Það tók á að vera sjúklingur og finna hvernig nautnum lífsins fækkaði eftir því sem frelsið minnkaði. Til þess að tryggja að ég væri örugglega að muna að njóta lífsins, og notfæra mér þær lystisemdir sem lífið hefur upp á að bjóða bjó ég til lista fyrir sjálfa mig. Annarsvegar fór ég eftir því sem ég sjálf hef gaman af og hinsvegar eftir því hvað við sem lífverur vorum náttúrulega hönnuð til að gera.
Það sem ég geri til að dekra við sjálfa mig og njóta lífsins:
1 Borða bara góðan mat
Fæða er grunnþörf, ekki val svo ég ákvað að borða aldrei ‘meh’ mat aftur heldur passa að það sem ég borðaði væri eitthvað sem mig langar að borða. Það þarf ekki að vera dýrt, eiginlega betra ef það er ekki dýrt en á gourmet matseðlinum er grjónagrautur, kjötsúpa, laxaréttur úr fiskbúðinni tilbúinn í ofninn, hakk+spagettí, pizza, grillmatur, smoothies og svo framvegis.
2 Sýna þakklæti
Ég hef svo margt til að vera þakklát fyrir. Ég velti mér ekki upp úr því sem er liðið og þvi sem ég á ekki heldur er þakklát fyrir það sem ég á og hef og get. Ég þakka heimilinu mínu fyrir að veita mér skjól, ég þakka börnunum mínum og fjölskyldunni fyrir að vera og gera, ég þakka fyrir að lifa í nútíðinni þar sem ég ÞÓ hef heilbrigðisþjónustu og lágmarks framfærsluöryggi í stað þess að verða að hreppsómaga. Ég þakka fyrir menntunina og skólana sem ég get sótt, tækifærin og fyrir að vera hér og nú. Ég þakka sjálfri mér líka fyrir að halda alltaf áfram.
3 Tónlist fyrir andann – dans fyrir kroppinn
Tónlist hefur ótrúleg áhrif á mannsandann og ég hlusta bara á tónlist sem lætur mér líða vel. Ég hlusta á tónlist í að minnsta kosti tvo tíma á dag á meðan ég geri eitthvað annað. Það er lítið mál að finna ókeypis tónlistarveitur á netinu eða Youtube en ég er áskrifandi að Spotify og mæli eindregið með því og Discover Weekly playlistanum.
Svo dansa ég með til að liðka líkamann – og af því að ég get ekki annað.
4 Sloppurinn / bolurinn /mussan
Þegar ég er heima að sýsla er ég helst í heima-kjólnum eða sloppnum. Eftir veikindin á ég erfitt með föt sem þrengja að mjöðmunum og magsvæðinu svo ég hef þurft að skipta algerlega um fatastíl og finna flíkur sem eru bæði boðlegar á almannafæri og þægilegar. Þegar ég er heima þurfa fötin bara að vera þægileg og það er sloppurinn svo sannarlega.
5 Rúmið og svefnherbergið
Þar sem ég eyði ekki þriðjungi heldur rúmlega helming lífsins í rúminu vegna bakverkja skiptir miklu máli að rúmið mitt sé í lagi. Dýnan, koddarnir, rúmfötin og hæðin á rúminu þurfa að vera eins og maður fílar það best og svo eru auðvitað „morgunverðarbakki“/vinnuborð og hillur þar sem hægt að geyma dót í seilingarfjarlægð staðalbúnaður sjúklingsins.
Gott svefnherbergi þarf að hafa góðan glugga til að lofta út og fá inn sólarljós, ef ljósið kemur ekki náttúrulega er hægt að stilla speglum á rétta staði til að draga ljósið inn eða kaupa dagljósaperur (þær virka).
6 Internetið
Við erum þar. Ókeypis samskipti, upplýsingar, fræðsla, skemmtiefni, tónlist. Ef ég hefði ekki Internetið væri ég á bókasafninu. Ég er ekki lengur í vinnu sem borgar netið fyrir mig svo ég lagðist yfir dæmið og endaði með ljósleiðara og net hjá Hringiðunni. Ég mæli með þeim (hef laaaangan samanburð).
7 Tengja við fólk
Stundum þarf maður einfaldlega á öðru fólki að halda. Þegar ég fæ blús, þarf ráð eða langar að deila einhverju skemmtilegu þá tek ég upp símann og hringi í fjölskyldu eða vini eða fer á samfélagsmiðla og skoða bara myndir sem fólk póstar. Stundum langar mig að deila og tengja en ekki með fólki sem ég þekki, heldur með fólki sem deilir fötlun, sjúkdómsreynslu, áhugamáli eða öðru.
8 Hreyfa sig
Ég viðurkenni að hafa engan blússandi áhuga á íþróttum eða hreyfingu, mottóið mitt hefur verið „work smart, not hard“ og það að komast af með að eyða eins fáum kaoloríum/mínútum/gráum hárum í hlutina og hægt er en hreyfing er einn af þeim hlutum sem við sem lífverur vorum hönnuð til að iðka. Líkaminn framleiðir nokkrar týpur af vellíðunarhormónum þegar við stundum hreyfingu en ef það dugar ekki sem hvatning þá virkar líka hvetjandi að eiga góða skó, góða tónlist, þægileg föt og skemmtilegt umhverfi.
9 Teygja
Merkilegt nokk þá framleiðir líkaminn líka þessi vellíðunarhormón þegar við teygjum eftir hreyfingu. Af hverju að fá bara hálf verðlaun fyrir erfiðið þegar kona getur fengið teygjukikkið líka? Sprikl en engin teygja er svona eins og að fá sér ís en gleyma að það er til dýfa og kurl.
10 Skapa
Eitt það skemmtilegasta sem ég veit er að skapa hluti og horfa yfir vel unnin verk. Það veitir mér ómælda gleði að horfa á vegg sem ég hef málað, borð sem ég hef smíðað og myndir sem ég hef málað (vel). Það að skapa og sjá framfarir er eitt það ánægjulegasta sem ég veit og ég er iðulega með nokkur verkefni í gangi til að smíða, sauma, mála, gróðursetja, pússa og svo framvegis.
11Vítamín, kalk og lýsi
Munurinn á líðaninni þegar ég tek lýsi og vítamín er ótrúlegur. Iðulega ef ég finn fyrir slappleika þá er það eftir tímabil þar sem ég hef gleymt að taka bætiefnin. Á veturna tek ég D-vítamín, annars fjölvítamín, lýsi og kalk til uppbyggingar á beinunum.
12 Blautlegt samband við baðkarið
Sturtan er fín þegar maður þarf að drífa sig en afslöppun í baðkarinu er eitthvað sem ég geri annan hvern dag eða oftar eftir þörfum (það er eftir verkjum, ekki skít). Ég set skemmtilegan þátt í gang á laptoppinum (breiði handklæði yfir lyklaborðið til öryggis), set epson salt og baðolíur í vatnið og læt verknina renna úr bakinu. Stundum tek ég líka símtöl á speaker en oftar nota ég tímann til að hugleiða, horfa eða læra eitthvað nýtt.
13 Olíuborin og húðnærð (eftir baðið)
Þegar ég kem heit og mjúk úr baðinu finnst mér dásamlegt að setja á mig kókosolíu og krem. Unaðurinn í húðinni er ólýsanlegur og hámarkast ef maður leggst svo undir sæng og hugleiðir. Húðnæring er unaður sem flestar konur njóta en karlmenn tengja síður við, mögulega af því að þeir eru sjaldnar með rakaða leggi en ég mæli með þessu fyrir alla lesendur. Kókosolían fæst í öllum betri matvöruverslunum.
14 Happy endings
Ein af frumþörfunum er að lifa kynlífi, við erum ekki fullnægð nema reglulega fullnægð.
15 Útivera (sólarljós, súrefni og hreyfing)
Við sem lífverur vorum hönnuð til að gera ákveðna hluti til að lifa af til dæmis að finna mat, skjól og búa til hluti. Ef við gerum ekki það sem hélt okkur náttúrulega á lífi þá bitnar það á líðaninni.
16 Drekka vatn
Ég þarf ekkert að útskýra þennan. Ef maður drekkur ekki nóg vatn þá líður líkamanum illa og úrgangsefnin safnast upp í nýrum og lifur.
17 Frískt loft
Konur verða slappar þar sem ekki er nægt súrefni, það að lofta út í smá stund hressir furðulega mikið.
18 Hlátur og fyndn
Fyrir utan hvað það er gaman þá lengir hláturinn lífið -og bætir útlitið, spyrjið bara Eddu Björgvins, hún er sérfræðingur í fyndni. Ef ég finn ekkert til að hlæja yfir fer ég á netið og horfi á America's Funniest Home Videos og gamlar konur að detta á rassinn. Það er alltaf fyndið að sjá gamlar konur detta á rassinn (mínus mjaðmagrindarbrot auðvitað).
19 Morgunmatur í rúmið
Sofa út + góður matur + rúm = þreföld ánægja.
20 Heimsending
Hagkaup.is, Aliexpress, aha.is, skutluhóparnir á Facebook og svo framvegis.
21 Fegurð og útsýni
Það veitir mér ánægju að hafa fallega hluti fyrir augunum hvort sem það er fallegt listaverk eða útsýnið út um gluggann minn. Ég var dásamlega heppin og hef dásamlegt útsýni út um alla glugga í íbúðinni minni en hef alls ekki alltaf búið svona vel. Þegar ég hafði bara útsýni inn um gluggann hjá nágrannanum skipti miklu að hafa smekklegar gagnsæar gardínur/filmu og fallega list á veggjunum til að horfa á í staðinn.
Athugasemdir