Í einni dæmisögu Esóps segir frá ljóni sem sannfærir hin dýrin um að það sé veikt. Það fær síðan dýrin til að koma með liðsinni til sín í bælið, færandi gjafir svo það gæti haldið styrk sínum.
Refurinn tekur hins vegar eftir því að engin spor liggja til baka úr bæli ljónsins. Ljónið hafði í kænsku sinni sannfært dýrin um að hjálpa sér, en át þau um leið og þau komu færandi hendi.
Pólitískir refir á Íslandi voru hins vegar í vikunni fullvissir um að það væri rétt að Bandaríkin upplifðu slíkt öryggisleysi að það þyrfti að eiga meiri samskipti við þau heldur en þau sem reyndu að rísa upp gegn yfirgangi þeirra, jafnvel þótt þau segðust af hreinskilni ætla að éta nágranna okkar til að ná styrk.
Á sama tíma og Bandaríkjastjórn boðar berum orðum að lögmál heimsins verði hið hráa vald, taka íslenskir stjórnmálamenn að sér að vanda um fyrir þeim sem vara við og leita annarra leiða en að skríða í bælið.
Fyndið fullveldi
Varaformaður Miðflokksins, Snorri Másson, sló tóninn þegar hann sendi yfirlýsingu þess efnis að honum þótti „uppgerðarviðkvæmni og hugmyndafræðilegur ofsi“ að íslenskur þingmaður tæki opinberlega afstöðu gegn gríni verðandi sendiherra Bandaríkjanna um að innlima Ísland og gerast ríkisstjóri, á sama tíma og opinber stefna stjórnar hans var að innlima nágrannaland okkar gegn vilja landsmanna. „Kolröng og raunar eilítið aumkunarverð viðbrögð við gríni,“ sagði Snorri í yfirlýsingunni. Þar útskýrði hann sömuleiðis að hvort sem er væri oft grínast með að Ísland væri ekki fullvalda, enda hefðum við orðið fyrir menningarlegri nýlendustefnu.
„Slík eru áhrifin á flestum sviðum okkar samfélags að sumir hafa leyft sér að líkja Íslandi við Wyoming, fámennasta fylki Bandaríkjanna. Þar er auðvitað ekki síður vísað til hins djúpa og langvarandi samstarfs Íslendinga og Bandaríkjanna á sviði utanríkis- og varnarmála. Í þessu nána sambandi er stundum spurt hvort ekki sé á því bitamunur fremur en fjár, að við höldum velli sem sjálfstæð þjóð í stað þess að gerast bara formlegur hluti heimsveldisins,“ sagði Snorri og tók fram að sem betur fer hefði þessi spurning um fullveldið „aldrei verið annað en grín“, enda kæmi ekki annað til greina en fullt sjálfstæði okkar.
Ísland stendur utan þrefs
Sama dag og Bandaríkjaforseti kvaðst ekki vilja útiloka að beita hervaldi til að taka Grænland, grínuðust þingmenn flokksins hans með því að borða köku með mynd af Grænlandi sveipað bandaríska fánanum. Átið átti sér stað í menningarmiðstöðinni Kennedy Center, sem Trump hefur núna yfirtekið með bandamönnum sínum og nefnt Trump Kennedy Center.
Formaður Miðflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hafði þá gefið út í Morgunblaðsgrein að „Bandaríkin eru ekki við það að gera innrás í Grænland“, þrátt fyrir yfirlýsingar forsetans um að það kæmi til greina ef hann fengi ekki sínu framgengt. Ástæðan væri að „slík innrás nú væri ekki til þess fallin að styrkja forystuhlutverk Bandaríkjanna á alþjóðavísu,“ sagði hann og gaf sér að Trump vildi halda siðferðislegri stöðu og viðhalda NATO, en hann hefur sjálfur sagst í engu bundinn alþjóðalögum, eingöngu eigin siðferði, sem rúmaði þó að ráðast á Grænland. „Þess háttar aðgerð myndi skaða siðferðislega stöðu Bandaríkjanna varanlega og leysa upp NATO,“ úrskurðaði hins vegar Sigmundur Davíð fyrir hans hönd.
Sigmundur gerði síðan lítið úr handtöku bandarísku sérsveitarinnar á forseta Venesúela í forsetabústaðnum, því þar hefði „bandaríski herinn ráðist í stórfenglega aðgerð til að handtaka eftirlýstan mann í öðru landi.“
Hann sagði ekkert nýtt í þessu, enda hefðu Bandaríkin áður beitt áhrifum sínum í Suður-Ameríku. En rétt eins og Bandaríkin segjast ætla að ákveða alþjóðalög, getur forsetinn handstýrt Alríkislögreglunni og dómsmálaráðuneytinu til þess að ákæra hvern sem er utan sinnar lögsögu, í þetta sinn fyrir fíkniefnamisferli og ólöglega vopnaeign.
„Ísland stendur nú sem betur fer utan við þetta þref allt saman“
Áður hafði Sigmundur hvatt Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra á Alþingi til að bjóða Trump til Íslands og veita honum verðlaun.
Sigríður Andersen, þingflokksformaður Miðflokksins, lagði sig fram í Silfrinu á RÚV í vikunni, að normalísera framferði Trumps, sagði að hann væri „óhefðbundinn stjórnmálamaður“, þetta „eigi ekki að þurfa að koma svona mikið á óvart“ og að „Ísland stendur nú sem betur fer utan við þetta þref allt saman“.
Hvers vegna Miðflokksmenn standa ekki fast á prinsippum um virðingu fyrir fullveldi þjóða, á sama tíma og þeir gera út á þjóðrækni og sjálfstæði frá alþjóðasamvinnu, er stóra spurning íslenskra stjórnmála. Það getur legið í hagsmunamati fyrir þjóðina, að henni sé best borgið með því að sækja skjól hjá Bandaríkjunum þrátt fyrir yfirgang og hótanir, eins og músin sem telur sig of litla til að ljónið nenni að éta hana, eða einfaldlega í pólitísku hagsmunamati: Að þeir verði að taka alla þá afstöðu sem vinna gegn málstað þeirra sem vilja að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu til að treysta böndin við lýðræðisþjóðir á tímum hins hráa valds. Þannig hefst aðlögun Íslands að Bandaríkjum Trumps til að forðast aðlögun að Evrópusambandinu.
Raunsæi pólitísks refs
Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti, lagði fram raunsæisálit í sjaldgæfu viðtali í Silfrinu á RÚV, sem snerist í stuttu máli um að Íslendingar þyrftu að leita meira til Bandaríkjanna, eftir bakleiðum, en láta lítið á sér bera og forðast yfirlýsingar.
Hann nefndi meðal annars að leita til „forystumanna í tæknigeiranum“ sem hefðu góð tengsl við Trump, en sá helsti þeirra telst væntanlega vera Elon Musk. Þá vildi hann leita til Heritage Foundation, sem á heiðurinn að Project 2025 sem hefur verið leiðsögn um endursköpun bandarísks samfélags undir Trump.
Í ríkisstjórn Trumps eru ráðherrar eins og fjármálaráðherrann Scott Bessent, sem svaraði því til í vikunni að fjárfestingar Danmerkur í Bandaríkjunum „skiptu ekki máli“ og að Danmörk, sem er 15 sinnum fjölmennari en Ísland, „skipti ekki máli“.
Einn af þeim þremur þingmönnum sem Ólafur Ragnar lagði til að Íslendingar leituðu til er Lindsey Graham. Í gær gaf hann út yfirlýsingu um að hann hefði „aldrei verið stoltari sem íbúi Suður-Karólínu að horfa á það sem hann er að gera til að hjálpa Trump forseta að breyta heiminum.“
Þetta er fólkið sem fyrrverandi forseti okkar vill leita atbeina hjá fyrir íslenska hagsmuni og þessi eru viðhorf þeirra.
Að rækta samband „á mjúkan hátt“
Ólafur Ragnar gaf ekki aðeins til kynna að við ættum að sýna hlutleysi gagnvart framferði Bandaríkjamanna, heldur einnig að við myndum sækja sérstaklega til þeirra umfram Evrópu og „fyrir hvern einn fund sem er tekinn í Brussel þá þurfi að taka tvo fundi í Washington“.
Margir Íslendingar fögnuðu boðskap Ólafs Ragnars og sáu í honum lausn á málunum, að við gætum einfaldlega leitað til Bandaríkjamanna og „ræktað sambandið við Washington“ „á mjúkan hátt“ með því að forðast um leið „að draga athyglina að Íslandi og förum ekki að vekja þá í Washington með þeim hætti að þeir færu allt í einu að horfa á Ísland“.
Jens Garðar Helgason, þingmaður Sjálfstæðisfllokksins, reis þannig upp og kvaðst sammála Ólafi Ragnari um að horfa núna vestur um haf.

Skerum okkur úr hópnum
Á sama tíma og íslenskir hægrimenn teygðu sig í átt að Ameríku, voru lýðræðislegir þjóðarleiðtogar að endurskapa söguna með því að rísa upp gegn Trump í sameiningu. Forsendan er ekki að þeir geti sigrast á Bandaríkjaher, enda gerir Kanada ráð fyrir að tapa slíku stríði á tveimur sólarhringum, heldur að sameinuð muni þau mögulega megna að hindra yfirganginn.
„Við kjósum virðingu fram yfir yfirgangsseggi,“ sagði Emmanúel Macron Frakklandsforseti.
„Vald hinna valdaminni hefst á því að vera heiðarlegur,“ sagði Mark Carney, forsætisráðherra Kanada, í tímamótaræðu, þar sem hann færði rök fyrir því að „bregðast við í sameiningu“.
Öfugt við ráð og tilraunir íslensku stjórnmálamannanna lagði Anders Fogh Rasmussen, fyrrverandi framkvæmdastjóri NATO og danskur hægrimaður, til að hætta smjaðri:
„Við verðum að breyta um stefnu og átta okkur á því að það eina sem Trump virðir er afl, styrkur og eining. Það er nákvæmlega það sem Evrópa ætti að sýna. Tími smjaðursins er liðinn.“
Forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Ursula von der Leyen, lagði til að Evrópa myndi „hverfa frá hefðbundinni varkárni“ til að mæta varanlega breyttum heimi, og bregðast við af einingu, árvekni og ákveðni.
En íslensku stjórnmálamennirnir sem vaxa nú mest í fylgi, vildu fara allt aðra leið. Þeir vildu endurvekja þrælslundina, leggjast forvirkt flatir ótilneyddir, og gera eins og klár, að leita þangað þar sem hann er kvaldastur og hlæja með meinhæðninni.
Veðmálið
Að leita í fang Donalds Trump felur í sér stórt veðmál með fullveldið. Rök hans fyrir því að yfirtaka Grænland gilda nánast öll líka um Ísland. Við getum ekki séð um eigin varnir og við erum á hernaðarlega mikilvægum stað við svokallað GIUK-hlið, sem er kennt við Grænland, Ísland og Bretland.
Stephen Miller, hægri hönd Trumps, sagði í vikunni að Danir ættu ekki rétt á landsvæði sem þeir gætu ekki varið. Það sama gildir um Íslendinga. Við eigum ekki rétt á því að vera með fullveldi, vegna þess að við getum ekki varið landið gegn stærri ríkjum.
Hvað ef niðurstaða Trumps verður, þegar við leitum til hans með hagsmuni okkar og vekjum kannski óvart athygli hans á okkur, að velja hagsmuni Bandaríkjanna, en hunsa okkar réttindi og hagsmuni?
Við skiptum engu máli fyrir þau. En Bandaríkin halda utan um nánast alla stafræna innviði Íslands. Samfélagsmiðlar eru bandarískir og getan til að móta skoðanir Íslendinga og nálgast persónuupplýsingar okkar er fordæmalaus. Bandaríska alríkislögreglan getur hvenær sem er, með heimild dómara, komist í samskiptagögn allra Íslendinga.
Hlutleysi á tímum siðferðiskrísu
Ef við leggjumst undir vald Bandaríkjanna, á þeim forsendum sem Bandaríkjastjórn gefur upp núna, er ekki líklegt að við fáum meiri tryggingu fyrir því að við höldum réttindum okkar, fullveldi og lýðræði. Það mun alfarið velta á því sem hann ákveður að sé siðferði hans og hagsmunir, eða eftirmenn hans.
Ein af eftirlætistilvitnunum Johns F. Kennedy, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, sem Kennedy Center er kennd við, er umorðun á boðskap ítalska skáldsins og hugsuðarins Dantes Alighieri í verki hans, Inferno:
„Heitasti hluti helvítis er frátekinn fyrir þá sem viðhalda hlutleysi sínu á tímum siðferðislegrar krísu.“
En þetta snýst ekki bara um hugsjónir, siðferðið eða að gera hið rétta, sem við getum ekki fyllilega áorkað vegna smæðar. Þetta snýst um að hagsmunir okkar fara saman með meðalstórum ríkjum og smáum sem vilja viðhalda fullveldi sínu andspænis yfirgangi, í krafti einingar.
Það var þarna sem sjálfstæðisbarátta Íslands átti sér stað. Spurningin sem mun lifa í íslenskum stjórnmálum er: Hvað gerðu þau þegar fullveldinu var ógnað?























































Ég stórundrast hugarfar þeirra sem aðhillast Miðflokkinn, svo ég tali nú ekki um fyrrverandi forseta lýðveldisins... þennan á myndinni👺👹🤬