Enn hefur ekki reynt á arðgreiðslubann út úr einkareknum heilsugæslustöðvum sem Kristján Þór Júlíusson, þáverandi heilbrigðisráðherra, ákvað að setja á þetta tiltekna rekstrarform heilbrigðisþjónustu árið 2016. Sjúkratryggingar Íslands munu fyrst geta sinnt eftirlitshlutverki sínu með arðgreiðslubanninu þegar ársreikningar einkarekinna heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu liggja fyrir. Þetta kemur fram í svörum frá Steingrími Ara Arasyni, forstjóra Sjúkratrygginga Íslands, við fyrirspurnum Stundarinnar um málið.
Steingrímur Ari segir að árið 2017 hafi Sjúkatryggingar Íslands gert nýja samninga við allar einkareknar heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu þar sem umrætt arðgreiðslubann er samningsbundið. „Samningar á grundvelli fjármögnunarlíkansins og kröfulýsingar voru gerðir á árinu 2017 við allar sjálfstætt starfandi heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu og því ekki komið til þess að hafa eftirlit með arðgreiðslum fyrr en ársreikningar stöðvanna fyrir árið 2017 liggja fyrir,“ segir Steingrímur Ari.
269 milljóna arður á átta árum
Þetta arðgreiðslubann skiptir verulegu máli fyrir eigendur einkarekinna heilsugæslustöðva, eins og til dæmis stöðvarinnar í Salahverfi. Eigendur þeirrar stöðvar, Haukur Valdimarsson og Böðvar Sigurjónsson, hafa til dæmis greitt sér út 269 milljóna króna arð á árunum 2008 til 2016.
Samningur Heilsugæslustöðvarinnar í Salahverfi við Sjúkratryggingar Íslands rann út í árslok 2016. Í viðtali við Fréttatímann í september það ár sagði Haukur Valdimarsson að eigendur stöðvarinnar hafi ekki ákveðið hvernig þeir myndu aðlaga sig að arðgreiðslubanninu. „Ef við höldum áfram þá þurfum við að semja upp á nýtt [...] Ég sé ekki hvernig menn ætla að fara að því að reka fyrirtæki sem er ekki í plús en það er annað mál. Menn verða bara að skoða hvort þeir treysta sér að reka svoleiðis fyrir- tæki. Þetta verður bara að koma í ljós.“
Þá námu arðgreiðslur Heimililæknastöðvarinnar í Lágmúla 122 milljónum króna á árunum 2001 til 2011 en sú stöð er í eigu margra lækna og er því ekki um að ræða mjög háa fjárhæð sem rann til hvers og eins.
„Þetta er öðruvísi en með öll önnur fyrirtæki í rekstri.“
Eitt einkarekið rekstrarform tekið út fyrir sviga
Arðgreiðslubannið vakti mikla athygli þegar Kristján Þór ákvað að setja það 2016 og var umdeilt, ekki síst meðal margra lækna. Eitt af því sem vakti athygli var að heilbrigðisráðherra Sjálfstæðisflokksins skyldi setja slíkt bann.
Teitur Guðmundsson, læknir sem stendur að nýrri einkarekinni heilsugæslustöð í Urriðahvarfi í Kópavogi, sagði til dæmis við Fréttatímann í september árið 2016 að sér þætti „sérstakt“ að eitt tiltekið rekstrarform heilbrigðisþjónustu væri tekið út fyrir sviga með þessum hætti. „Þetta er öðruvísi en með öll önnur fyrirtæki í rekstri. En við ákváðum að bjóða í þetta engu að síður og undirgöngumst þær kröfur sem samningurinn felur í sér,“ sagði Teitur en með þessu átti hann meðal annars að önnur einkarekin heilbrigðisfyrirtæki sem eru að stóru leyti fjármögnuð af íslenska ríkinu geta greitt út arð til hluthafa sinna.
Stöðin í Urriðahvarfi var ein af þremur nýjum einkareknum heilsugæslustöðvum sem tók til starfa á höfuðborgarsvæðinu í fyrra og þurftu þær allar að undirgangast arðgreiðslubann í samningum sínum við Sjúkratryggingar Íslands.
Mörg hundruð milljóna arður
Fyrirtæki sem veita heilbrigðisþjónustu að mestu eru fjármögnuð af íslenska ríkinu eru að á lista yfir fjörtíu arðbærustu fyrirtæki landsins árið 2017. Þar er bæklunarlæknafyrirtækið Stoðkerfi í Orkuhúsinu til dæmis en það hefur greitt út 372 milljóna króna arð til hluthafa sinna og Læknavaktin í Kópavogi hefur borgað 201 milljóna króna arð til sinna hluthafa frá hruninu 2008. Arðgreiðslubannið á heilsugæslustöðvarnar gildir ekki fyrir þessi fyrirtæki og ekki heldur fyrir röntgenmyndafyrirtækið Læknisfræðilega myndgreiningu í Domus Medica en það fyrirtæki greiddi 447 milljóna króna arð til hluthafa sinna á árunum 2011 til 2016.
„Almennar reglur gilda um rekstraruppgjör Læknavaktarinnar“
Læknavaktin undanskilin arðgreiðslubanni
Eitt af því sem vekur athygli í svörum Steingríms Ara er að heilbrigðisfyrirtækið Læknavaktin í Kópavoginum er undanskilin arðgreiðslubannninu þar sem starfsemi hennar er ekki skilgreind sem heilsugæsla með sama hætti og hinna stöðvanna. „Almennar reglur gilda um rekstraruppgjör Læknavaktarinnar og því ekki kveðið á um arðgreiðslubann í samningi SÍ og Læknavaktarinnar.“ Nýr samningur á milli Sjúkratrygginga Íslands og Læknavaktarinnar var gerður í ársbyrjun 2017.
Læknavaktin veitir samt „heimilislækna- og heilsugæsluþjónustu“ líkt og heilsugæslustöðvar gera almennt. Um tilgang Læknavaktarinnar segir í ársreikningi félagsins: „Tilgangur Læknavaktarinnar ehf. (félagsins) er verktakastarfsemi á heilbrigðissviði, svo sem skipulagning og rekstur vaktþjónustu heimilis- og heilsugæslulækna ásamt skyldri starfsemi og þess að gæta hagsmuna hluthafa í hvívetna.“
Eins og áður segir hefur Læknavaktin greitt út 201 milljónar króna arð til hluthafa sinna en þar sem starfsemin er eðlisólík þeirri þjónustu sem heilsugæslustöðvar veita, jafnvel þó um sé að ræða heilsugæslu- og heimilislækningar að hluta, þá mega hluthafarnir áfram greiða sér arð út úr þess konar rekstarformi þrátt fyrir að starfsemin sé skyld þjónustu heilsugæslustöðva.
Eitt af því sem Teitur Guðmundsson benti á var að það væri kannski einkennilegt að bann væri lagt við arði í einni tegund einkarekinnar heilbrigðisþjónustu, til dæmis hjá heilsugæslustöðinni í Salahverfinu, á meðan arður væri heimilaður út úr fyrirtækjum eins og Læknavaktinni sem þó veita eðlislíka, en ekki alveg eins, þjónustu.
Athugasemdir