Greinarhöfundur tilkynnti um framboð sitt á lista Samfylkingarinnar fyrir komandi borgarstjórnarkosningar með færslu á Facebook þann 8. desember sl. Nokkrir deildu færslunni þar með talið einn maður sem frambjóðandi þekkir ekki til persónulega.
Fyrsta athugasemdin sem kom á færslu hans var frá karlmanni sem skrifaði eftirfarandi:
„Woke er ekki það sem Samfylkingin þarf. Ég held að þetta verði slæmt fyrir Samfylkinguna í vor.“ Sá sem deildi færslunni maldaði aðeins í móinn en svo kom færsla frá öðrum karlmanni sem sagði: „Ekkert um öfga Trans & Hinsegin forréttinda fólk?“ Þá svaraði hinn til baka: „Þessi er held ég með öll aðalatriði woke-sins í sínu vopnabúri.“ Síðar sagði einn: „Veit hún hvað kynin eru mörg? IQ spurning.“
Hvað merkir ofangreint? Það getur verið erfitt að svara svona málflutningi enda mismunandi hvað fólk meinar með orðinu „Woke“. Nokkur umræða hefur verið hérlendis um merkingu orðsins sbr. umfjöllun í Nútímanum og Heimildinni. Þetta hugtak hefur verið vel þýtt á íslensku sem „Vekni“ sbr. að vera árvökull eða vakandi gagnvart umhverfi sínu. Aðgát skal höfð í nærveru sálar. Í umræddri athugasemd er hins vegar orðið „Woke“ líkast til nýtt í þeim pólitíska tilgangi að „slaufa“ mér sem frambjóðanda. Mínar áherslur þykja bera vott um „ofursækni í pólitíska rétthugsun (political correctness), eða „öfga-wokeness“ þar sem fólk er talið ganga of langt í að leiðrétta aðra eða setja strangar félagslegar reglur“ svo vísað sé beint í umfjöllun Nútímans um merkingu orðsins.
En hvað er beinlínis átt við með „ásökuninni“ að vera Woke?
Frelsisregla John Stuart Mill
Ég aðhyllist það sem hefur verið nefnt Frelsisreglan. Hún var sett var fram af heimspekingnum John Stuart Mill í tímamótabók hans sem ber titillinn Frelsið. Reglan liggur til grundvallar lýðræðislegri stjórnskipan og almennu umburðarlyndi sem þó er takmörkunum háð. Frelsisreglan kveður á um að hver og einn einstaklingur beri aðeins ábyrgð gagnvart samfélaginu á þeim athöfnum einum sem skaði hagsmuni annarra. Ekki þeim sem varða eingöngu hann sjálfan. Því er hvorki ríkinu né öðru fólki heimilt að skerða athafnafrelsi einstaklingsins nema í sjálfsvörn. Það er ekki eingöngu ríkisvaldið sem hann beinir orðum sínum að heldur einnig það sem hann nefnir alræði meirihlutans. Hin þögla skoðanakúgun sem leitast við að steypa alla í sama mót og heftir þannig þroska einstaklingsins. Það sé samfélaginu nauðsynlegt að einstaklingar innan þess geti búið við frelsi hugsana, orða og athafna sem eingöngu skulu takmarkaðar af mögulegum skaða fyrir aðra. Hatursorðræða t.a.m. meiðir augljóslega aðra. John Stuart Mill telur sem sagt lykilatriði að einstaklingar geti fengið tækifæri til að þroskast í fjölbreytileika sínum.
Frelsi til að hafa val um hver maður vill vera
Frelsisreglan á jafn vel við í dag og árið 1859 þegar hún kom fram, ekki síst í samhengi við umræðuna um réttindi transfólks. Sumir einstaklingar upplifa að þau séu fædd í röngum líkama. Einstaklingur sem fæðist í karlmannslíkama upplifir sig sem konu og einstaklingur sem fæðist í kvenlíkama upplifir sig sem karl. Sum fara í kjölfarið í gegnum svokallað kynstaðfestandi aðgerðir til að breyta líkama sínum svo hann falli að kynvitund þeirra sem karl eða kona. Önnur gera það ekki en breyta mögulega nafni sínu, persónufornafni og klæðaburði til að staðfesta kynvitund sína. Frelsi fólks til að lifa lífinu í samræmi við eigin kynvitund skaðar engan.
Þá eru þau sem upplifa sig hvorki sem karl né kona eða bæði sem karl og kona eða skilgreina einfaldlega ekki kyn sitt. Sú upplifun að vera kynsegin miðast við kynvitund en ekki líffræðileg kyneinkenni. Nafnorðið kvár og persónufornafnið hán er notað af kynsegin fólki í samræmi við upplifun þeirra sem persóna sem eru bæði og, hvorki né eða utan skilgreininga. Frelsi fólks til að skilgreina sig sem kvár og nota persónufornafnið hán skaðar engan.
Umræðan um kynin og trans fólk – mótsagnakenndur stormur í vatnsglasi
Það leiðir að umræðunni um kynin og hvort þau séu eingöngu tvö eins og varaformaður Miðflokksins heldur fram: „Snorri Másson, þingmaður Miðflokksins, segist ekki trúa því að fólk geti skipt um kyn og kveðst aðeins kannast við tvö kyn.“ Á sama tíma segist hann vera „umburðarlyndur gagnvart öllum og því hvernig fólk kjósi að lifa lífi sínu.“ Það vekur í fyrsta lagi athygli hversu mikið trú hans í stað staðreynda vegur þungt. Fólk talar reyndar ekki um að skipta um kyn sitt heldur staðfesta það í samræmi við kynvitund eins og fyrr segir. Í öðru lagi vekur það athygli hversu afdráttarlaust hann gefur í skyn velvild og skilning í garð trans fólks í anda frelsisreglunnar. En hvað er þá málið? Til hvers er leikurinn gerður? Lýðskrum til þess fallið að rugla fólk í ríminu, kljúfa, útiloka, valda fjandskap og afla atkvæða? Hver sem tilgangurinn er þá er umræðan skaðleg fyrir trans fólk þrátt fyrir að vera ekkert annað en andvana stormur í vatnsglasi.
Staðreyndir
En eru kynin eingöngu tvö? Vísindavefur Háskóla Íslands kveður á um eftirfarandi: „Stutta svarið við spurningunni er nei. Fjölbreytileiki er mikill í stofni manna og annarra dýra. Eðlilegast er að hugsa um fjölbreytt róf kyntengdra einkenna, frekar en tvö aðgreind kyn.“
Á sama tíma er mögulegt er að svara því til að kynin séu eingöngu tvö ef út í það er farið.
T.a.m. merkir sú staðreynd að trans fólk upplifi að það sé í röngum líkama miðað við sína kynvitund ekki endilega að kynin séu fleiri en tvö heldur að náttúran sé flókið og fjölbreytt fyrirbrigði. Að vera intersex merkir t.a.m að einstaklingur er búinn líkamlegum einkennum sem liggja á milli staðlaðra hugmynda um karl- og kvenkyn. Þessir einstaklingar fæðast með einkenni sem eru ekki algjörlega karl- eða kvenkyns; eru sambland af karl- og kvenkyns; eða eru hvorki karl- né kvenkyns. Enginn er hins vegar, í sjálfu sér, að tala um eitthvað annað en karl- og kvenkyn.
Það að vera kynsegin merkir að sama skapi ekki að kynin séu orðin fleiri en tvö. Öllu heldur er verið að hafna hinni svokölluðu kynjatvíhyggju sem er afleidd af hinum líffræðilega karl- og kvenkyni. Afturhalds- og íhaldsöm kynjatvíhyggja hefur alið á þeirri hugmynd að ákveðnir mannlegir eiginleikar séu annað hvort konum eða körlum eðlislægir. Sem dæmi séu karlar einfaldlega best til þess fallnir að sinna ákveðnum störfum, ekki síst opinberum embættum enda kalli þau á eiginleika eins og skynsemi og rökhyggju sem sé körlum algjörlega eðlislæg. Konum séu veiklundaðri, meiri tilfinningaverur og þar með langbest til þess fallnar að vera heima að hugsa um bú og börn í samræmi við þá móðurlegu eðlishvöt að sýna öðrum umhyggju og blíðu. Þannig hefur verið alið á mismunandi væntingum og kröfum til karla og kvenna þar sem m.a. er gert ráð fyrir að konur séu góðar húsmæður og karlar flottar fyrirvinnur en helst ekki ekki öfugt. Frekar eigi að mennta drengi en stúlkur.
Kynjatvíhyggunni hafnað
„Konan vill ekki lengur vera á bak við eldavélina og fyrst karlmennirnir eru teknir við þeim verkum þarf framkvæmdin að vera einföld,“ sagði Guðni Ágústsson fyrrum landbúnaðarráðherra árið 2005 við opnun nýrrar flæðieldunarlínu Matfugls sem gerði fyrirtækinu kleift að fullelda kjúklingabita fyrir pökkun.
Hin óbilgjarna kynjatvíhyggja, sem hefur haldið bæði konum og körlum í gíslingu staðalmynda og ójafnréttis, er nú almennt hafnað enda eru eiginleikar bæði kvenna og karla einfaldlega mannlegir eiginleikar sem einstaklingar búa yfir mismiklu mæli og öll geta jafnframt hlúð að sbr. ákveðni og umhyggjusemi.
Sú höfnun gerðist hins vegar ekki af sjálfu sér. Þvert á mót. Barátta kvenréttinda- og frelsissinna um allan heim hefur alla tíð haft það meginmarkmið að losna úr fjötrum kynjatvíhyggjunnar og þess sem hefur verið skilgreint sem feðraveldi. Hugtakið vísar í þá sögulegu staðreynd að karlar, feður og synir hafa almennt farið með völdin í samfélaginu. Þeir séu enda að eigin trú langt um betur til þess fallnir að vera í öndvegi. Konur, mæður og dætur voru bestar utangátta, eða öllu heldur innangátta. Völd karla hafa gegnum tíðina s.s. í gegnum trúarbrögð og stjórnskipun því miður verið misnotuð til að halda konum niðri. Feðraveldið gerir jafnframt harðar kröfur á karla sem eru ekki öllum strákum að skapi sbr. það að vera ávallt sterkir, sýna ekki viðkvæmni, vera harðir í horn að taka, takmarka elskulegheit og vera aldeilis framúrskarandi fyrirvinnur.
Kynjatvíhyggja feðraveldisins hefur þannig ýtt undir það sem er skilgreint sem „skaðleg karlmennska“ harðræðis og yfirgangs sem hefur í kjölfarið alið af sér fyrirbrigði sem kalla má „skaðlega kvenmennsku“. Hið síðarnefnda felur í sér að ákveðnir eiginleikar í fari kvenna hafa verið mærðir eins og það að „vera næs, alltaf tilkippileg, gera til geðs og vera ekki með leiðindi“. Þessi tilhneiging hefur oft komið í veg fyrir að konur hafi gætt að eigin þörfum, réttar síns og fjárhagslegra hagsmuna sem skyldi í samböndum við ráðandi karlmenn. Það þótti nefnilega ekki kvenlegt að standa fast á sínu og sínum rétti.
Ávinningur jafnréttisbaráttunar
Jafnréttisbaráttan hefur á margvíslegan hátt skilað miklum ávinningi og það ekki eingöngu fyrir konur heldur einnig karlmenn. Feður njóta núna fæðingarorlofs bæði hérlendis sem og annars staðar á Norðurlöndunum til jafns á við konur. Þeir hafa fengið tækifæri til að sýna að þeir séu þess fullfærir að hugsa um börn enda um mannlega færni að ræða óháða kyni eins og Hjallastefnan í leikskólamálum hefur rækilega undirstrikað. Að sama skapi er fólk óháð kyni misjafnlega hæft til að sinna foreldrahlutverkinu enda höfum við öll misjafnt andlegt og tilfinningalegt atgervi sem einstaklingar. Sum hafa það meira í sér en önnur að vera umhyggjusöm, hugrökk, ákveðin, mjúk, blíðlynd, skapandi og þar fram eftir götunum.
Jafnréttisbarátta gegn mismunun og ófrelsi – ekki körlum
Það eru ekki síst barátta transfólks sem hefur undirstrikað það að barátta kvenréttinda- og frelsissinna er ekki beint gagngert að körlum heldur gegn mismunun og ófrelsi. Það er m.a. vegna þess að þegar einstaklingur fæddur í líkama karlmanns fer í aðgerð til að staðfesta kyn sitt í samræmi við kynvitund sína sem kona þá merkir það ekki að viðkomandi sé að fara að gangast við því að missa réttindi. Vera beitt misrétti sem kona. Þvert á móti. Það sættir sig engin við réttindamissi eða aukið misrétti í kjölfarið en transkonur hafa gert það að umtalsefni sínu hvernig framkoma gagnvart þeim breyttist því miður til hins verra eftir að þær staðfestu kyn sitt. Það var ekki lengur hlustað á þær eins og áður og fleira mætti nefna.
Af þessum sökum fer kvenréttindabaráttan og barátta hinsegin samfélagsins og ekki síst transkvenna fyrir mannréttindum vel heim og saman enda er markmiðið það sama:
Full virðing fyrir mannréttindum og frelsi fólks óháð kyni, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu.
Ef þetta baráttumarkmið mennsku og mannlegrar tilveru er „Woke“ þá mun ég ávallt glöð og fagnandi „Woke“ vera.
Höfundur gefur kost á sér í 2.-4 sæti á lista Samfylkingarinnar fyrir komandi borgarstjórnarkosningar. Forvalið fer fram 24. janúar.

















































Athugasemdir