Reykjavík er að verða sífellt alþjóðlegri. Um fimmtungur borgarbúa er af erlendum uppruna og atvinnuþátttaka þeirra er hærri en innfæddra. Borgarbúar af erlendu bergi brotnu leggja því verulega til efnahagslífs borgarinnar. Borga skatta og útsvar sem rennur í borgarsjóð.
Aðgengi að samfélaginu
Áður en lengra er haldið vil ég taka fram að við sem erum búsett í borginni erum eins ólíkt og við erum mörg. Það á líka við íbúana sem koma annars staðar frá. Þau eru m.a. af mismunandi uppruna, aldri og kyni og hafa ólíka menntun, menningu, trú og fleira. Það gildir því ekki eitt um öll. Það á einnig við um einstaklinga innan hvers hóps fyrir sig. Hins vegar á fólk af erlendum uppruna oft það sameiginlegt að upplifa ekki endilega að það tilheyri samfélaginu þrátt fyrir að búa hér og vera virkir m.a. í atvinnulífinu enda þarf vanalega meira til.
Reykjavíkurborg kynnti fyrir áramót fjölmenningarstefnu sem gildir frá 2026 til 2030 sem miðar öll að inngildingu. Sumir amast við orðinu. Það er hins vegar mjög lýsandi. Flest ef ekki öll sem taka sér búsetu í öðru landi þurfa leiðbeinandi stuðning til að komast, að öllu leyti, inn í samfélagið. Átta sig á hvernig allt virkar, réttindum sínum og skyldum, viðteknum venjum og þar fram eftir götunum. Góð samlíking væri einstaklingur sem kemur að lokuðum dyrum og til að komast áfram þá þarf einhver, sem hefur lyklavöld, að opna og hleypa viðkomandi „inn“. Síðari hluti orðsins, „gilding“, er tilvísun í það að verða fullgildur samfélagsþegn og þá um leið er viðkomandi sjálfur kominn með lyklavöldin og getur aðstoðað aðra við að fóta sig í samfélaginu.
Inngildingarskref
Inngilding raungerist skref fyrir skref hjá fólki bæði félagslega og lagalega. Sem dæmi um hið félagslega þá er það oft fyrsta verk flóttafólks eftir að það hefur komið undir sig fótunum að safna fyrir bílprófi og svo bíl. Þannig fer það að haga sér eins og innfæddir enda mæta almenningssamöngur enn sem komið er ekki nægilega vel þörfum fólks sem er háð þeim. Margir vinna t.d. á kvöldvöktum fjarri heimili sínu og ljúka störfum eftir að strætó er hættur að ganga. Sem dæmi um lagalegu hliðina geta einstaklingar, sem eru búsettir hérlendis og með erlendan ríkisborgararétt, ekki kosið í Alþingis- og forsetakosningum fyrr en þau eru orðin íslenskir ríkisborgarar. Þau geta hins vegar kosið í sveitarstjórnarkosningum að uppfylltu því skilyrði að hafa átt lögheimili samfellt á Íslandi í þrjú ár.
Virk upplýsingagjöf
Þrátt fyrir lagalega réttindi getur samfélagsleg þátttaka fólks verið takmörkuð. Kosningaþátttaka fólks af erlendum uppruna er t.a.m. frekar dræm eins og var fjallað var um í Kveiksþætti eftir sveitarstjórnarkosningar árið 2022. Þar var rætt við íbúa af erlendum uppruna sem sögðu að það væri m.a. vegna skorts á upplýsingum og áhugaleysi stjórnmálaflokka á þeim sem kjósendum. Upplýsingar um réttindi fólks liggja víða á netinu en það nægir hins vegar ekki til. Þessu til mótvægis þarf að skapa vettvang fyrir virka í stað óvirkrar upplýsingagjafa. Fræðslu og samskipta grundvöll þar sem fólk fær tækifæri til að spyrja spurninga og eiga lifandi samræður við innfædda og hvert annað. Það er nú þegar til staðar m.a. á vegum þeirra sem reka íslenskuskóla og þannig gengur inngilding fyrir sig. Hún gerist fyrir hvatningu og leiðbeiningu með virkum en ekki óvirkum hætti.
Inngildingaraðgerðir sem umbótaverkefni í sífelldri þróun
Sem frambjóðandi á lista Samfylkingarinnar fyrir komandi borgarstjórnarkosningar þekki ég afar vel til inngildingaraðgerða hins opinbera eftir að hafa starfað við móttöku flóttafólks hjá tveimur sveitarfélögum, Hafnarfirði og Reykjavíkurborg. Jafnframt hef ég bæði útbúið og framkvæmt mín eigin inngildingarverkefni á sviði lýðræðislegrar þátttöku fyrir íbúa af erlendum uppruna í samráði og samvinnu við stjórnvöld, félagasamtök, verkalýðsfélög og hópa fólks af erlendum uppruna.
Það sem ég áttaði mig á, einkum eftir að hafa starfað sem teymisstjóri hjá Reykjavíkurborg, er að móttaka flóttafólks og inngilding almennt felur fyrst og fremst í sér að jafna aðstöðu fólks. Margt er þar virkilega vel gert en á sama tíma, að mínu mati, er svigrúm til að gera enn betur. Þannig lít ég á inngildingu sem umbótaverkefni sem er í sífelldri þróun. Sem dæmi var unnið að því að þróa verkferil til að tengja saman ólík svið sem komu að málefnum flóttabarna. Samkomulag var einnig komið í höfn um að þróa foreldrafærninámskeiði í samvinnu við, annars vegar, teymi Barnaverndar Reykjavíkur, sem sinnir málum barna af erlendum uppruna og heimilisofbeldi og hins vegar, Keðjunnar, samstarfsnets um betri þjónustu við börn. Jafnframt var hafin vinnsla á handbók fyrir ráðgjafa flóttafólks og félagsráðgjafa sem sinna ofbeldismálum innan ramma verkefnisins Saman gegn ofbeldi. Tilgangurinn með handbókinn var að auka þvermenningarlega færni og skilning á mismunandi hugsunarhætti og viðhorfum gagnvart ofbeldi til að geta betur sett sig í spor bæði þolenda og gerenda. Veitt þeim viðeigandi aðstoð án þess þó að gefa þumlung eftir af réttindum þolenda. Eftir búsetu og störf í Afganistan, Bosníu, Kosovó, hinni hernumdu Palestínu og Tansaníu hef ég sífellt betur áttað mig á því hversu mikilvægt það er að hafa ríka innsýn í mismunandi hugsunarhátt fólks og viðhorf. Það er og hefur reynst hjálplegt og árangursríkt fararnesti til að geta orðið að sem bestu liði við að veita fólki inngildandi stuðning.
Stuðningur við börn og foreldra þeirra
Það sem er ekki síst mikilvægt þegar kemur að inngildingu er stuðningur við börn og foreldra þeirra. Það þarf að koma upp skipulagi til að stuðla að sem bestri málörvun barna sem og læsi og lesskilningi. Tvöfalt hærra brottfall ungmenna með erlendan bakgrunn er úr framhaldsskóla. Það þýðir vonbrigði samhliða upplifun brostinna drauma sem er alls ekki gott veganesti út í lífið. Hvorki fyrir einstaklinginn eða samfélagið. Það þarf einnig að skapa forsendur fyrir virka þátttöku á foreldrafundum til að foreldrar upplifi sig ekki algerlega utangátta. Það er mögulegt að gera með einföldum aðgerðum eins og að para saman foreldra sem tala íslensku við foreldra sem tala enga eða ekki nægilega góða íslensku til að geta tekið fullan þátt. Það er vitaskuld ekki hægt að neyða neinn til þátttöku en mögulegt væri að foreldrar séu paraðir saman í eina önn sem hægt væri að framlengja ef vel gengur. Þannig geta hin íslenskumælandi stutt við innflutta til að hjálpa við þeir átta sig á t.d. hvað er á dagskrá fyrir fund, umræðum meðan á foreldrafundi stendur og hvað fór raunverulega fram.
Mannkostamenntun sem aðgerð gegn einelti
Að lokum. Það er þjóðþrifamál að taka á einelti í skólum, þ.m.t. einelti sem beinist að börnum og ungmennum vegna uppruna þeirra, húðlitar og/eða trú. Skv. könnunum á Íslandi eru börn af erlendum uppruna og fötluð börn líklegri til að lenda í þeirri hörmung en önnur börn. Einelti hefur jafnframt færst í aukana. „Einelti er alvarleg tegund ofbeldis sem hefur víðtækar samfélagslegar afleiðingar. Börn sem verða fyrir langvarandi einelti geta glímt við afleiðingar þess ævilangt. Forvarnir gegn einelti eru lýðheilsumál enda getur það haft áhrif á lífsgæði og heilsu bæði þolenda og gerenda til lengri og skemmri tíma.“ Þetta segir í greinargóðum pistli Kolbrúnar Áslaugar Baldursdóttur sem birtist í nóvember á síðasta ári í tilefni Dags gegn einelti.
Góðvild, réttlætiskennd, samkennd og stuðningur við kennara
Þrátt fyrir áætlanir gegn einelti hjá Reykjavíkurborg þá ríkir ákveðið aðgerða- og úrræðaleysi í sumum tilvikum. Í ljósi þess og þeirra alvarlegu afleiðinga sem einelti getur haft fyrir einstaklinga út lífið þá hef ég sem frambjóðandi áhuga á að kanna hvort grunnskóli í Reykjavík gæti tekið þátt í tilraunaverkefni um að innleiða mannkostamenntun þá sem Kristján Kristjánsson hefur þróað. Hann er prófessor í heimspeki við Háskólann í Birmingham, fálkaorðuhafi og fyrrum heimspekikennarinn í menntaskóla mínum. Ásamt samstarfsfólki sínu hefur hann verið að rannsaka og innleiða mannkostamenntun í skóla innan breska menntakerfisins.
Mannkostamenntun gengur út á að börn og ungmenni tileinki sér siðferðilegar dyggðir á borð við góðvild, réttlætiskennd, hluttekningu eða samkennd, umhyggju og þakklæti. Hún gengur líka út á það að börn og ungmenni ræði siðferðileg álitaefni eins og gert var í menntaskóla í tímum hjá Kristjáni. Þar lét hann okkur nemendur sína m.a. ræða hvort það væri siðferðilega rangt af ungum dreng að stela lyfjum fyrir veika móður sína sem átti ekki pening til að kaupa þau. Það er augljóslega mögulegt að ræða og taka á eineltismálum út frá siðferðilegum spurningum sem um leið koma inn á umrædda mannkosti.
Auðvelt er að ímyndað sér að mannkostamenntun gæti einnig nýst sem stuðningur við kennara sem upplifa sífellt meira vinnuálag eftir því sem fleiri og viðameiri verkefni bætast við. Með innleiðingu mannkostamenntunar myndi umræða um virðingu í samskiptum og samkennd eiga sér stað allt árið um kring samfléttuð með fjölbreyttum hætti inn í starfsemi skóla og mismunandi námsgreinar. Það væri eflaust vænlegra til árangurs sem forvörn gegn einelti frekar en að grípa eingöngu til tímabundinna aðgerða í hvert sinn sem alvarleg mál kemur fram í dagsljósið. Hættan er að eftir á falli allt aftur í sama farið á meðan það þarf að fyrirbyggja einelti og neikvæðar afleiðingum þess með öllum ráðum og dáð í krafti þess að efla og rækta mannkosti yngstu borgarbúanna.
Höfundur gefur kost á sér í 2.-4. sæti á lista Samfylkingarinnar fyrir komandi borgarstjórnarkosningar.
Forvalið fer fram með rafrænum hætti laugardaginn 24. janúar frá miðnætti fram til kl. 18:00.















































Athugasemdir