Ljósmæður eru í kjarabaráttu. Það hefur varla farið framhjá nokkrum manni en það má segja að stéttin hafi misst af launalestinni trekk í trekk í 257 ár. Nú erum við mættar á lestarstöðina og ætlum að fá sanngjörn sæti og komast alla leið eins og við eigum skilið.
Við erum fagfólk fram í fingurgóma, við höfum sex ára háskólanám, við erum lang flestar bæði hjúkrunarfræðingar og ljósmæður. Við veitum lífsbjargandi eftirlit og meðferðir. Við sinnum öllum konum í barneignarferli á Íslandi. Við vinnum alla daga vikunnar, allar vikur mánaðarins, alla mánuði ársins. Við vinnum þegar aðrir sofa, þegar aðrir fara í helgarfrí, þegar aðrir halda jól. Alltaf er hægt að finna ljósmóður til þjónustu reiðurbúna. Ljósmæður eru í krabbameinsleit, meðgönguvernd, þær gera ómskoðanir, þær aðstoða konur í fæðingu og taka á móti börnum, þær fylgja fjölskyldum í gegnum keisaraskurði, þær fylgja fólki fyrstu skrefin eftir fæðingu, þær fylgja fólki meira að segja alla leið heim og vitja um nýjar fjölskyldur fyrstu dagana eftir fæðingu. Þegar framtíðarsýnin brotnar í þúsund mola og gleðin verður að sorg, þar eru ljósmæður. Á Íslandi fer engin kona í gegnum barneignarferlið án þess að hitta ljósmæður.
„Fólk vill fá að vita hvað er í launaumslaginu okkar „í raun og veru“.“
En tölum um tölur. Þegar stétt á í kjarabaráttu komast í umræðuna tölur, umræða um raunveruleg laun og hvort það vanti ekki alltaf „hinn helminginn“ af laununum þegar við tölum um hvað við fáum borgað. Fólk vill fá að vita hvað er í launaumslaginu okkar „í raun og veru“.
Síðastliðna daga hef ég heyrt og séð tölur sem enginn skilur hvaðan koma. Ég fékk lánaða nokkra launaseðla starfssystra minna. Þær eru með 4-24 ára reynslu fyrst sem hjúkrunarfræðingar og svo ljósmæður með mis löngu stoppi á milli gráða. Myndirnar tala sínu máli.
Athugasemdir