Afnám bókaskatts mun ekki taka gildi í upphafi fjárlagaársins 2018 þrátt fyrir að þingmenn allra flokka á Alþingi hafi lagt fram sameiginlegt frumvarp þess efnis þann 26. september síðastliðinn.
Fyrsti flutningsmaður þess var Lilja Alfreðsdóttir, sem nú gegnir embætti mennta- og menningarmálaráðherra í nýrri ríkisstjórn.
Afnám bókaskatts er forgangsmál samkvæmt málefnasamningi stjórnarflokkanna, en þrátt fyrir það er í raun engu slegið föstu um skattbreytinguna í nýframlögðu fjárlagafrumvarpi Bjarna Benediktssonar.
Í hópi meðflutningsmanna voru þingmenn og ráðherrar sem þá tilheyrðu núverandi stjórnarflokkum: Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Elsa Lára Arnardóttir, Eygló Harðardóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Katrín Jakobsdóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir og Þórunn Egilsdóttir.
Þrátt fyrir þessa „þverpólitísku sátt um að afnema bókaskatt“ kemur skattbreytingin ekki til framkvæmda strax.
Gera má ráð fyrir, ef miðað er við skatttekjur undanfarinna ára, að afnám virðisaukaskattsins af bóksölu kosti ríkissjóð um 300 til 400 milljónir á ársgrundvelli.
Athugasemdir