Forstjóri Landspítalans, Páll Matthíasson, hafnar algjörlega öllum hugmyndum um að spítalinn verði tekinn út af reglulegum fjárlögum. Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, flaggaði slíkum hugmyndum í blaðagrein í vikunni og vísaði til skýrslu Ríkisendurskoðunar um Sjúkratryggingar Íslands, þar sem meðal annars er fjallað um samninga við Landspítalann um framleiðslutengda fjármögnun. Páll segist í svari til Stundarinnar fullkomlega ósammála því. „Það sem nú hefur komið fram í grein Óla Bjarnar Kárasonar er að að minnsta kosti sumir þingmenn sjá í þessum samningi tækifæri til einkavæðingar með því að færa lögbundna þjónustu spítalans í hendur einkaaðila. Það stóð aldrei til og var aldrei til umræðu, eins og fram kemur í samningi um framleiðslutengda fjármögnun, eða ásetningur Landspítala enda er starfsemi sjúkrahússins bundin í lögum og verður ekki breytt nema þá með lagabreytingu.“
Óli Björn vill frekari einkarekstur
Í umræddri blaðagrein lýsti Óli Björn því að hann teldi rétt að Landspítalinn yrði tekinn út af reglulegum fjárlögum og fjármögnun klínískrar þjónustu hans yrði „framleiðslutengd“. Jafnframt lýsti Óli Björn því að nýta ætti einkarekstur í mun meira mæli í heilbrigðisþjónustunni.
Gerður var samningur milli Sjúkratrygginga Íslands og Landspítala um framleiðslutengda fjármögnun, fyrst árið 2016 og svo aftur árið 2017. Með fyrri samningnum átti að leiða í ljós þau áhrif sem breytt fjármögnunaraðferð myndi hafa. Breytt fjármögnun átti að auka gagnsæi þar sem þjónustan yrði kostnaðargreind. Seinni samningurinn, sem gildir út árið 2019, byggir á sömu forsendum og er markmið hans að tengja saman fjármögnun spítalans og umfang þjónustu til að tryggja árangursríka heilbrigðisþjónustu og hagkvæma nýtingu fjármuna. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að hafa beri í huga að samningurinn hafi ekki áhrif á umfang fjármögnunarinnar, heldur einungis form og fjármagn sé ákvarðað á fjárlögum hvers árs.
„Afstaða Óla Bjarnar er ekki síður einkennileg í ljósi þess að í umræddri skýrslu Ríkisendurskoðunar er sérstaklega ítrekað að samningar Sjúkratrygginga Íslands við einkaaðila hafi hvorki leitt til hagræðingar né annars ávinnings“
Stundin setti sig í samband við Pál Matthíasson vegna skrifa Óla Bjarnar. Í svörum Páls kemur fram að Landspítalinn hafi lengi bent á að aðlaga þurfi fjárveitingar til spítalans að þeirri eftirspurn sem sé eftir þjónustu hans, hvort sem um er að ræða klíníska þjónustu, vísindastörf eða menntun. „Það sem aðrar þjóðir hafa gert er að nota þessar raunmælingar á framleiðslu til að ákvarða fjárframlög til einstakra sjúkrahúsa. Við höfum ítrekað kallað eftir því að hið sama væri gert hér hvað varðar Landspítala, að fjárframlög taki mið af eftirspurn. Eftirspurn eftir þjónustu hefur aukist geysilega síðustu ár, vegna mannfjölgunar og öldrunar þjóðarinnar en líka vegna aukinnar byrði langvinnra sjúkdóma og annarra þátta. Þetta hefur alls ekki endurspeglast í fjárlögum og það er auðvitað óásættanlegt fyrir sjúklinga og leiðir til þess að ekki er alltaf hægt að mæta eftirspurn.“
„Nei, alls ekki“
Páll segist hins vegar alls ekki telja að taka beri Landspítala út af reglulegum fjárlögum, hvorki varðandi klíníska þáttinn né aðra þætti. „Nei, alls ekki. Það sem við þurfum að hafa í huga er að samkvæmt lögum ber ríkinu að sjá til þess að almenningur eigi rétt á bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á hverju sinni. Landspítali er opinber stofnun og starfsemi hans er skilgreind í lögum. Það er því eðlilegt að fjármögnun hans sé sömuleiðis ákvörðuð með lögum og það kemur beinlínis fram í samningnum, að ákvörðun fjárframlaga til spítalans kemur fram á fjárlögum. Það er hins vegar bæði nauðsynlegt og æskilegt að geta stuðst við raunmælingar á framleiðslu þegar fjárframlög eru ákveðin. Það er hægt að gera með samningum, eða það sem einfaldara væri, að reikna fjárframlögin út frá slíkum raunmælingum þegar fjárlög eru smíðuð“.
Samningar við einkaaðila hafi einkaaðila hafi „hvorki leitt til hagræðingar né annars ávinnings“
Páll segir jafnframt að Landspítalinn hafi undirritað umræddan samning við Sjúkratryggingar í þeirri trú að aðilar hafi verið sammála um að með honum gæfist tækifæri til að tengja betur saman fjárveitingar og framleiðslu, sjúklingum til hagsbóta. Hins vegar hafi aldrei staðið til að færa lögbundna þjónustu í hendur einkaaðila. „Það sem nú hefur komið fram í grein Óla Bjarnar er að að minnta kosti sumir þingmenn sjá í þessum samningi tækifæri til einkavæðingar með því að færa lögbundna þjónustu spítalans í hendur einkaaðila. Það stóð aldrei til og var aldrei til umræðu. Það sem Óli Björn virðist sjá sem tækifæri í þessum samningi Landspítala og Sjúkratrygginga er að færa fé frá Landspítala yfir til einkaaðila og að með því fáist fram einhver hagræðing sem er þvert á ráðleggingar Ríkisendurskoðunar. Afstaða Óla Bjarnar er ekki síður einkennileg í ljósi þess að í umræddri skýrslu ríkisendurskoðunar er sérstaklega ítrekað að samningar Sjúkratrygginga Íslands við einkaaðila hafi hvorki leitt til hagræðingar né annars ávinnings.“
Athugasemdir