Dagurinn byrjaði með tölvupósti. Vegna manneklu á leikskóla sonar míns þurfi stjórnendur að grípa til þess ráðs að skerða vistunartíma barnanna. Allt hafi verið reynt til þess að fá fleira starfsfólk og fylla í þau stöðugildi sem upp á vantar, en án árangurs. Hvert barn þarf því frá og með þessari viku að vera heima einn dag, aðra hvora viku. „Okkur þykir leiðinlegt að þurfa að snúa börnum og foreldrum við í dyragættinni þegar komið er í leikskólann, en það er óumflýjanlegt þegar ástandið er slæmt,“ sagði meðal annars í póstinum.
Þetta er ekki einsdæmi og víða er ástandið jafnvel enn verra. Heilar deildir jafnvel lokaðar einn dag í viku. Fjölmargar fjölskyldur á höfuðborgarsvæðinu þurfa því að púsla. Getum við tekið okkur frí frá vinnu? Geta amma og afi tekið einn dag? Hvað á fólk með ósveigjanlegan vinnutíma og lítið bakland að gera?
Erfiðast finnst mér að reyna að útskýra fyrir fjögurra ára gömlu barni hvers vegna það geti ekki farið í leikskólann í dag.
Þessi starfsmannaskortur bitnar harðast á börnunum sjálfum, eins og sonur minn hefur því miður fengið að kynnast. Sama dag og tölvupósturinn um skerðinguna barst fékk ég símtal frá deildarstjóra. Sonur minn hafði verið bitinn illa af öðru barni í leikskólanum. Um tveimur vikum áður var hann laminn í andlitið af sama barni og bar þess enn merki. Mér þykir rétt að taka fram að leikskólinn hefur staðið afar faglega að málinu, óaðfinnanlega nánast, en það er einnig mikilvægt að fram komi að barnið sem um ræðir fær ekki allan þann stuðning sem það þarf á að halda sökum manneklu. Og það er grafalvarlegt.
Sonur minn á ekki að þurfa að vera í varnarstöðu gagnvart öðru barni í leikskólanum og þetta eru ekki skilaboðin sem ég vil að hann taki með sér út í lífið, að hann megi alltaf eiga von á því að einhver ráðist á hann með ofbeldi. En ástandið bitnar líklega verst á barninu sem á það til að missa stjórn á tilfinningum sínum, með þeim afleiðingum að það meiðir önnur börn. Hætta er á að það einangrist frá hópnum, sem mun bitna á félagsþroska barnsins og andlegri líðan.
Ástæða þess að fólk fæst ekki til að vinna í leikskólum er eflaust margþætt og flókin. Launin eru lág, starfsálag mikið og þröngt húsnæði, með alltof mörgum börnum, veldur streitu. En fyrst og síðast held ég að þetta snúist um djúpstæðan skort á virðingu fyrir starfinu.
Og þetta á ekki aðeins við um leikskólana, heldur alla láglauna-kvennavinnustaði þar sem álag, mannekla og virðingarleysi er hægt og rólega að berja burt alla starfsánægju og metnað í starfi.
Góð vinkona mín skipti um starfsvettvang um síðustu áramót og hóf störf sem ófaglærður starfsmaður á hjúkrunarstofnun á vegum ríkisins. Ég hef sjaldan heyrt nokkurn tala um starfið sitt af jafn miklum metnaði og áhuga og hún gerði fyrstu mánuðina, enda leið ekki á löngu þar til hún var farin að skoða af fullri alvöru að mennta sig í faginu, annaðhvort sem sjúkraliði eða hjúkrunarfræðingur. Hún er í dag hætt við allar slíkar áætlanir og búin að segja starfi sínu lausu – brunnin út í starfi á innan við ári!
Það vantar 1.300 leikskólakennara svo lög um menntun og ráðningu kennara séu uppfyllt, en þar er þess krafist að tveir þriðju hluta leikskólakennara séu menntaðir. Þá vantar 570 hjúkrunarfræðinga til starfa í heilbrigðiskerfinu. Á sama tíma er stjórnmálamönnum tíðrætt um gott efnahagsástand þjóðarinnar. Lengsta samfellda hagvaxtarskeið Íslandssögunnar! Allir hagvísar eru á uppleið! En samfélag sem getur ekki sinnt börnum og sjúklingum er á niðurleið.
Það er bullandi góðæri í landinu, hef ég heyrt. En það er í það minnsta ekki hér.
Athugasemdir