Helstu fjölmiðlar landsins eru ýmist í gríðarlegum rekstrarvanda, eða þegar farnir í þrot, og þurfa jafnvel niðurgreiðslur hagsmunaaðila til þess að lifa af.
Fjársterkir aðilar sjá hag sinn í því að niðurgreiða taprekstur Morgunblaðsins ár eftir ár, en fjárfestar sem ætluðu að reyna að snúa við stöðunni hjá Pressuveldinu snarhættu við þegar þeir fengu nánari upplýsingar um stöðu félagsins. Skuldir Pressunnar og tengdra miðla við Tollstjóra vegna vangoldinna opinberra gjalda nema um 300 milljónum króna og hefur Tollstjóri sent inn gjaldþrotabeiðni á hendur DV ehf. Fari svo að ekki verði staðið við greiðslur á staðgreiðsluskatti af starfsfólki eða virðisaukaskatti geta stjórnarmenn og framkvæmdastjóri félagsins skapað sér refsiábyrgð.
Íslenskir blaðamenn búa áfram við óstöðugleika og lítið starfsöryggi, en auk uppsagna hjá miðlum Pressunnar, vegna fjárhagserfiðleika fyrirtækisins, fór Fréttatíminn í gjaldþrot á þessu ári. Þá er ákveðin óvissa uppi um framtíð Fréttablaðsins eftir að Fjarskipti keypti alla miðla 365, fyrir utan Fréttablaðið og tískutímaritið Glamour.
Skortur á stuðningi til handa fjölmiðlum, tæknibreytingar, staða Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði og aukin samkeppni við alþjóðleg stórfyrirtæki um auglýsingatekjur gera rekstrarumhverfi íslenskra fjölmiðla óhagstætt, enda eru flestir íslenskir fjölmiðlar reknir með tapi. Á sama tíma og Bjarni Benediktsson sagði íslenska fjölmiðla vera orðna svo veika að þeir gætu allt eins stofnað Facebook-síðu og leyft öllum að skrifa á vegginn, hækkaði hann hins vegar virðisaukaskatt á sölu dagblaða sem nú er með því hæsta sem gerist í Evrópu. Ísland er eina Norðurlandaþjóðin sem ekki veitir fjölmiðlum ríkisstyrki í þeim tilgangi að tryggja lýðræðislega umræðu.
Nefnd um rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla átti að ljúka störfum í febrúar síðastliðnum, en hefur enn ekki skilað tillögum til ráðherra. Enginn starfsmaður fjölmiðils, né Blaðamannafélag Íslands, fékk sæti í nefndinni en þess má geta að sambærileg nefnd í Noregi var fyrst og fremst skipuð fulltrúum fjölmiðla.
Bjarni gagnrýnir fjölmiðla
Í ágúst í fyrra gagnrýndi Bjarni Benediktsson forsætisráðherra fjölmiðla harðlega og lýsti þeim sem „skel“. Tilefnið var ritstjórnarpistill í Fréttablaðinu þar sem úrræði ríkisstjórnarinnar, „fyrsta fasteign“, var gagnrýnt. Bjarni sagði það meðal annars undrunarefni hve margir fjölmiðlar hér á landi starfi án þess að nokkur ritstjórnarstefna sé sjáanleg. Þess ber að geta að ritstjórnarstefnu allra skráðra fjölmiðla hér á landi má finna á vef fjölmiðlanefndar.
„Hún gerist æ sterkari tilfinningin að vegna manneklu og fjárskorts séu viðkomandi miðlar orðnir lítið annað en skel, umgjörð um starfsemi þar sem hver fer fram á eigin forsendum. Engin stefna, markmið eða skilaboð og þar með nánast enginn tilgangur, annar en sá að vera til staðar fyrir þá sem þar vinna. Þeir skiptast síðan á að grípa gjallarhornið sem fjölmiðillinn er orðinn fyrir þá og dæla út skoðunum yfir samfélagið. Ein í dag – önnur á morgun. Borið út frítt. Hvers vegna ekki bara að opna Facebooksíðu og leyfa öllum að skrifa á vegginn?“ skrifaði Bjarni meðal annars á Facebook-síðu sína.
Harðlega gagnrýndur á þingi
Ummæli Bjarna vöktu gríðarleg viðbrögð og voru meðal annars tekin upp á Alþingi daginn eftir. Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, sagði orð hans bera vott um að hann geri ekki mikinn greinarmun á samfélagsmiðlum og faglegum fjölmiðlum. „Þetta eru ansi þung orð hjá formanni stærsta stjórnmálaflokks landsins, ekki síst í ljósi þeirrar stöðu sem fjölmiðlar á Íslandi og annars staðar í hinum vestræna heimi eiga í á tímum tæknibreytinga, á tímum samfélagsmiðla, þar sem tekjustofnar hefðbundinna fjölmiðla hafa veikst þannig að þeir ráða illa við að halda úti hlutverki sínu sem er að þjóna almenningi og gera almenningi kleift að gera mun á staðfestum upplýsingum og öðru því efni sem flýtur um samfélagsmiðla, til dæmis frá okkur stjórnmálamönnum sem öll höldum úti okkar Facebook-síðum,“ sagði Katrín. Þá benti hún á að Ísland væri eina Norðurlandaþjóðin sem væri ekki á topp tíu-lista yfir fjölmiðlafrelsi í heiminum og hefði hrapað um meira en tíu sæti á tveimur árum, ekki síst vegna umræðu stjórnmálamanna um fjölmiðla.
Bjarni sagðist telja ástæðu til að spyrja sig að því hvort eitthvað mætti gera í laga- eða skattaumhverfi til að treysta betur umgjörð fjölmiðla í landinu og þann mikilvæga tilgang sem þeir hefðu. Að öðru leyti gaf hann lítið fyrir umræðuna, um hafi verið að ræða „létta Facebook-færslu“ og þetta hafi bara verið einföld hugrenning um stöðu fjölmiðlanna í landinu og skort á öflugum, sterkum fjölmiðlum með skýr skilaboð þar sem einhver þráður væri frá degi til dags. „Menn geta alveg verið í fjölmiðlarekstri á Íslandi mín vegna og skipt um skoðun á hverjum degi og dælt út hvaða dellu sem er, gjörið svo vel. Þá verður það mín upplifun á viðkomandi fjölmiðli að hann sé ekki markverður, ekkert mark sé á því takandi sem þaðan streymir,“ sagði hann meðal annars.
Athugasemdir