Eitt sinn var ég bíllaus hipster í Hlíðunum sem gekk, hjólaði og tók strætó allar mínar ferðir. Á morgnana, þegar ég var sein á ferðinni og ákvað að stökkva upp í næsta vagn, sem ég gat gert án þess að líta á tímatöfluna því næsti strætó var alltaf í örfárra mínútna fjarlægð, var stundum þröng á þingi. Sérstaklega ef ég tók ásinn. En mér fannst ekkert tiltökumál að standa þétt upp við myglaða menntaskólanemendur og hjúkrunarfræðinga úr Hafnarfirði þessa stuttu vegalengd í háskólann og að öðru leyti fann ég aldrei fyrir morgunumferðinni, enda var ég ekki hluti af henni. Ég fylgdist því lítið með umræðunni um uppbyggingu hjólastíga og bættar almenningssamgöngur.
Í dag bý ég í hinum svokölluðu efri byggðum Reykjavíkur, en vinn í miðbænum. Bílaborgarskipulagið hefur neytt mig til þess að kaupa bíl því það tæki mig einfaldlega of langan tíma að ferðast milli bæjarhluta með strætó eða hjóli, verandi háð opnunartíma leikskóla sonar míns. Og nú fylgist ég vel með þróun samgöngumála.
Daginn sem svínshræ ollu því að hálf borgin mætti of seint í vinnu eða skóla settist ég niður við eldhúsborðið með heitt kaffi og fartölvuna og fylgdist með hreyfingarlausu rauðu afturljósunum fylla Vesturlandsveginn. Mér varð hugsað til þeirra sem voru á leiðinni í próf og þeirra sem voru í vaktavinnu, þeirra sem ætluðu að borða morgunmat í vinnunni og þeirra sem þurftu að pissa (hef svo oft lent í því!). Ég hugsaði um allar rannsóknirnar og skýrslurnar sem ég hef lesið um hvernig sé best að byggja upp samgöngur á höfuðborgarsvæðinu til framtíðar, um íbúana sem munu flytja í nýtt hverfi í Úlfarsárdalnum, um bílana sem þeim mun fylgja og um þá sem berjast fyrir malbiki og hringtorgum í stað almenningssamgangna. Og mér varð óneitanlega hugsað til Eyþórs Arnalds og Dags B. Eggertssonar sem báðir búa í 101 Reykjavík, miðbæjarrottur, eins og góður þingmaður myndi segja, sem munu taka ákvarðanirnar sem skera úr um hvort úthverfamömmur eins og ég munu einhvern tíma geta lagt fjandans bílnum.
Athugasemdir