Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands, fullyrðir að íslenskir skattstofnar séu „að mestu fullnýttir“ og að það sé beinlínis „staðreynd“ að stjórnvöld framtíðar geti ekki sótt nýtt fjármagn með nýjum sköttum til þess að standast vaxandi kröfur um velferðarþjónustu.
Þessar staðhæfingar setur Ásgeir fram í pistli sem birtist í nýútkomnu tímariti hagfræðinema við Háskóla Íslands. Bendir hann á að skattar á borð við hátekjuskatta og auðlegðarskatt skili „takmörkuðum tekjum“ en jafnframt megi færa rök fyrir því að þeir dragi úr hvata til vinnu og sparnaðar og leiði til fjármagnsflótta.
Fullyrðingar Ásgeirs um nær fullnýtta skattstofna, og um að auðlegðarskattur og hátekjuskattur skili litlu, eru umdeilanlegar. Auðlegðarskatturinn skilaði um 12 milljarða tekjum á ári í ríkissjóð þegar mest lét. Til að setja töluna í samhengi má til dæmis nefna að öll útgjöld hins opinbera til menningar, lista, æskulýðs- og íþróttamála námu rúmum 12 milljörðum á fjárlögum ársins 2017. Samkvæmt svari fjármálaráðuneytisins við fyrirspurn sem lögð var fram á Alþingi í fyrra má ætla að tekjur hins opinbera árið 2016 hefðu aukist um um það bil 4 milljarða ef fjármagnstekjur umfram tvær milljónir króna hefðu verið skattlagðar um 25 prósent í stað 20 prósenta. Þá hefði mátt auka tekjur af skattinum um 7 milljarða með því að leggja 30 prósenta skatt á fjármagnstekjur umfram 4 milljarða. Það er álíka mikið og kostar að reka Sjúkrahúsið á Akureyri á ársgrundvelli.
Gagnrýnir ákall Kára
Ásgeir Jónsson gagnrýnir ákall Kára Stefánssonar og tugþúsunda Íslendinga um að 11 prósentum af vergri landsframleiðslu verði varið til heilbrigðismála. Varhugavert sé að nota útgjöld en ekki afköst sem viðmið í þessum efnum. Þá verði velferðarþjónusta á Íslandi aðeins betrumbætt til framtíðar með kerfisbreytingum, aukinni skilvirkni og nýjum fjármögnunarleiðum.
Ásgeir segir ómögulegt fyrir ríkisvaldið að ætla eitt og sér að standa straum af þeim innviðafjárfestingum sem nauðsynlegar eru á Íslandi. Því skipti höfuðmáli að finna nýja farvegi til þess að fjármagna uppbygginguna. „Af hverju þarf ríkið að eiga og fjármagna flugvelli og veitukerfi þegar lífeyrissjóðina – úttroðnir af langtímafjármagni – vantar fjárfestingarkosti?“ skrifar hann.
Besta þjónustan ekki frá hinu opinbera
Þá telur Ásgeir að færa megi rök fyrir því að „öll besta almannaþjónustan á Íslandi sé skipulögð af frjálsum félagasamtökum – eða grasrótarsamtökum“ og nefnir í því samhengi SÁÁ, Krabbameinsfélagið, hjálparsveitirnar og Læknavaktina. Það sé heldur ekki ýkja langt síðan stór hluti heilbrigðisþjónustunnar var skipulagður af kaþólsku kirkjunni. „Í því ljósi er mjög undarlegt að Íslendingar virðast vera svo forstokkaðir þegar rætt er um aðkomu annarra aðila en hins opinbera að veitingu almannaþjónustu.“
Ásgeir Jónsson var skipaður formaður starfshóps um endurskoðun peningastefnu Íslands á síðasta kjörtímabili. Aðspurður um vinnu hópsins segir Ásgeir að hann sé enn að störfum og geri ráð fyrir því að skila niðurstöðum í maí á þessu ári.
Athugasemdir