Miðflokkurinn mælist með yfir 22,2 prósenta fylgi og flug Samfylkingarinnar lækkar, í nýrri könnun Maskínu. Fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist nú 13,5 prósent og hefur flokkurinn aðeins einu sinni mælst lægri í könnunum fyrirtækisins. Það var í september árið 2024, þegar hann mældist með 13,4 prósent.
Greint var frá niðurstöðunum í hádegisfréttum Bylgjunnar. Þar kom fram að Viðreisn mældist með 14,1 prósent fylgi og mælist því stærri en Sjálfstæðisflokkurinn. Samfylking mælist með 27 prósent en Flokkur fólksins með 4,3 prósent.
Það þýðir að flokkurinn næði ekki yfir 5 prósenta markið sem tryggði honum jöfnunarsæti á þingi og þyrfti því að treysta á að ná inn kjördæmakjörnum þingmanni, til að þurrkast ekki út.
Framsóknarflokkur mælist með 7,1 prósent, sem er litlu meira en flokkurinn hefur gert í síðustu könnunum. Sósíalistar, Píratar og Vinstri græn mælast enn utan þings, en Sósíalistar og Píratar mælast bæði með 4,1 prósenta fylgi og Vinstri græn með 3,7 prósent.















































Athugasemdir