Kæru lesendur, kjósendur Sjálfstæðisflokksins, prestar Þjóðkirkjunnar, siðfræðingar og aðrir Íslendingar sem þekkja muninn á réttu og röngu.
Ég vil kynna ykkur fyrir Hauki vini mínum. Hann er sagður hafa verið drepinn í Sýrlandi. Þangað fór hann í þeim eina tilgangi að verja fólk og frelsi manna undan Íslamska Ríkinu. Samkvæmt fréttum á honum að hafa bara gengið býsna vel í því verki þar til Tyrkir tóku hann úr umferð.
Áður en þú leggur niður blaðið því þú nennir ekki að heyra röflið í enn einum aumingjanum, róttæklingi og stjórnleysingja sem ekkert gagn er að, má ég kynna mig.
Ég er kallaður Lalli. Ég er villingur úr Fellunum sem snerist til kristinnar trúar á unglingsárunum. Ég starfaði í sumarbúðum KFUM&K í rúman áratug og sinnti æskulýðsstarfi í Þjóðkirkjunni um árabil. Ég hef starfað með stórum hluta íslenskra presta á einhverjum tímapunkti á fermingarnámskeiðum í Vatnaskógi. Ég hef unnið hjá Landhelgisgæslunni, leikskóla og undanfarin ár sem sjúkraliði á Landspítalanum. Ég hygg að ég sé hverjum manni jafnvígur í að þekkja muninn á réttu og röngu, góðu og illu.
Ég þekkti Hauk, hann var mér kær vinur. Ég veit að Haukur þekkti muninn á réttu og röngu betur en við flest. Það sem varð honum að falli er skortur á hæfileika sem við hin höfum; að geta litið undan. Að geta litið undan kvöld eftir kvöld fyrir framan sjónvarpskjáinn, horfandi á afhöfðanir, mannabrennur, þrælamarkaði, fjöldamorð, raðnauðganir, hrylling eftir hrylling eftir hrylling.
Haukur vissi vel að það sem hann þurfti að gera var rangt. Af tveimur röngum kostum valdi Haukur að gera eitthvað í stað þess að gera ekkert. Hann valdi að gera það sem við hin getum ekki gert af því það fer of langt út fyrir þægindarammann.
Haukur hataði stríð. Hann hataði kerfin sem ýta undir stríð. Hann sá hræsnina í stríðsþátttöku íslenska ríkisins á sama tíma og við hreykjum okkur af því að vera kristin þjóð í friðsælu landi.
Hann sá í gegnum duluna sem við hin breiðum yfir augu okkar.
Haukur fór ekki til Sýrlands til að berjast eða meiða nokkurn mann. Hann fór til Sýrlands til að sigra Íslamska Ríkið. Hann fór til að sigra óvini alls þess sem er rétt. Hann fór til að SIGRA ISIS!
Hvaða annar maður á Íslandi getur sagst hafa lagt sig fram um að SIGRA ISIS???
Ég get ekki lýst þeim harmi, sorg og óvissu sem við vinir Hauks og fjölskylda erum að ganga í gegnum. Svo virðist sem hann Haukur okkar sé annaðhvort dauður og liggur enn á einhverri hæð við einhvern bæ i Sýrlandi eða hann er í haldi Tyrkja annaðhvort lifandi eða dauður. Við vitum að það voru Tyrkneskir fjölmiðlar sem sögðu fyrst frá falli Hauks því samherjar hans geta í raun ekkert staðfest nema það sem tyrkneskir fjölmiðlar segja.
Nú vitum við fyrir víst að Haukur tók ekki þátt í bardögum með skilríki á sér. Það höfum við fengið staðfest frá félögum Hauks í Sýrlandi. Við höfum líka fengið staðfestingu á því að enginn af félögum Hauks hafi séð hann deyja eða séð lík hans eða að hann hafi yfir höfuð látist. Enginn sá Hauk falla. Tveir félagar Hauks sem voru með honum enduðu á tyrknesku sjúkrahúsi og dóu þar. Hæðin sem Haukur á að hafa verið felldur á hefur verið undir stjórn bandamanna íslenska ríkisins síðan.
Hvar er þá Haukur?
Það sem við ástvinir Hauks erum núna að ganga í gegnum er sú hugsun að mögulega hafi Haukur náðst lifandi og því viti þeir nafn hans, Okkar martröð er rétt að byrja þegar við leiðum hugann að því að í tæpan mánuð geti Haukur hafa verið í haldi bandamanna íslenska ríkisins með réttarstöðu hryðjuverkamanns.
Við sem höfum séð í gegnum duluna í mörg ár en litið undan vitum vel hvaða meðferð bíður hryðjuverkamanna í haldi bandamanna okkar í hermálum.
Frá því 6. mars hafa ástvinir Hauks unnið sleitulaust að því að finna hann, Ég hef heyrt út undan mér hvað hún Eva okkar, móðir Hauks sé nú sterk og hvað allir eru samhentir um að vera sterk og finna Hauk. Sannleikurinn er hinsvegar sá að við brotnum daglega undan vanmætti okkar.
Vill einhver hjálpa okkur?
Getur einhver sem þekkir muninn á réttu og röngu staðið með okkur á þessum erfiðu tímum?
Það er nógu erfitt fyrir okkur sem elskum Hauk að glíma við sorgina, missinn og óvissuna.
Að þurfa á sama tíma að glíma við íslenska ráðamenn sem eru bandamenn þeirra er bera ábyrgð á hvarfi Hauks er ekki að hjálpa. Enginn þeirra þorir að taka afstöðu með Hauki og því réttlæti sem hann barðist fyrir. Enginn þeirra vill taka afstöðu til þess hvort Haukur hafi verið réttdræpur eða réttlátur.
Getur einhver tekið af okkur byrðarnar í smá stund og barist fyrir okkur um að fá Hauk heim, þó ekki væri nema í einn dag?
Við þráum hvíld.
Getið þið prestar sem mig þekkja, þið siðfræðingar og allir góðir menn sem vitið skyn góðs og ills hjálpað okkur? Getið þið tekið eitt augnablik úr lífi ykkar til að gúggla orðunum “Constitution of Rojava” og lesið þá stefnuskrá. Ef þið viljið komast nálægt því að skilja Hauk Hilmarsson er best að byrja á því að kynna sér það sem hann fór til að verja. Látið í ykkur heyra! Var vinur minn réttdræpur?
Getur einhver hjálpað okkur að finna Hauk?
Það er meiri huggun af lemstruðu DNA sýni af einhverri hæð í Sýrlandi heldur en ekkert.
Sorgin hefur beygt okkur en það er óvissan sem brýtur.
Vill einhver hjálpa okkur?
Getið þið góðu menn og konur sem byggja Ísland og þekkið muninn á réttu og röngu hjálpað okkur?
Getið þið útskýrt fyrir ráðamönnum þessa lands að við erum í raun ekki öll sammála um nauðsyn þess eða siðferðislegt réttlæti að drepa annað fólk í pólitískum tilgangi?
Getið þið útskýrt fyrir ráðamönnum hvaða hrylling við erum að kalla yfir annað fólk með þátttöku í stríðsrekstri?
Spyrjið okkur sem nú söknum Hauks.
Það er okkar veruleiki þessa daganna.
____________________
Grein Lárusar Páls Birgissonar sjúkraliða birtist upphaflega í Morgunblaðinu þar sem lesendur þess voru sérstaklega ávarpaðir. Hann gaf Stundinni leyfi til að birta greinina hér.
Athugasemdir