Mannréttindadómstóll Evrópu kveður upp dóm í máli Geirs H. Haarde gegn Íslandi á fimmtudaginn í næstu viku. Geir var dæmdur í Landsdómi árið 2012 fyrir að hafa sýnt stórkostlegt gáleysi í störfum sínum sem forsætisráðherra í aðdraganda bankahrunsins 2008. Geir, sem starfar í dag sem sendiherra Íslands í Washington, var sakfelldur fyrir að hafa látið undir höfuð leggjast að halda ráðherrafundi um mikilvæg mál og þannig talinn hafa brotið gegn 17. gr. stjórnarskrár.
Tekið var fram í dómi Landsdóms að með hátterni sínu hefði Geir ekki aðeins brotið gegn formreglu heldur vanrækt að marka pólitíska stefnu til að takast á við þann efnahagsvanda sem honum hlaut að vera ljós strax í febrúar 2008. „Ef slík stefna hefði verið mörkuð og henni síðan fylgt eftir á skipulegan hátt, þar á meðal af Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitinu, má leiða að því rök að draga hefði mátt úr því tjóni, sem hlaust af falli bankanna í byrjun október 2008,“ segir í dómi Landsdóms.
Fjallað um pólitískt eðli landsdóms
Geir kærði dóminn og framgöngu íslenska ríkisins gagnvart sér til Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) haustið 2012. Niðurstöðunnar er að vænta á fimmtudaginn næstkomandi, þann 23. nóvember, en verulegar líkur eru á að í sömu vikunni muni Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri græn hefja stjórnarsamstarf ásamt Framsóknarflokknum og kynna stjórnarsáttmála og ráðherraskipan nýrrar ríkisstjórnar. Geir var formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra en þingmenn Vinstri grænna léku lykilhlutverk í atburðarásinni sem leiddi til þess að hann var dreginn til lagalegrar ábyrgðar fyrir vanrækslu í aðdraganda hrunsins og dæmdur í Landsdómi. Sjálfstæðismenn börðust harkalega gegn því, en nú er stefnt að sögulegum sáttum flokkanna.
Að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá MDE telur Geir að að brotið hafi verið á rétti sínum til sanngjarnrar málsmeðferðar, réttinum til að vera talinn saklaus uns sekt er sönnuð, réttinum til að vera umsvifalaust gert kunnugt um sakarefni og réttinum til að að fá nægan tíma og aðstöðu til að undirbúa málsvörn sína.
Geir telur ákvörðun Alþings um ákæru á hendur sér hafi verið tekna á „pólitískum forsendum“, brotalamir hafi verið í málatilbúnaðinum gegn sér og að dómstóllinn hafi ekki verið óvilhallur og sjálfstæður. Þá er byggt á því að refsiheimildir hafi verið óskýrar og lagaákvæðin svo óljós að honum hefði ekki mátt vera ljóst að með háttsemi sinni kynni hann að vera dæmdur fyrir brot á stjórnarskrá.
Tamílamálinu var vísað frá
Geir Haarde er ekki fyrsti ráðherrann sem fer með ráðherraábyrgðarmál fyrir Mannréttindadómstól Evrópu og byggir á því því að sérdómstóll um ráðherraábyrgð teljist ekki sjálfstæður og óvilhallur og að málsmeðferðin hafi falið í sér mannréttindabrot.
Þann 18. maí 1999 komst Mannréttindadómstóll Evrópu að þeirri niðurstöðu að mál ráðherrans Erik Ninn-Hansen gegn Danmörku – í kjölfar fangelsisdóms Ríkisréttar yfir honum í Tamílamálinu, pólitísku hneykslismáli sem kom upp í Danmörku árið 1993 og snerist um brot á réttindum innflytjenda frá Sri Lanka – væri ekki tækt til efnismeðferðar.
Taldi Mannréttindadómstóllinn að þótt hluti dómara væri pólitískt skipaður af danska þinginu væri það ekki tilefni til að draga sjálfstæði og óhlutdrægni Ríkisréttar í efa, auk þess sem ekki væri að sjá að málsmeðferðin hefði gengið gegn fyrirmælunum sem gefin eru í mannréttindasáttmála Evrópu.
Ólíkt máli Eriks Ninn-Hansen var kæra Geirs Haarde til MDE tekin til efnismeðferðar. Það verður fróðlegt að sjá hvort dómstóllinn hverfi frá fyrri dómaframkvæmd að því er varðar sjálfstæði og óhlutdrægni sérdómstóla á borð við Landsdóm og Ríkisrétt.
Athugasemdir