Ég drekk áfengi. Meira að segja svolítið mikið af því. Reyndar er það svo að nákvæmlega núna þegar ég skrifa þetta hef ég ekki smakkað það í nokkrar vikur, kannski sirka þrjár. Það hefur mest með nýlega barneign að gera. Ég tók mér meðvitað frí frá allri opinberri tónlistarspilamennsku kringum þetta stúss og þar með hef ég ekki haft „afsökun“ til að drekka. Ég set umrædda afsökun innan gæsalappa því ég þarf hvorki afsökun til að vera fullur eða edrú. Ég drekk þegar ég vil og ansi gjarnan þegar ég spila tónlist uppi á sviði. Ekkert alltaf, en mjög oft. Oftar en ekki, alveg klárlega. Því það er gaman. En ég drekk sjaldan heima.
Ég hef ofboðslega lítið þol fyrir leiðinlegu fólki og mér hefur gengið alveg ágætlega að umgangast slíkt fólk sem minnst. Það hefur gerst nokkurn veginn af sjálfu sér og ég hef ekki þurft að móðga mjög marga. Held ég. Vona ég. Ég er reyndar stundum hreinskilnari en ég geri mér grein fyrir og því hefur alveg komið fyrir að fólk móðgist án þess að ég hafi talið mig fara yfir nokkur strik. Þetta geri ég bæði fullur og edrú. Ég vona að ég sé að læra að hemja mig og eftir að ég áttaði mig á þessum galla mínum hef ég reynt að hugsa örlítið áður en ég tala. Já, og kannski sjá umræðuna utan frá og hlusta sjálfur á það sem ég segi. Auðvitað er ég fastur fyrir, en ég vil síður særa fólk af óþarfa. Einhvern veginn hefur það nú samt æxlast þannig að ég hitti lítið af leiðinlegu fólki. Gott.
„Ég hvet fólk jafnvel til drykkju, helst um miðjan dag, kannski strax eftir vinnu“
Eftir því sem árin líða hætta fleiri og fleiri í kringum mig að drekka. Það er eðlilegt, fólk eldist og gengur inn í ný tímabil ævinnar, tæklar fortíðardrauga og horfist í augu við sín vandamál. Ég á orðið ansi marga vini og vinkonur sem hafa endurheimt hamingjuna með því að segja skilið við drykkju áfengis og neyslu annarra efna. Það gleður mig fátt meira en að fylgjast með þessu fólki blómstra eftir slíkar aðgerðir. Sumir kollvarpa lífinu reyndar alveg óskaplega og hverfa af sjónarsviðinu. Við því er lítið að segja og það er ekkert endilega slæmt. Það er bara sorglegt fyrir mig. Þetta hefur sennilega lítið með áfengi að gera því ég hef misst mjög marga vini í þetta sama fjarveruástand þegar viðkomandi byrjar í leiðinlegu ástarsambandi. Breyttar áherslur og fullorðinsár. Þetta vill verða svona. Mér finnst það auðvitað óþolandi og held dauðahaldi í fortíðina og æskuna. Kannski er ég bara sorglegur að vera ekki búinn að kaupa mér golfsett og Cintamani-flíspeysu.
En aftur að fylleríinu. Ég verð nú reyndar að viðurkenna að ég nenni ekki lengur að veltast fullur niðri í bæ um helgar. Stefnulítið rölt um hávaðafylltar knæpur innan um of marga ókunnuga heillar ekki lengur. Mér finnst leiðinlegt að dansa og asnalegt að standa í röð. Ég er ekki í makaleit heldur, sem ég hef reyndar aldrei iðkað um miðjar nætur í miðbænum. En mér finnst gaman að drekka. Ég hvet fólk jafnvel til drykkju, helst um miðjan dag, kannski strax eftir vinnu. Ég vil hitta skemmtilega fólkið sem ég þekki, kaupa gott áfengi og drekka þar til við finnum á okkur. Ég vil hins vegar ekki drekka með fólki sem verður fyrir persónuleikaröskun á miðri leið. Ég vil að umræðurnar haldi áfram að vera þær sömu þótt áfengið nái upp í heila, en mér þykir margsannað að allt sem gott er verður örlítið skemmtilegra þegar skemmtilegt fólk er komið aðeins í glas. Passlega drukkið öl í góðum félagsskap magnar umræðurnar, við tölum örlítið hærra og verðum yfirlýsingaglaðari. Við hlæjum meira, skömmumst okkar ekki fyrir neitt og erum óhræddari við að sýna ögn meira af tilfinningum. Við drekkum eins og hver og einn vill og afskaplega oft er einhver við borðið sem snertir ekki áfengi, annaðhvort þann daginn eða heilt yfir í lífinu. En allir eru skemmtilegir og svo þegar við erum búin að fá nóg þá förum við heim.
Auðvitað hjálpar sumum að hætta að drekka og fyrir aðra er það lífsspursmál. Ég vil því alls ekki gera lítið úr vandamálum tengdu áfengi. Þau eru vissulega til staðar, bæði persónuleg og samfélagsleg. Ég er bara að lýsa mínum reynsluheimi eins og aðrir lýsa sínum. Þetta hefur með bókstafstrú að gera eins og flest annað. „Mér finnst fullt fólk leiðinlegt!“ Þetta heyri ég reglulega. Þetta er rangt, það fullyrði ég. Þér finnst leiðinlegt fólk leiðinlegt og það hefur lítið eða ekkert með áfengið að gera. Ég hef ekkert umburðarlyndi gagnvart því að fólk breytist við neyslu áfengist að því marki að einhver siðferðisleg mörk færist til. „Sorrí, ég var full(ur)“ er ekki til. Mér er fokk sama hversu mikið þú drakkst, ef þú hagaðir þér eins og fáviti þá ertu fáviti. Mögulega hefur áfengi þessi áhrif á heilann í þér en þá skaltu hafa manndóm í þér til að taka í taumana.
Þessi gífuryrði og fullyrðingar gera mig brjálaðan. Að fólk vogi sér að halda því fram að áfengi sé alslæmt og predika um það, ég set slíkar yfirlýsingar í flokk með trúboði og öllum öðrum heilaþvætti. Þú færð ekkert að segja mér að áfengi sé slæmt því ég hef skemmt mér konunglega með því meira en hálfa ævina, og ansi margt samferðafólk mitt líka.
Það er auðvelt að skella skuldinni á eitthvað annað en sjálfan sig ef eitthvað bjátar á. En áfengi er frábært!
Athugasemdir