Aðalsteinn Leifsson nýtur mests stuðnings þeirra Reykvíkinga sem tóku afstöðu í könnun Maskínu um hver sé best til þess fallinn að leiða lista Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Samkvæmt niðurstöðum telja 52 prósent Aðalstein bestan kost, en 35,9 prósent nefna Björgu Magnúsdóttur og 12,1 prósent Róbert Ragnarsson.
Könnunin var gerð af Maskínu fyrir Aðalstein sjálfan, sem er einn frambjóðenda í oddvitavali Viðreisnar, og sendi hann fjölmiðlum niðurstöðurnar. Í skýrslu Maskínu er ekki greint sérstaklega eftir því hverjir eru líklegir til að kjósa Viðreisn í sveitarstjórnarkosningum, heldur einungis meðal almennra íbúa Reykjavíkur sem tóku afstöðu til spurningarinnar.

Könnunin var framkvæmd dagana 9. til 14. janúar 2026 á meðal íbúa Reykjavíkur, 18 ára og eldri. Alls svöruðu 748 manns, en aðeins 260 tóku afstöðu til spurningarinnar sjálfrar. Meirihluti svarenda, eða 56,6 prósent, sagðist ekki vita hver væri best fallinn til að leiða listann og 8,7 prósent vildu ekki svara.
Í skýrslunni kemur fram að gögn hafi verið vegin eftir kyni, aldri og menntun til samræmis við tölur Hagstofunnar.
Samkvæmt sundurliðun eftir búsetu er stuðningur við Aðalstein mestur í Hlíða-, Laugardals-, Háaleitis- og Bústaðahverfum, þar sem 54,3 prósent þeirra sem tóku afstöðu nefna hann, en minnstur í Miðborg og Vesturbæ, þar sem hlutfallið er 48,6 prósent. Björg fær hlutfallslega mestan stuðning í Miðborg og Vesturbæ, eða 39,2 prósent.
Könnunin nær eingöngu til þeirra þriggja frambjóðenda sem höfðu lýst yfir framboði þegar gagna var aflað. Signý Sigurðardóttir tilkynnti um framboð sitt í oddvitakjöri Viðreisnar 16. janúar, tveimur dögum eftir að gagnasöfnun lauk, og er því ekki hluti af könnuninni.















































Athugasemdir