Það svíður undan því að hlusta á þær röngu fullyrðingar sem B framboð til stjórnar Eflingar-stéttarfélags undir forystu Sólveigar Önnu Jónsdóttur lætur hafa eftir sér þessa dagana. Í hvert einasta skipti sem formannsefnið tekur til máls, heldur hún því fram að starfsmenn, stjórnarmenn, samningamenn félagsins og trúnaðarmenn séu ekki starfi sínu vaxnir og að þeir séu leiksoppar forystumanna í félaginu. Þeir hafi brugðist félagsmönnum og það þurfi að fella stjórnina og losa okkur við þetta fólk. Er það ekki svolítið einkennilegt að heyra þetta frá félagsmanni sem aldrei hefur sést á fundum félagsins, aldrei á aðalfundi, aldrei í undirbúningi 1. maí en birtist nú eins og frelsandi engill og ætlar að leysa öll okkar mál. Hún segir ekki hvernig, bara að þetta eigi að gerast með róttækum sósíalisma og frösum. Ég vil ekki trúa því að félagsmenn Eflingar falli fyrir svona innantómum málflutningi.
„Það sem hefur áunnist í verkslýðsbaráttu í gegnum árin er með samstöðu, ekki sundrung.“
Ég tel mig þekkja vel til starfa stéttarfélaganna og þeirrar baráttu sem þar er háð á hverjum einasta degi af starfsmönnum og félagsmönnum sem vinna sín störf af heilindum. Hér er verið að tala um félagsmenn okkar sem eru starfandi á hinum ýmsu vinnustöðum um allt félagssvæði Eflingar. Að halda því fram að 80 manna samninganefnd með fulltrúum frá öllum helstu samningssviðum félagsins séu ekki að vinna að hagsmunum félaga sinna við gerð kjarasamninga er með ólíkindum.
Þekkingarleysi B framboðsins á störfum stéttarfélagsins er algjört. Rangfærslur þess eru ótrúleg vanvirðing við það óeigingjarna starf sem félagsmenn vinna, oftast í sjálfboðavinnu í sínum frítíma. Það svíður því að hlusta hvað eftir annað á þær röngu fullyrðingar um þá félagsmenn Eflingar sem gegna trúnaðarstörfum fyrir félagið.
Bygging leiguíbúða
Eitt af mikilvægustu málum okkar núna eru húsnæðismálin. Formannsefni mótframboðsins talar eins og Efling hafi þar ekkert gert. Staðreyndin er sú að Efling hefur verið í fararbroddi í þessum málaflokki með auglýsingum sem tvívegis hafa farið inn á hvert heimili í landinu. Efling hefur lagt sérstaka áherslu á þennan málaflokk, lagt fé til sérstaks húsnæðisleigufélags og beitt sér af hörku í málinu. Árangurinn af því starfi er nú að líta dagsins ljós, en í síðustu viku var tekin skóflustunga að 155 leiguíbúðakjarna í Reykjavík. Það er fyrsta verkefnið af mörgum sambærilegum sem eru að fara af stað. En það hefur kannski farið framhjá formannsefni B lista sem lætur eins og ekkert hafi verið gert. Þar duga ekki innantómir sósíalistafrasar og upphrópanir.
Það sem hefur áunnist í verkslýðsbaráttu í gegnum árin er með samstöðu, ekki sundrung. Ég hvet félagsmenn til að hafna þessum billega málflutningi og styðja framboð A-lista. Kjósa reynslu og dugmikið fólk sem hefur unnið árum saman fyrir Eflingu af ósérhlífni og kjarki.
--
Sigurrós Kristinsdóttir tók við sem varaformaður Eflingar-stéttarfélags árið 2007 eftir að hafa verið trúnaðarmaður á vinnustað um nokkra ára skeið og starfað á leikskóla í 18 ár. Á þeim árum tók hún þátt í starfi félagsins bæði í stjórnum fræðslusjóða, sjúkrasjóðs og samninganefnd félagsins þar sem hún var fulltrúi fyrir hönd leikskólastarfsmanna.
Athugasemdir