Þau virða fyrir sér fjallið og þegja.
Karlinn snýr sér að stúlkunni til að segja:
„Þú verður að flýta þér að kjósa,
áður en það fer að gjósa.“
Hún virðir hann fyrir sér:
„Veistu ekki hver ég er?“
Ég er sú sem hafði hátt
og rauf þar með samfélagssátt
um það sem ég mátti við una
svo lengi sem elstu konur muna
Ég er Hallgerður Langbrók
með brennandi vanga
ég er vinnukonan sem var tekin til fanga
Ég er barn borið út í hríðarbyl
ég er brotaþoli í drekkingarhyl
Ég er k a f l a s k i l
því ég er hætt að finna til
smæðar minnar
Nú hef ég hátt,
því ég var aldrei smá
hvorki nú né þá
Ég er valkyrja með spenntan boga,
geng hnarreist gegnum vítisloga,
Ég er sjálf fjallkonan, ástfangin af dáta
ég er úrhrak sem get ekki hætt að gráta
því ég er Kanamella með barn undir belti
send í útlegð með harðneskju og svelti
Ég er Bríet að heimta að stelpur læri að synda
svo þær geti synt á móti straumnum, til að mynda
Ég er komin til að sjá og sigra
miklu stærri andstæðinga en Sigurjón digra
Ég er með heiminn mér að fótum
eins og Aníta Hinriks
á heimsmeistaramótum
Ég er frambjóðandinn Vigdís
í félagsskap karla.
„Kynbundið misrétti? Varla, varla.
Konur fá völd ef eftir því er sóst.
En hvernig ætlarðu að vera forseti með bara eitt brjóst?“
Ég er kvennafrídagurinn 1975
ég er konan sem kyndir ofninn þinn
Ég er Björk Guðmunds og Salka Valka
Ég er barin kona með brotinn kjálka
Ég er lesbían sem þú reyndir að kenna
að karlmaðurinn væri gjöf guðs til kvenna
Ég er Reykjavíkurdóttir og Tyrkja-Gudda
ég er píka og tussa og bredda og budda
Hent út af Facebook, þögguð og bönnuð
því hann er jú saklaus uns sekt er sönnuð
Höfum hátt
um kjaftæði og karlrembublæti
og ásakanir um „stelpupussulæti“
Bitch please, láttu mig í friði
Heldurðu að þú vitir eitthvað um mannasiði?
Ég á mig sjálf og er alger drusla
Berbrjósta á netinu að valda usla
ég er samstaða og styrkur
sem mun aldrei fyrnast
ég er Birna
sem var svo lengi að finnast
og við ætlum að minnast
fyrir æviveginn sem hún gekk,
en ekki endalokin sem hún fékk.
Ég er framtíðin, ég er næsta stig,
og ég skil vel að þú óttist mig
því ég er bálið sem verður af litlum neista
Þegar níðingur fær æru sína uppreista
Ég er óhrædd að berjast
á hverjum fokking degi.
Hann svarar smeykur: „Það er það sem ég segi.
Flýttu þér nú að kjósa,
áður en það fer að gjósa.“
Brosið á vörum hans er frosið þegar hún segir:
Skilurðu þetta ekki ennþá?
Ég er gosið.
Athugasemdir