Mig langar að tala um mikilvægi þess að kjósa. Ég veit að það er alltaf verið að tala um þetta en mér finnst eins og ekki sé nógu mikið talað um af hverju.
Sérstaklega langar mig að að beina máli mínu til kvenna og þá sér í lagi ungra kvenna. Ekki halda að þín rödd skipti ekki máli. Við fáum ekki gott og réttlátt samfélag nema rödd okkar allra heyrist.
Það er ekki sjálfgefið að konur fái að kjósa og til að við fengjum þennan rétt lögðu formæður okkar á sig ómælda erfiðleika.
Þeim fannst þetta svo mikilvægt, að fá þessa rödd í samfélaginu, að þær voru tilbúnar að fara í fangelsi, sæta útskúfun fjölskyldunnar og almennt þola mótlæti sem við getum ekki gert okkur í hugarlund núna sitjandi fyrir framan tölvurnar í öllum okkar forréttindum í hinum vestræna heimi.
Þessum konum fannst að þær gætu með samtakamætti kvenna breytt samfélaginu með því að kjósa, karlaveldið var ekki á því og barðist á móti en konur höfðu sigur. Tökum þær okkur til fyrirmyndar og nýtum þennan rétt sem við höfum og látum raddir kvenna heyrast í samfélaginu.
Valdeflum konur til þáttöku í stjórnmálum og það gerum við með því að kjósa þær á þing.
Áhugaleysi kjósenda, sérstaklega unga fólksins, er skiljanlegt. Fólk upplifir ekki að atkvæði þeirra skipti máli, því finnst að ekkert breytist og að völd þeirra séu engin. Stjórnmálamenn geri hvort sem er bara það sem þeim sýnist eftir kosningar.
Hér langar mig að leggja orð í belg. Hver og einn einstaklingur getur breytt heilmiklu. Ekki einn og sér heldur með öðrum. Allar samfélagsbreytingar sem hafa orðið í gegnum mótmæli og byltingar eru vegna þess að einstaklingar fengu nóg, fóru af stað og mynduðu hópa sem breyttu ástandinu, gott dæmi eru kvenréttindakonurnar sem áður voru nefndar.
Nærtækasta dæmið hér á landi er búsáhaldabyltingin sem er enn að skila okkur breyttum hugsunarhætti, annarri pólitík og síðast en ekki síst því að við getum tekið höndum saman og gert eitthvað í málunum. Íslendingar hafa almennt ekki verið mikið fyrir mótmæli fyrr en í seinni tíð en það hefur svo sannarlega breyst.
Ég er í framboði fyrir Pírata og á þess vegna hagsmuna að gæta. En fyrir mér er þetta ekki bara spurning um að "réttu" kjósendurnir mæti heldur að allir kjósi og nýti þennan rétt sem er svo langt í frá sjálfsagður. Við eigum öll að kjósa, um það snýst lýðræðið. Að þú eigir rödd og takir þátt og að þínar skoðanir skipti máli í því hvernig framtíðin okkar verður.
Ekki sitja heima, því að lýðræðið er þeirra sem taka þátt.
Guðrún Ágústa Þórdísardóttir
Frambjóðandi Pírata í Norðausturkjördæmi
Athugasemdir