Mótlæti er órjúfanlegur hluti daglegs lífs og enginn er laus við alla erfiðleika. Lífið snýst um að leysa vandamál samhliða því að við reynum að sjá skemmtilegu punktana í amstrinu. Okkur stendur ekkert annað til boða, þetta er farvegur lífsins. Oft náum við settum markmiðum og þessa dagana er upphaf meistaramánaðar. Þá er upplagt að setjast niður, skilgreina vandamálin og skipuleggja næstu skref. Flestir launamenn eru þessa dagana með lausa kjarasamninga. Opinberu stéttarfélögin eru reyndar mörg hver komin langt með að ljúka endurskoðun sinna samninga, en eiga eftir að bera þá undir félagsmenn þegar þetta er ritað. Í framhaldi af því gæti farið svo að allir kjarasamningar á almennum vinnumarkaði verði endurskoðaðir.
Í fjölmiðlaumræðunni undanfarið hefur því verið haldið staðfastlega að okkur að einn maður standi í vegi fyrir því að hægt sé að lagfæra laun verkafólks hér á landi. Maður gæti trúað því að verið sé að tala um forsætis- eða fjármálaráðherra eða jafnvel formann samtaka fyrirtækja og útgerðar. Á fjölmiðlunum er hins vegar svo að skilja að ekki sé við ríkisvaldið að sakast og þaðan af síður samtök fyrirtækjanna. Nei, það er talsmaður samtaka launamanna á almennum vinnumarkaði sem einn og sér stendur í vegi þess að hægt sé að bæta kjör verkafólks á Íslandi. Fullyrt er að stéttarfélög þurfi að semja um kaup og kjör við starfsfólk ASÍ.
Slappir miðstjórnarmenn?
Mikið ofboðslega hljóta þeir nú að vera aumir þessir fjórtán einstaklingar sem sitja í miðstjórn ASÍ að láta einn mann ráða ferðinni, svo maður tali nú ekki um félagsmenn þeirra samtaka sem kusu þetta fólk. Í miðstjórn ASÍ sitja fimm forystumenn samtaka verslunarmanna ásamt jafnmörgum frá samtökum verkafólks og að auki sitja þar þrír forystumenn frá iðnaðarmannasamfélaginu og einn frá sjómönnum.
Forseti ASÍ er fimmtándi miðstjórnarmaðurinn og hann er frá VR, stærsta félaginu. Verslunarmenn eru sem sagt með sex menn í miðstjórn en samt má skilja á fjölmiðlum að VR eigi í hatrömmum kjaraviðræðum við miðstjórn ASÍ. Miðstjórnarmenn ASÍ koma allir frá öflugum stéttarfélögum og þeir fara reglulega í gegnum kosningar, ef ekki á hverju ári þá annað hvert ár. Til dæmis er búið að skipta fimm sinnum um formann í VR eftir hrun. Á hverju ári er skipt um einhverja af forystumönnum og stjórnarmönnum, til dæmis nýverið í kennarasamtökunum og þannig mætti lengi telja.
Ég var nokkrum sinnum kjörinn af ársfundum ASÍ í miðstjórn sambandsins og þekki því störf miðstjórnar og starfsnefndanna mjög vel. Því fer fjarri að hlutirnir séu afgreiddir með tilskipunum eins og gefið er í skyn í fjölmiðlum. Miðstjórnarmenn takast hins vegar oft harkalega á en alltaf næst einhver niðurstaða. Stundum varð maður að lúta í lægra haldi fyrir meirihlutanum, líka forsetinn, og maður varð að sætta sig við það. Meirihlutinn ræður í félagsstarfi. En aldrei fóru menn með óútkljáðar deilur í fjölmiðla og persónugerðu deilumálin í þungum sökum á samstarfsfélaga sína. Ef eitthvert launþegasamband sætti sig ekki við stefnuna í kjarasamningum þá klauf það sig úr samflotinu og það var vitanlega aldrei neitt vandamál.
Margfaldir meistarar í launahækkunum
Íslenska verkalýðshreyfingin hefur um áratugaskeið verið margfaldur Norðurlanda- og Evrópumeistari í launahækkunum. Ef við lítum til dæmis á Rafiðnaðarsambandið þá höfum við frá stofnun sambandsins, árið 1970, til síðustu kjarasamninga samið um launahækkanir upp á 9.088%. Á sama tíma hefur systurfélag okkar í Danmörku samið um helmingi minni launahækkanir. Þrátt fyrir það búa Danir við betri og stöðugri kaupmátt. Danskir vextir eru þrefalt lægri en þeir eru hér á landi. Norðurlandaþjóðirnar búa við mun betra félagslegt húsnæðiskerfi en hér tíðkast. Menntun er þar ódýrari og nemar fá námsstyrki, en ekki námslán eins og hér tíðkast og öllum stendur símenntun til boða.
Verkalýðshreyfingin hafnaði á sínum tíma að verðtryggja laun þar sem það myndi fastbinda allt launakerfið. Talsmenn verkafólks sögðust vilja halda opnum möguleika að hækka sérstaklega lægstu laun. Það hefur reynst farsæl ákvörðun því meðallaun hafa frá setningu Ólafslaga um verðtryggingu hækkað um 35% umfram verðlagsvísitölu og lægstu laun tvöfalt meira. Enda hefur bilið á milli hæstu umsaminna launataxta og þeirra lægstu aldrei verið minna en einmitt nú síðustu ár.
Hvað er í gangi?
Ef við lítum yfir þróunina hjá okkur þá hafa íslenskir launamenn búið við það ástand að gengi gjaldmiðils okkar tekur reglulega dýfur, sem veldur háum vöxtum, skuldir heimilanna stökkbreytast og umsamdar launahækkanir hverfa. Launþegahreyfingin hefur með sameiginlegu átaki, það sem liðið er af þessari öld, tekist að semja um launahækkanir fyrir láglaunahópana umfram almennar hækkanir með mikilli samstöðu innan verkalýðshreyfingarinnar.
„Allar sértækar hækkanir fyrir launalægstu hópana hafa runnið beint í ríkissjóð og ekki náð inn í rekstur heimilanna“
En hvers vegna er þessi staða að kaupmáttur lægstu launa hefur staðið í stað? Jú, á sama tíma hafa stjórnvöld farið í andstæða stefnu hvað varðar lægst launaða fólkið og gjaldfellt vaxta- og barnabótakerfið auk þess að breyta skattaumhverfinu til óhagræðis fyrir þá lægst launuðu. Það hefur orðið til þess að allar sértækar hækkanir fyrir launalægstu hópana hafa runnið beint í ríkissjóð og ekki náð inn í rekstur heimilanna. Sama hefur verið gert við lífeyrisþegana. Stjórnvöld undanfarinna ára hafa þegjandi og hljóðalaust breytt reiknimódeli TR þannig að stór hluti skyldusparnaðar lífeyrisþega rennur beint í ríkissjóð í gegnum nýja jaðarskatta.
Á sama tíma hefur kjararáð hins vegar reiknað út stöðu alþingismanna og æðstu embættismanna og fengið úr sínu reiknidæmi niðurstöðu sem gengur algjörlega þvert á ákvarðanir ríkisstjórnarinnar hvað varðar lægst launuðu hópana. Eins og kunnugt er þá reiknaði kjararáð það út að til þess að tryggja kaupmátt þingmanna og embættismanna yrði að hækka laun þeirra allt að 45% og að auki eitt ár afturvirkt. Menn þurfa því ekki að vera undrandi á því að launamenn og lífeyrisþegar séu pirraðir og leiti að blórabögglum.
Er ASÍ báðum megin við samningaborðið?
Sé litið til þess sem hér hefur verið sagt er fjarstæðukennt að komast að þeirri niðurstöðu að forsendur þessarar þróunar sé að finna hjá einum manni innan verkalýðshreyfingarinnar. Hvernig gerast kaupin á eyrinni? Það er ekki hægt að skilja þennan málflutning öðruvísi en svo að sumir standi í þeirri trú að verkalýðsfélögin þurfi að semja við forseta ASÍ um kaup og kjör. Og þrátt fyrir að VR eigi 6 fulltrúa í miðstjórn ASÍ þá á félagið í hörkudeilum við sambandið.
Stundum er ekki hægt að skilja umræðuna og ummæli fjölmiðlamanna öðruvísi en svo að þau telji ASÍ vera verkalýðsfélag, því fer fjarri. ASÍ er sameiginleg skrifstofa landssambanda launafólks á almennum vinnumarkaði. Þangað er ráðið starfsfólk til þess að sinna störfum eins og að fara yfir lög og reglugerðir og gefa umsagnir um lagafrumvörp og ályktanir frá Alþingi. Meta lagalegar flækjur sem geta komið upp á vinnustöðum og hjá Vinnumálastofnun og fleira. ASÍ rekur hagdeild sem gerir greiningar og úttektir, sér um verðlagseftirlit og fleira.
Þessi leið var valin til þess að ná fram hagræðingu og finna hagkvæma leið til þess að dreifa kostnaði af þessum nauðsynlega rekstri yfir á sem flesta. Lítil verkalýðsfélög stæðu þannig jafnfætis hinum stóru um aðgang að þessari þjónustu. Ef einn stór aðili fer út, snarhækkar til dæmis kostnaður litlu verkalýðsfélaganna úti á landi. Verkalýðsfélögin gera kjarasamninga en ekki ASÍ. Stundum ákveða þau að fara í samflot, það á sérstaklega við ef niðurstaða undirbúnings er sú að berjast þurfi fyrir bættri stöðu gagnvart ríkisvaldinu. Það er ekki einn maður sem tekur þær ákvarðanir, það eru félagsmenn viðkomandi stéttarfélaga.
Hjá hverjum liggur samningsrétturinn?
Samkvæmt vinnulöggjöfinni er samningsrétturinn alltaf hjá stéttarfélögunum, aldrei hjá ASÍ. Kröfugerðir eru mótaðar á félagsfundum viðkomandi stéttarfélags og þar eru samninganefndir kosnar. Samningaviðræður fara fram samkvæmt settum leikreglum í vinnulöggjöfinni. Náist ekki samkomulag verður að beina viðræðum til sáttasemjara. Myndist þar sú staða að ekki næst lengra í viðræðum er það lagaleg skylda að bera stöðuna undir félagsmenn og afgreiða samning eða fara í verkfall.
Ef félagsmenn samþykkja nýjan kjarasamning þá er málið dautt, eins og sagt er, og tilgangslaust að setja fram nýjar kröfur. Með samþykkt kjarasamnings er samkvæmt vinnulöggjöfinni kominn á friðarskylda þar til nýr kjarasamningur rennur út. Þegar svo er komið þjónar engum tilgangi að rjúka út og bera þungar sakir á aðra, hvað þá starfsmenn ASÍ. Ef það er einhverja sök að finna með samþykktum kjarasamningi þá liggur hún hjá þeim sem ekki tóku þátt í kosningunni við afgreiðslu kjarasamningsins. Ef launamenn taka ekki þátt í mótun kröfugerðar eða afgreiðslu niðurstöðu samningaviðræðna þá er við þá sjálfa að sakast. Máttur einstakra stéttarfélaga og verkalýðshreyfingarinnar í heild sinni liggur í samstöðu og samtakamætti fjöldans. Í samstöðunni grundvallast tilvist verkalýðshreyfingarinnar og sigrar hreyfingarinnar í 100 ár felast á sama hátt í samstöðunni.
Athugasemdir