Sérstök umræða um stöðu einkarekinna fjölmiðla sem fram fór á Alþingi í hádeginu hverfðist að verulegu leyti um Ríkisútvarpið og stöðu þess á auglýsingamarkaði.
„Það er bara staðreynd að miðað við það fyrirkomulag sem við höfum haft, þá er búið að skekkja stöðuna með þeim hætti að það verður ekki við unað. Fíllinn í stofunni heitir Ríkisútvarpið,“ sagði Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem átti frumkvæði að umræðunni.
Nefnd sem skipuð var af Illuga Gunnarssyni, þáverandi menntamálaráðherra, árið 2016 lauk störfum og afhenti skýrslu um rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla í dag. Þar er meðal annars hvatt til þess að Ríkisútvarpið fari af auglýsingamarkaði og að áfengis- og tóbaksauglýsingar verði heimilaðar. Viðskiptaráð hefur sent út fréttatilkynningu þar sem tillögunum er fagnað og var málflutningur margra þingmanna í takt við áherslur nefndarinnar.
Helga Vala Helgadóttir, þingkona Samfylkingarinnar, furðaði sig á málflutningi málshefjanda um Ríkisútvarpið og taldi vegið að stofnun sem hefði gegnt ómissandi hlutverki fyrir íslenskt samfélag í gegnum tíðina.
Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, var hins vegar að miklu leyti sammála Óla Birni um að staða RÚV væri rót vandans á íslenskum fjölmiðlamarkaði.
„Ástæðan fyrir skakkri samkeppnisstöðu á íslenskum fjölmiðlamarkaði er inngrip ríkisins í þennan markað, gríðarlega mikill stuðningur við einn tiltekinn fjölmiðil, Ríkisútvarpið,“ sagði Þorsteinn og velti því upp hvort aðkoma ríkisins að því að skaffa hágæða íslenskt dagskrárefni ætti ef til vill frekar að vera í gegnum samkeppnissjóði heldur en rekstur fjölmiðils.
Una Hildardóttir, varaþingkona Vinstri grænna, sagði mikilvægt að standa við bakið á rannsóknarblaðamennsku. „Því beini ég því til hæstvirts mennta- og menningarmálaráðherra að skoða möguleikann á sérstökum sjóði fyrir rannsóknarblaðamennsku sem hægt væri að starfrækja á svipaðan hátt og launasjóð listamanna,“ sagði hún.
Sagði hið opinbera þurfa að horfa í eigin barm
Andés Ingi Jónsson, þingmaður sama flokks, benti á að það væri fleira en fjárhagslegar áhyggjur sem gerðu fjölmiðlum lífið leitt á Íslandi.
„Þar getur hið opinbera litið nokkuð í eigin barm þegar kemur að því að svara upplýsingabeiðnum. Þá er ég ekki bara að tala um ráðuneytin sem oft draga lappirnar fram úr öllu hófi með að svara sjálfsögðum einföldum beiðnum fjölmiðla, heldur líka okkur hér á Alþingi sem virðumst eiga mjög erfitt með að svara greinargott þeim fyrirspurnum sem að okkur er beint varðandi rekstur þingsins,“ sagði Andrés.
„Svo verð ég að nefna það sem enginn hefur nefnt og kemur mér nokkuð á óvart, sem er lögbannið á Stundina. Við erum í þeirri stöðu að fulltrúi framkvæmdavaldsins, fyrir hundrað dögum, setti lögbann á umfjöllun um hagsmunatengsl æðstu valdhafa. Ég, frú forseti, hef meiri áhyggjur af hundrað daga hömlum á tjáningarfrelsi en einhverri virðisaukaskattsprósentu.“
Fyrirvari: Fjölmiðillinn Stundin er aðili að lögbannsmálinu, sem hér er fjallað um, og hefur verið stefnt af Glitni Holding fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem staðfestingarmál er enn yfirstandandi.
Athugasemdir