Í september 2007 fékk Anna Katrín Snorradóttir eitt stærsta kvíðakast sem hún hafði nokkurn tíma fengið. Hún lagðist í gólfið, skalf og grét óstjórnlega. Konráð Guðmundsson, kærasti hennar, skildi ekki hvað væri að gerast eða hvað hefði valdið konunni í lífi hans slíkri vanlíðan og reyndi árangurslaust að fá hana til að tala við sig. Það sem hann vissi ekki var að sama dag höfðu verið fluttar fréttir af því að Róbert Árni Hreiðarsson lögmaður hefði verið dæmdur í þriggja ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir kynferðisbrot gegn fjórum unglingsstúlkum og að við húsleit heima hjá honum hefði fundist minnisbók með nöfnum og símanúmerum 335 stúlkna. Nú kæmist upp um hana, hugsaði Anna með hryllingi, og þegar hún róaðist greindi hún kærasta sínum frá því að hún ætti það sameiginlegt með þessum stúlkum að hafa „lent í Róberti Árna“ sem unglingur. Þetta var í fyrsta skipti sem hún sagði nokkrum frá því sem hafði gerst.
„Ég kenndi sjálfri mér ennþá um allt sem hafði gerst og það blossaði upp hræðsla um að nú kæmist allt upp. Við Konni vorum nýbyrjuð að búa saman og ég var viss um að ef hann kæmist að þessu myndi honum finnast ég ógeðsleg og fara frá mér. Á endanum brotnaði ég algjörlega niður og sagði honum frá öllu.“
Hringdu á sjúkrabíl vegna kvíðakasts
Í síðasta mánuði voru sagðar fréttir af því að Robert Downey, áður Róbert Árni Hreiðarsson, hefði fengið lögmannsréttindi sín aftur eftir að hafa fengið uppreista æru í september á síðasta ári. Anna Katrín segir að morguninn eftir að fyrsta frétt var sögð af málinu hafi móðir hennar hringt í hana og spurt hvernig henni liði. „Ég hafði ekki hugmynd um hvað hún væri að tala um og fór beint á vefmiðlana. Þar blasti við stór mynd af honum og fréttin af því að hann hefði fengið uppreist æru og lögmannsréttindi sín á ný. Ég varð ótrúlega dofin og fannst þetta svo óraunverulegt, trúði því ekki að þetta gæti gerst,“ segir Anna.
Þegar Nína Rún Bergsdóttir, ein þeirra fjögurra stúlkna sem Róbert var dæmdur fyrir að misnota árið 2007, tjáði sig um málið á Facebook ákvað Anna Katrín að hafa samband við hana. „Þegar ég sá þessa frétt fylltist ég einhverri réttlætiskennd og fannst ég þurfa að stíga fram,“ segir Anna. Í kjölfarið komst hún í samband við Steinunni Guðbjartsdóttur, sem var réttargæslumaður Nínu Rúnar á sínum tíma. „Steinunn gerði mér grein fyrir því að hluti af mínu máli væri fyrndur, það er það sem gerðist á árunum 2001 til 2002, en alvarlegustu brotin áttu sér stað árið 2004 og það er ekki fyrnt. Hún bað mig um að hugsa mig vel um hvort mér þætti þess virði að fara í gegnum dómsmál. Ég ætti alltaf rétt á að kæra, þetta færi alltaf á hans kæruskrá, en að það væru um áttatíu prósent líkur á að málið yrði fellt niður og ég ætti að undirbúa mig undir það líka. Ég talaði við Steinunni á mánudeginum eftir að fréttin um uppreist æru birtist og hún bað mig um að hugsa mig um í eina viku.“
Anna Katrín segist hins vegar ekki hafa þurft heila viku til þess að taka ákvörðun. Eftir að hafa liðið illa alla helgina fékk hún alvarlegt kvíðakast síðar um kvöldið, verra en þegar hún heyrði af dómnum árið 2007. „Ég gjörsamlega brotnaði saman og grét og grét. Síðan fór ég að fá alls konar líkamleg einkenni; hjartsláttartruflanir, svita, skjálfta og ólýsanlega óraunveruleikatilfinningu. Ég hef fengið kvíðaköst áður, en þetta kvöld hélt ég að ég væri að deyja. Maðurinn minn ákvað að hringja á sjúkrabíl og bráðaliðarnir sem komu heim náðu að róa mig niður. Ég ákvað því að fara ekki með þeim upp á spítala.“
Eftir þetta segist hún hafa gert sér grein fyrir því hversu mikil áhrif þetta mál hefði haft á hana alla tíð, ekki bara andlega heldur einnig líkamlega. „Þetta kvöld tók ég ákvörðun um að stíga fram og skila skömminni. Og ég vissi strax að ég vildi gera það opinberlega.“
Anna Katrín er sjötta stúlkan til þess að leggja fram kæru gegn Robert Downey, en hún fór í skýrslutöku hjá lögreglu í síðustu viku.
Athugasemdir