Þrátt fyrir að hafa verið kærðir fyrir líkamsárás á hendur manni við handtöku, sem tvífótbrotnaði við aðfarirnar, verða tveir lögreglumenn áfram við störf hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni. Þeir verða því ekki sendir í leyfi að svo stöddu.
„Kærur á hendur lögreglumönnum vegna meintra brota í starfi eru ávallt teknar alvarlega og svo á einnig við hér. Lögreglumennirnir sem um ræðir eru áfram við störf, en frekari ráðstafanir Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu gagnvart þeim verða teknar með hliðsjón af þeirri niðurstöðu sem hlýst af rannsókn embættis héraðssaksóknara í þessu máli,“ segir í tilkynningunni.
Embætti héraðssaksóknara rannsakar nú málið. Hins vegar hefur eitt vitni í málinu þegar stigið fram. Freyr Jóhannsson, vaktstjóri á Hamborgarabúllunni við Dalveg í Kópavogi, lýsti grófu ofbeldi lögreglumannanna í samtali við Vísi.
Aðdragandi handtökunnar var að tveir pólskir menn voru ölvaðir og með læti við hamborgarastaðinn um kvöldmatarleyti. „Maðurinn streittist mikið á móti þegar hann var handtekinn og vinur hans sömuleiðis, því hann byrjaði að toga í manninn og lögreglumennina. Þegar hann gerði það drógu lögreglumennirnir upp kylfu og ýttu hinum niður í jörðina og börðu hann með kylfunni. Lögreglumaðurinn ýtti þessum handtekna svo inn í bílinn, en þegar maðurinn hélt áfram að streitast á móti byrjaði lögreglumaðurinn að lemja hann með kylfunni af fullum krafti og lamdi bílhurðinni ítrekað í sköflunginn á honum. Þetta var mjög harkalegt og gróft og ég hef aldrei séð annað eins.“
Athugasemdir