Aðgengi að heilbrigðisþjónustu er misskipt og samfella í þjónustunni er slæm. Heilsugæslan annar ekki hlutverki sínu sem fyrsti viðkomustaður inn í heilbrigðiskerfið. Háskólasjúkrahúsið er undirmannað og annar ekki hlutverki sínu og geðheilbrigðisþjónusta er nánast í molum.
Þetta er á meðal helstu veikleika íslensks heilbrigðiskerfis að því er fram kom í erindi Birgis Jakobssonar landlæknis á Þjóðarspeglinum í Háskóla Íslands á dögunum. Ágrip af erindi hans birtist á Skemmunni fyrr í vikunni.
Birgir benti á það í erindi sínu að íslenskt heilbrigðiskerfi væri skipað vel menntuðu og hæfu starfsfólki og kæmi jafnframt vel út í alþjóðlegum samanburði hvað varðar árangur og aðgengi, sérstaklega þegar tekið er tillit til þess að Ísland ver mun minni hluta af vergri landsframleiðslu til heilbrigðismála en nágrannaríkin. Engu að síður sé víða pottur brotinn.
„Opinber þjónusta er fjármögnuð samkvæmt fjárlögum sem hefur lamandi áhrif á afköst þjónustunnar meðan einkarekin þjónusta er fjármögnuð samkvæmt mjög hvetjandi kerfi sem augljóslega leiðir til oflækninga á mörgum sviðum,“ segir í ágripi af erindi landlæknis. Hann benti á að samkvæmt nýlegri skýrslu Ríkisendurskoðunar hefur fjármagn til einkarekinnar þjónustu aukist um 40 prósent eftir hrun meðan það hefur dregist saman um 10% fyrir opinbera þjónustu.
„Þetta gerist algerlega án íhlutunar stjórnvalda samkvæmt opnum rammasamningi Sjúkratrygginga Ísland við sérgreinalækna,“ sagði landlæknir og benti á að fara þyrfti yfir framtíð og hlutverk LSH, taka á ráðningamálum lækna, efla göngudeildarþjónustu spítalans, bæta heilsugæsluna um land allt og sérfræðiþjónustu á landsbyggðinni. „Gera þarf auknar kröfur um gæðavísa og árleg uppgjör um hvaða gæðum er komið til leiðar, breyta þarf fjármögnunarkerfi heilbrigðisþjónustunnar og samræma það á milli opinberrar og einkarekinnar þjónustu. Nýlegt fjármögnunarkerfi á heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins er þar til eftirbreytni.“
Telur Birgir að yfirfara þurfi stjórnskipulag heilbrigðiskerfisins og nýta þann möguleika sem felst í því að heilbrigðisstofnanir landsins eru nú aðeins níu talsins. Best færi á því að forstjórar þessara stofnana væru sjálfkjörin framkvæmdastjórn heilbrigðismála í landinu undir stjórn heilbrigðisráðuneytisins.
Athugasemdir