„Mikilvægasti lærdómurinn er þessi: í tvær kynslóðir hafa Bandaríkin verið án pólitískrar sýnar um örlög sín. Það er engin slík sýn til, hvorki íhaldssöm né frjálslynd,“ segir bandaríski prófessorinn Mark Lilla í nýlegri bók sinni, The Once and Future Liberal: After Identity Poltics, þar sem hann gagnrýnir sjálfsmyndarstjórnmál (e. Identity politics) í stjórnmálum í Bandaríkjunum og reynir að útskýra hvernig þau hafa slegið vopnin úr höndunum á Demókrataflokknum í baráttunni við Repúblikana og Donald Trump.
„Mikilvægasti lærdómurinn er þessi: í tvær kynslóðir hafa Bandaríkin verið án pólitískrar sýnar um örlög sín. “
Ég las þessi orð Mark Lilla eftir að Vinstri græn hófu stjórnarmyndunarviðræður sínar við Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn og velti fyrir mér í kjölfarið hvað það væri mikilvægt fyrir stjórnmálaflokka, og samfélög sem slík, að hafa einhverja „pólitíska sýn um örlög sín“. Þá er átt við að stjórnmálaflokkarnir sem vilja leiða samfélög geti svarað stórum spurningum eins og: Hvernig samfélag viljum við búa til hér á landi? Þetta er stór spurning og mikilvæg sem snýst um stóru myndina af samfélagi okkar og hvert það stefnir. Fólkið í landinu, kjósendur, þarf að vita þetta þegar það kýs og það er betra að einhvers konar gróft módel af stefnu samfélagsins liggi fyrir í höfði íbúa þess. Stjórmálamennirnir og flokkar þeirra eiga að móta þessa stefnu.
Vinstri græn eru ekki að brjóta kosningaloforð með því að fara í ríkisstjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn því flokkurinn gekk óbundinn til kosninga. En mikill meirihluti þeirra sem kusu Vinstri græna gerðu það á þeim forsendum að flokkurinn myndi ekki fara í slíkt samstarf enda sýna skoðanakannarnir að meirihluti þeirra sem styðja Vg er á móti slíku samstarfi þar sem einungis 3 prósent stuðningsmanna Vg vildi fá Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórn fyrir þingkosningarnar nú í haust. Flokkurinn ætlar samt að hefja slíkt samstarf. Má ekki kalla þetta viss svik við kjósendur flokksins? Er Vg bara Vinstri framsókn undir vinstrinnaðra og grænna skinni? Flokkurinn á þá bara að vera heiðarlegur og sameinast Framsóknarflokknum en ekki kenna sig við vinstri.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur í gegnum árin haft skýra „pólitíska sýn um örlög“ Íslands, það er að segja, sýn á það hvernig samfélagið eigi að vera. Þessi sýn flokksins snerist um nýfrjálshyggjuvæðingu íslensks samfélags í valdatíð Davíðs Oddssonar frá 1991 og allt fram að hruninu 2008 þegar þessi tilraun flokksins hrundi með heimssögulegum hætti í eina og versta fjármálahruni Íslandssögunnar. Eiginlega allt hrundi, ekki bara bankakerfið heldur Alþingi, og flestar stofnanir samfélagsins, eins og til dæmis Fjármálaeftirlitið og lífeyrissjóðakerfið sem var gegnsýrt af Baugi og Exista. Ef hrunið hefði ekki skollið á hefði tilraunin líklega haldið áfram með einkavæðingu sjúkrahúsa, sölu Landsvirkjunar og enn minnkandi ríkisrekstri og ríkisafskipta af fjárfestum á markaði.
Íslenskt samfélag var í vissum skilningi aftur komið á núllpunkt hugmyndafræðilega og finna þurfti einhverja nýja „pólitíska sýn um örlög Íslands“ eftir nýfrjálshyggjutilraun Sjálfstæðisflokksins. Síðastliðinn áratug hef ég talið mig hafa nokkuð góða tilfinningu fyrir því hvaða pólitísku sýn Vinstri græn hafa um örlög Íslands enda hef ég kosið flokkinn þrisvar sinnum í alþingiskosningum. Einn hluti þessarar pólitísku sýnar snýst um það að það sem gerðist á Íslandi árið 2008 megi ekki endurtaka sig, enda barðist flokkurinn allra mest gegn hugmyndafræðinni sem olli hruninu en talaði fyrir daufum eyrum. Efnahagshrunið var afleiðing af siðrofi; siðrofi sem eiginlega smaug inn í flesta anga samfélagsins frá efnahagslífinu til menningarinnar og mestu ábyrgðina á því bar Sjálfstæðisflokkurinn. Vinstri græn báru litla sem enga ábyrgð á hruninu.
Hvernig getur þessi flokkur svo ætlað í samstarf með Sjálfstæðisflokknum eftir allt sem á undan er gengið? Ég hef litið svo á að Vinstri græn hafi horft á Sjálfstæðisflokkinn og nærsögu Íslands fram að hruninu 2008 og sagt: Við lærum af þessu og gerum hlutina allt öðruvísi.
Ekkert bendir til að Sjálfstæðisflokkurinn hafi lært nokkurn skapaðan hlut af íslenska efnahagshruninu og fátt bendir til þess að sú stefna flokksins sem leiddi til hrunsins 2008 hafi breyst í einhverjum grundvallaratriðum. Þingmenn flokksins halda áfram að vera spilltir margir hverjir og tengsl einstakra þingmanna við einkafyrirtæki eru vandræðaleg – Illugi Gunnarsson og Orka Energy – og formaðurinn Bjarni Benediktsson er laskaður af mörgum spillingarmálum. Einn af lærdómum hrunsins er hversu óæskilegt það er að stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar séu í vasa einkafyrirtækja því þá byrja hagsmunir bankanna, útgerðarfyrirtækjanna, álfyrirtækjanna og fjárfestanna að ná yfirhöndinni fram yfir hagsmuni óbreyttra borgara, kjósenda.
Flokkurinn hefur axlað litla ábyrgð á þessari stöðu og hruninu, nema kannski má nefna Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, núverandi formann Viðreisnar, sem hætti í Sjálfstæðisflokknum og stjórnmálum um nokkurra ára bil út af hlutabréfaviðskiptum mannsins síns sem starfaði í banka. Spyrja má hvort siðferðisleg sekt Þorgerðar Katrínar á hlutabréfaviðskiptum maka síns sé og hafi verið meiri eða minni en sekt Bjarna Benediktssonar í Vafningsmálinu, Sjóðs 9-málinu, Panamaskjalamálinu, Borgunarmálinu, Icehot-málinu og uppreist æru-málinu. Kannski sýnir munurinn á því hvernig Þorgerður Katrín og Bjarni Benediktsson axla pólitíska ábyrgð bara grundvallarmun á siðferðisþroska og innræti þeirra.
Pólitísk sýn Sjálfstæðisflokksins um örlög Íslands hefur ekkert breyst en pólitísk sýn Vinstri grænna hefur hins vegar gjörbreyst á skömmum tíma. Ég þekki ekki lengur þennan flokk og út frá viðbrögðum margra flokksmanna, eins og Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur, Andrésar Jónssonar og Drífu Snædal virðist vera sem þetta eigi við um marga sem vinna í flokknum og móta stefnu hans. Flokkurinn virðist ekki lengur þekkja sjálfan sig og þá pólitísku sýn sem flokkurinn vill hafa. Stjórnmálaflokkar mega ekki vera svo skammsýnir og stefnulausir að þeir tjaldi bara til fjögurra ára í senn og kasti pólitískri sýn sinni fyrir róða til að komast í ríkisstjórn og gleymi þar með fyrir hvaða pólitísku sýn og gildi flokkurinn hefur staðið alla sína tíð. Drífa Snædal sagði að stjórnarþátttaka Vg með Sjálfstæðisflokknum feli í sér að flokkurinn „éti skít“ í fjögur ár; mér finnst líka að þessi ákvörðun feli það í sér að ata skít á sína eigin sögu og stefnu.
Hvaða pólitísku sýn um örlög Íslands hafa Vinstri græn í ljósi stjórnarmyndunarviðræðnanna við Sjálfstæðisflokkinn? Ég veit það ekki og það er afar slæmt fyrir stjórnmálaflokk að vita ekki hvað hann er og hvert hann er að fara og það er líka afar slæmt fyrir kjósendur að þetta sé ekki ljóst því þá veit fólk ekki hvað það er að kjósa. Vinstri græn standa á krossgötum og þau virðast ekki hafa hugmynd um hvert flokkurinn er að stefna.
Þessi hugarfarsbreyting, eða viðmiðaskipti, Vinstri grænna í garð Sjálfstæðisflokksins eru risastór söguleg tíðindi í íslenskri pólitík og geta breytt landslagi þeirra til frambúðar.
Athugasemdir