Já, er það Júlíus Vífill?
„Já.“
Blessaður og sæll, Jón Trausti heiti ég og er að hringja frá Stundinni.
„Stundinni, já.“
Júlíus Vífill hvíslar, að því er virðist til nærstaddra: „Stundin“.
Við erum að skoða fund sem átti sér stað 6. apríl í fyrra. Með þér og Sigurði G. Guðjónssyni og fleirum, þar sem er verið að ræða um skattgreiðslur af sjóðnum sem fjallað hefur verið um opinberlega og er staddur á aflandssvæði.
„Hverjir voru á þessum fundi? Hverjir aðrir?“
Þarna voru þú, fleiri erfingjar og Sigurður G. Guðjónsson.
„Nei, hverjir aðrir?“
Ég er sem sagt bara að horfa á efni fundarins.
„Ef þú ert að biðja mig um einhver viðbrögð við þessu verðurðu náttúrlega að segja mér hverjir þetta voru sem voru á fundinum.“
Ég skal segja þér hvert efni fundarins var. Það var umræða um að féð hafi ekki verið flutt í dánarbú vegna þess að lögmaður þinn hafði ráðlagt þér að gera það ekki til að forðast skattgreiðslur.
„Hvaða. Ókei, ég hef ekki heyrt þetta og kannast ekki við þetta.“
Efast um að fundurinn hafi átt sér stað
Þú kannast ekki við fundinn?
„Ertu viss um að þetta sé af einhverjum slíkum fundi?“
Já, tímasetningin kemur óbeint fram á þessum fundi. En þú kannast við að hafa fundað með lögmanni þínum og öðrum erfingjum þarna í byrjun apríl, er það ekki?
„Ég verð nú eiginlega að skoða bara tímasetningar varðandi það. Ég get ekkert sagt þér um það svona, af því að þú virðist ekki hafa miklar upplýsingar um þetta. Ég bið þig eiginlega að upplýsa mig, svo ég sé ekki bara að upplýsa þig. Svo við séum svona einhvers staðar á sömu síðu.“
Sko, það sem ég er að gera núna er að leita viðbragða hjá þér, við bæði þessum fundi og stöðunni á þessu máli ...
„Ég get ekki gefið þér viðbrögð við einhverju sem þú getur ekki sagt mér frá.“
Ef við horfum aðeins fram hjá því hver var á fundinum og horfum á stöðu málsins í heild sinni. Þetta fé er ennþá þarna á reikningi erlendis, er það ekki rétt? Nú erum við að tala um, meðal annars þetta fé sem flutt var í félagið þitt, Silwood. Það er ennþá statt erlendis, er það ekki?
„Við skulum aðeins taka þessu rólega. Nú verður þú aðeins að sýna mér þá virðingu að segja mér um hvað þú ert að tala. Þú hringir í mig og segir frá einhverjum fundi fyrir ári síðan. Ókei, ég kannski man ekki alveg eftir fundi fyrir ári síðan. Hver sendi þér þetta? Kannski að það myndi nú lýsa einhverju.“
Gagnrýndi fjölmiðla fyrir að leita ekki viðbragða
Það sem ég er að gera hér er að leita viðbragða hjá þér. Þú hefur gagnrýnt fjölmiðla fyrir að leita ekki viðbragða og upplýsinga hjá þér. Nú er ég að gera það. Og nú ert þú á móti að biðja mig um að veita þér alls konar upplýsingar sem eru ekki efni þessara umfjallana og eru ekki lykilatriði.
„Róaðu þig aðeins niður. Þú ert að biðja mig um að, þú sagðir leita viðbragða hjá fundi, sem mun … ert þú með einhverja útskrift af þeim fundi, eða hvað?“
Ég er sem sagt með áreiðanlegar upplýsingar um efni þessa fundar.
„Af hverju segirðu að þær séu áreiðanlegar? Segðu mér af hverju þú segir það. Ertu með upptöku af fundinum?“
Þú veist væntanlega hvað það snýst um allt saman. En það er kannski ekki lykilatriði, heldur er lykilatriðið staðan á þessu máli sem hefur verið til opinberrar umfjöllunar og þú hefur stundum svarað fyrir og stundum ekki. Og nú langar mig bara, ef við horfum fram hjá fundinum sem slíkum, er það rétt að þú hafir ákveðið að fresta því, og ákveðið að sleppa því, að koma með peningana til landsins vegna þess að þú vildir forðast skattgreiðslur?
„Nei.“
Ertu búinn að greiða skatt hér á landi af þessum peningum?
„Ég hef bara gert algerlega fyllilega grein fyrir þessu máli öllu saman. Á þeim stöðum sem ég þarf að gera það, á opinberum stöðum. Það er allt saman á hreinu.“
Peningarnir ekki komnir til landsins
En þessir peningar, þeir eru ekki komnir til landsins, er það, ennþá?
„Ef þú ætlar að fara að birta eitthvert viðtal, þú grípur svo mikið fram í fyrir mér að mér finnst erfitt að tala við þig.“
Athugasemdir