Houssin Bsraoi, ungi hælisleitandinn sem varð fyrir alvarlegri líkamsárás á Litla-Hrauni fyrr á árinu, var fluttur úr landi í gær. RÚV greinir frá. Houssin kom hingað til lands sumarið 2016 ásamt öðrum ungum pilti, Yassine, en þeir földu sig um borð í Norrænu til þess að komast í landið. Báðir sóttu þeir um alþjóðlega vernd og sögðust þeir vera undir 18 ára aldri. Þeir voru því sendir í tannrannsókn til þess að skera úr um aldur þeirra og var Yassine metinn undir 18 ára aldri, en Houssin var metinn eldri en 18 ára. Yassine fékk vernd og býr nú hjá fósturfjölskyldu sinni í Bolungarvík og sækir nám við Menntaskólann á Ísafirði. Houssin var hins vegar synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi, þrátt fyrir að vera metinn í viðkvæmri stöðu. Hann var síðar úrskurðaður í gæsluvarðhald fyrir að hafa gert ítrekaðar tilraunir til að komast á skip á leið til Kanada og vistaður með fullorðnum föngum á Litla-Hrauni. Þar varð hann fyrir alvarlegri líkamsárás og voru tennurnar hans meðal annars brotnar.
Í frétt RÚV er rætt við Guðríði Láru Þrastardóttur, talsmann hælisleitenda hjá Rauða krossi Íslands, en hún hefur sótt um endurupptöku á máli Houssin og verður þeirri beiðni haldið til streitu. „Þetta mál er auðvitað allt mjög sorglegt og íslensk stjórnvöld hefðu frá upphafi átt að fara með þetta mál á allt annan hátt. Það er mín skoðun,“ segir Guðrún Lára meðal annars.
Vinir og velunnarar Houssins vissu ekki af brottflutningnum fyrirfram, og ekki heldur Rauði krossinn.
Uppfært: Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar sagði að Houssin hafi fengið ólíka málsmeðferð en Yassine vegna aldursgreiningarinnar. Samkvæmt tilkynningu frá Útlendingastofnun er þetta rangt, það sé ekki skilyrði fyrir því að hljóta alþjóðlega vernd að vera yngri en 18 ára.
Athugasemdir