Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, svarar því ekki að svo stöddu hvort hann telji rétt að setja af stað rannsókn á framkvæmd reglna um þingfararkostnað og ábyrgð einstakra þingmanna.
Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur viðurkennt að hafa látið Alþingi greiða aksturskostnað vegna prófkjörsbaráttu sinnar og dagskrárgerðar fyrir sjónvarpsstöðina ÍNN.
Þá liggur fyrir að nokkrir þingmenn hafa ekki fylgt reglu um notkun bílaleigubíls þegar keyrðir eru meira en 15 þúsund kílómetrar á ári né afdráttarlausum fyrirmælum í siðareglum þingmanna um að þingmenn eigi að tryggja að endurgreiðslur fyrir útgjöld sín séu í fullkomnu samræmi við reglur um þingfararkostnað.
Stundin spurði Steingrím J. Sigfússon, forseta Alþingis, á föstudag hvort það kæmi til álita að hans mati að sett yrði af stað óháð athugun eða ransókn á framkvæmd reglna um þingfararkostnað og ábyrgð einstakra þingmanna. Einnig var hann spurður hvort þingmenn yrðu beðnir um að endurgreiða Alþingi fjármuni sem þeir fengu vegna óhóflegrar endurgreiðslu útgjalda eða óábyrgrar notkunar á endurgreiðslufyrirkomulaginu sem mælt er fyrir um í reglum um þingfararkostnað.
„Ég held ég verði nú einfaldlega að biðja menn að sýna þolinmæði og bíða eftir niðurstöðum forsætisnefndar hvað varðar þetta mál í heild. Það sem ég mun leggja til mun ég leggja fram á fundum nefndarinnar en ekki kynna í fjölmiðlum fyrirfram af skiljanlegum ástæðum (hitt myndi væntanlega ekki mælast vel fyrir),“ segir í svari Steingríms.
Píratar hafa kallað eftir því að siðanefnd Alþingis kanni hvort framganga þingmanna hvað varðar endurgreiðslur aksturskostnaðar standist siðareglur þingsins og hvort lögbrot kunni að hafa verið framin. Fram kom í viðtali Fréttablaðsins við Jón Þór Ólason, lektor við Háskóla íslands og sérfræðing í refsirétti, í gær að vísvitandi rangar skráningar í akstursbókum þingmanna gætu talist fjársvik samkvæmt auðgunarbrotaákvæði almennra hegningarlaga.
Forsætisnefnd Alþingis kemur saman á morgun og fjallar um akstursgreiðslumálið. Í forsætisnefnd sitja Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, Guðjón S. Brjánsson, þingmaður Samfylkingarinnar, Brynjar Níelsson og Bryndís Haraldsdóttir, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, Þórunn Egilsdóttir, þingkona Framsóknarflokksins og Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata.
Athugasemdir