Ég eignaðist son fyrir fjórum dögum. Lítið um það að segja umfram það sem allir aðrir hafa um barneignir að segja. Allt gekk að óskum, konan mín er hetja, Anna er orðin stolt stóra systir, merkur, sentimetrar, engill, duglegur að drekka og allt þetta sem við höfum heyrt milljón sinnum. Eins og þetta normal ástand er nú kærkomið eftir óhemju harkalega fæðingu þegar fyrra barnið kom í heiminn játa ég að ég finn fyrir tómleikatilfinningu. Síðast var um svo mikið að tala, barnið mitt næstum dáið, lá svo í kæli í þrjá sólarhringa og engin leið að vita með vissu hvort heilaskaði væri yfirvofandi. Álagið var auðvitað alveg brjálað og við ósköp lítil svona í höndum tilviljana, fagfólks og almættis hvers og eins, en þá var í það minnsta eitthvað um að tala. Helvítið hann sonur minn sefur bara út í eitt nema þá rétt þegar hann rumskar til að svolgra í sig mjólkurskammtinn. Svo sofnar hann aftur, mögulega eftir að hafa aulast til að sýna okkur augun í tvær sekúndur. Og þá fögnum við ógurlega, við foreldrarnir, því meira býðst okkur ekki. Eftir það tekur bara við að leggja hann í rúmið sitt, setja í uppþvottavélina, hella upp á kaffi og deyfa meðvitundina með Netflix og tölvuleikjum á víxl.
Síðast fékk ég að ganga um gólf heilu næturnar með Önnu á handleggnum. Örþreyttur og aðframkominn notaði ég hverja stund sem gafst til að halla aftur augunum. Ég bar mig vel við fólk sem ég hitti og sagði þeim að aðrir hefðu það nú verr en ég, þetta væri nú ekki svo slæmt. En ég kann að spila leikinn og lét auðvitað í það skína að ég væri þreyttur. Ég bjó til svona hversdagshetju úr sjálfum mér, mann sem horfðist í augu við dauðann áður en hann þurfti að ganga gólfdúkinn niður úr gólfinu nótt eftir nótt með grátandi málleysingja á arminum. Og það þurftu allir að hlusta á mig því ég var að að tala um barnið mitt sem kom dáið í heiminn en bjargaðist á ótrúlegan hátt. Núna á ég nýtt barn sem fæddist frekar átakalaust og gerir ekkert sem hægt er að tala um. Það endist enginn í samræðum um svoleiðis nema nokkar mínútur. Börn eru nefnilega fjandi óáhugaverð svona ein og sér. Þau eru öll eins og gera í grunninn allt það sama. Og alveg sama hversu ógurlegan áhuga við gerum okkur upp þá er okkur frekar mikið sama um börn annarra. Okkur er auðvitað ekki sama um heilsufar þeirra og foreldranna, eðlilegan þroska og vellíðan. En svona almennt kjaftæði um tanntöku, brjóstagjöf, hvort hann sé hættur að nota bleiu eða hún mannafæla, við sýnum þessu áhuga svona nákvæmlega á mómentinu þegar foreldrarnir bera þetta upp í samtalinu en í raun og veru er okkur skítsama. Auðvitað. Það er ekki pláss fyrir svona hjóm í heilabúunum á okkur því við erum upptekin við að tækla lífið með okkar eigin börnum. Dóttir mín er ekki orðin tveggja og hálfs árs. Hún kann að telja upp að 20, þekkir alla tölustafina og bókstafina og veit hvað þeir segja. Mér finnst þetta merkilegt, og mögulega gleður þetta eitthvert sérlegt áhugafólk um kunnáttu barna. En 99% af ykkur öllum er skítsama og þið verðið búin að gleyma þessu í kvöld. Þetta er ekkert merkilegt. Þetta er bara enn eitt barnið sem einhver ókunnugur skeggapi úti í bæ rausaði um í pistlinum sínum.
„Þessi tómleikatilfinning er samt úr karakter hjá mér því ég er aldrei fegnari en einmitt þegar ég þarf sem minnst að stússa og brasa.“
Þessi tómleikatilfinning er samt úr karakter hjá mér því ég er aldrei fegnari en einmitt þegar ég þarf sem minnst að stússa og brasa. Allt mitt uppeldi á börnunum mínum rær til að mynda að því að ég hafi það sem best og að lífið sé létt. Ef börnin mín eru vel upp alin, þæg og sjálfbjarga þarf ég að gera minna. Það er minn hvati í uppeldinu. Komdu hérna, krakki, og lærðu snöggvast að lesa, þá þarf ég ekki að gera það fyrir þig fram eftir öllu. Farðu í skóna þína, ekki grenja þegar ekkert er að þér og borðaðu það sem er í matinn. Leystu verkefnin sem koma upp og vertu skemmtileg og brosandi á meðan. Þá líður þér vel og þar með líður mér vel. Ég er alls ekki að tala um ósanngjarnan heraga því ég myndi ekki nenna svoleiðis, fyrir svo utan að vera ekki sammála slíkum aðgerðum, heldur er ég bara að reyna að koma Önnu í skilning um það hvernig hún getur ráðið sem best við lífið upp á eigin spýtur. Ég vil hafa börnin mín með mér eins oft og það meikar sens og kenna þeim á lífið. Ég vil ekki vera með börnin mín, ég vil vera með börnunum mínum. Það vill svo til að ég hef verið hérna lengur en þau og kann fleira. Þess vegna kenni ég þeim það sem þau þurfa að vita, hratt og örugglega svo þau hætti sem fyrst að spyrja.
Ég eignaðist heilbrigðan son á föstudagsmorguninn. Hann er fullkominn, sefur og drekkur og andar og kúkar og pissar og hreyfir sig eðlilega. Systir hans er að rifna úr stolti, svo mjög að við þurfum að passa upp á að hún kremji hann ekki til óbóta hvern einasta dag. Ég er útsofinn, móðir barnanna minna hefur aldrei litið betur út og ég ætla að nýta feðraorlofið í að hvíla mig og sinna fólkinu mínu. Það er ekkert að frétta og það er fullkomlega frábært.
Og ykkur er vonandi nákvæmlega sama.
Athugasemdir