Er í lagi að gagnrýna myndun ríkisstjórna sem eru í engu samræmi við væntingar þeirra sem kusu flokkana sem boðuðu stefnur og siðferði sem í aðdraganda kosninga áttu enga samleið, en véla nú og þá um ráðherrastóla?
Ekki samkvæmt siðferðispostulum þeim sem eiga aðild að kampavínsdrykkjunni í ráðherrabústaðnum. Það má varla anda á þetta fólk án þess að upp spretti fólk sem hve ákafast réðst að Óttarri Proppé þegar hann ástundaði nákvæmlega sömu aðferðafræði og beitti sjálfan sig og aðra sömu aðferðafræði sjálfsefjunar og sjálfsblekkingar um að honum og hans fólki bæri einhver siðferðisleg skylda til að leiða fólk til valda sem það hve ákafast barðist gegn út af niðurstöðum kosninga. Ef ekki tekst að mynda ríkisstjórn, þá eru til allskonar önnur úrræði.
Katrín Jakobsdóttir er að leiða fólk til valda sem niðurlægði hana og hennar nánustu flokksmenn ítrekað í aðdraganda kosninga. Þeir sem hve harðast gagnrýna hana núna eru þeir sem vörðu hana með kjafti og klóm vegna þess að þeir treystu henni, báru von í brjósti um að hún hefði þann siðferðislega styrk sem til þarf til að geta leitt okkur út úr þessum skuggum valdsins sem margir kenna við Sjálfstæðisflokkinn. Gagnrýni sú sem hún fær á sig hefur nákvæmlega ekki neitt að gera með kynferði eða aldur. Þetta er algerlega réttmæt gagnrýni þeirra sem hafa staðið með henni og þeim hugsjónum sem þeir töldu hana búa yfir.
Vinstri Græn settu Katrínu á oddinn og kosningabarátta þeirra hefur öll snúist um að gera hana að forsætisráðherra. Það er valdamesta embætti samfélags okkar og þeir sem taka það vald í fangið eiga að vera undir það búnir að þola hvassa gagnrýni.
„Nær hefði verið fyrir forustu VG að sýna auðmýkt og skilning gagnvart stuðningsfólki sínu“
Nær hefði verið fyrir forustu VG að sýna auðmýkt og skilning gagnvart stuðningsfólki sínu og hlusta og tala inn í þau gríðarlegu vonbrigði sem maður sér frá kjósendum þeirra. Í stað þess að gera það, gerast þau nú sek um að beita valdi sínu að grasrót og stuðningsfólki og væna það um pólitískar loftárásir.
Sú alda reiði og vonbrigða sem hafa brotist út er með öllu eðlileg, enda hafa VG líka keyrt áfram stefnu sem gengur út á að halda Sjálfstæðisflokknum frá völdum, allt nema íhaldið er slagorð sem heyrst hefur ítrekað frá forustusveit VG og baklandið hefur raddað með sterkum rómi.
Katrín er ekki gagnrýnd eða beitt meira óréttlæti fyrir að standa fyrir einhverju sem margir upplifa sem svik, út af því að hún er kona. Katrín er gagnrýnd fyrir að koma til valda og afhenda lyklavöldin að fjármálum þjóðarinnar þeim aðilum sem hafa komið okkur á heimskortið fyrir siðferðisbresti og misbeitingu valds. Betur þekkt sem #Panama
Ég studdi eitt sinn VG, kaus þau í tvígang í gamla daga, en sá svo að þessi flokkur er ekki það sem hann gefur sig út fyrir að vera. Þetta er flokkur sem Hannes Hólmsteinn sagði eitt sinn að væri eins og melóna, græni hluti flokksins er aðeins þunn skán, eins og Katrín sýni með sanni í verki að væri lýsing með réttu, þegar hún krafðist þess við þinglokasamninga árði 2013 að koma kísilveri við Bakka á kortið með allri sinni kolaorku.
Hinn feminíski armur flokksins er líka ansi laskaður og hefur verið um all langa hríð enda hafa margir horfið á braut sem voru burðarbitar í bæði grænu og bleiku stefnu flokksins.
Þá er vert að huga að því hvað er eftir? Ég treysti mér ekki að leggja mat á það. Ég held að verk nýju kampavínsstjórnarinnar munu sýna það svart á hvítu, sumir hafa sagt að það hafi verið slegið skjaldborg um stöðugleika stöðnunar og kannski er nokkuð til í því.
„Ef fólk vill völd, þá má og á, að gagnrýna forsendur og framkvæmd þess.“
En það var líka einhver sem sagði að krísa, hvort heldur hún sé af ytri eða siðferðislegum ástæðum er góður farvegur til að koma á alvöru samfélagslegum breytingum. Það má ef til vill þakka Katrínu og félögum hennar í VG fyrir að koma hér á slíkri siðferðislegri krísu og kannski spretta sterkir stofnar úr þeirri snarrót sem þessi núningur viðsnúnings veldur. Hver veit?
Völd eru hættulegt eiturlyf sem veldur doða og hroka og það má með sanni segja að karlmennirnir í kringum Katrínu, þeir Beinir, Birnir og Svanir séu ekkert að gera henni neinn greiða með því að krefja fólk um að dýrka skurðgoð og fara um þau siklihönskum. Ef fólk vill völd, þá má og á, að gagnrýna forsendur og framkvæmd þess. Það er bara í ríkjum eins og Norður Kóreu þar sem allir óháð tilfinningum og siðferði, þurfa að kreista fram tilfinningar gleði og sorgar eftir kröfu flokksins. Hér höfum við sem betur fer ennþá eitthvað sem heitir tjáningarfrelsi.
Katrín Jakobsdóttir vill umboð og með því fylgir ábyrgð og síðan kemur í ljós hvort að hún standi eða falli undir þeirri ábyrgð.
Athugasemdir