstaklingana sem er brotið á til að koma fram fyrir skjöldu og sækja rétt sinn. Í þriðja lagi höfum við, okkar fulltrúar, heimild til að fara inn á vinnustaði og fá upplýsingar um ráðningarsamninga, launaseðla og vinnuskýrslur og kanna hvort verið sé að efna kjarasamninga. Ríkisskattstjóri hefur auðvitað ríkari heimildir til að fara yfir bókhald fyrirtækjanna, og það hlýtur að koma til kasta þess embættis þegar menn stunda einbeitta brotastarfsemi. Embættið áætlaði fyrir nokkrum árum að ríkið færi á mis við um 80 milljarða á ári vegna skattaundanskota og það er alveg ljóst að verulegur hluti af þessu á sér stað í ferðaþjónustunni þar sem er mjög mikið um launaþjófnað.“
Drífa Snædal hjá Starfsgreinasambandinu segir að sambandið hafi haft sérstakar áhyggjur af þessum geira.
„Því þarna er oft spilað inn á að það sé eftirsóknarvert að fá að umgangast íslenska hestinn, jafnvel svo eftirsóknarvert að það þurfi ekki að greiða fólki laun fyrir að vinna við það,“ segir hún í samtali við Stundina.
Hún bendir á að ólaunuð vinna er sjaldan talin fram til skatts. „Svo á auðvitað að gefa hlunnindi upp til skatts, svo þarna er líklega verið að svíkja sameiginlega sjóði um háar fjárhæðir.“ Þá séu tryggingamál starfsfólk áhyggjuefni.
Starfsmenn séu ekki skyldutryggðir og hestaleigurnar geti bakað sér skaðabótaskyldu þegar starfsmenn slasast. „Fyrirtækin eru að leika sér að eldinum, varðandi laun, gagnvart skattinum og gagnvart tryggingum starfsfólks. Ef manneskja örkumlast er fyrirtækið skaðabótaskylt gagnvart öllum skaðanum og tekjumissinum og það eru fordæmi fyrir því að háar fjárhæðir lendi á fyrirtækjunum. En fyrst og fremst er þessi starfsemi, ólaunaða vinnan, svik við fólkið sem þarna starfar og samfélagið allt.“
Athugasemdir