Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, kallar Sigmar Guðmundsson, þingmann Viðreisnar, „mannfjanda“ í viðbrögðum hans við færslu þar sem Sigmar gerir lítið úr fyrrverandi stjórnmálamönnum með áherslu á samband við Bandaríkin.
Eftir viðtal í Silfrinu á RÚV við Ólaf Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseta Íslands, sem lagði til að íslenska utanríkisþjónustan fundaði tvisvar í Washington fyrir hvern fund í Brussel, sagði Sigmar:
„Það er talsvert framboð af öldnum höfðingjum sem horfa vestur um haf með aðdáun. Þeir eru sem betur fer allir fyrrverandi hitt og þetta.“
Í viðtalinu í Silfrinu hrósaði Ólafur Ragnar sérstaklega Össuri Skarphéðinssyni, sem er fyrrverandi utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, og sagði hann hafa unnið „merkasta plagg sem skrifað hefur verið á Vesturlöndum á síðari árum um samstarf við Grænland“, í skýrslu sem skilað var til Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra fyrir fimm árum. Ólafur Ragnar kvaðst svo sammála mati Össurar um að Ísland væri í ágætri stöðu, þrátt fyrir að Bandaríkin virtu ekki lengur fullveldi þegar kemur að næsta nágrannaríki.
Sami Össur reiddist Sigmari og sakaði hann um aldursfordóma gagnvart Ólafi Ragnari og hugsanlega fleirum, en Ólafur Ragnar er 82 ára, Össur 72 ára og Sigmar 56 ára.
„Kanntu ekki mannasiði, mannfjandi?! Ég og þú kunnum að vera annarrar skoðunar en Ólafur Ragnar Grímsson á Evrópusambandinu en skoðanir hans á því, Bandaríkjunum og eftir atvikum öðrum stórveldum, eru fullrar virðingar verðar, og þú eða þið í Viðreisn vinnið enga slagi, allra síst um Evrópu, með því að tala niður til fólks,“ sagði Össur. Hann vitnaði síðan til færslu Björns Inga Hrafnssonar, aðstoðarmanns Sigmunds Davíð Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, um gagnrýni Ólafs Ragnars á utanríkisstefnu ríkisstjórnar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Flokks fólksins, þar sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, er utanríkisráðherra.
„Utanríkisstefna Viðreisnar fékk falleinkunn hjá ÓRG í Silfrinu í kvöld, hann pakkaði því nokkuð snyrtilega saman. Viðbrögðin við þeim skelli eru fremur súr,“ sagði Björn Ingi á X. Undir þetta virðist Össur taka.
„Björn Ingi las orð hans úr Silfrinu um aðferðafræði hárrétt, og margir fleiri eru sömu skoðunar, bara svo þú vitir það. Fyrir hönd allra „aldraðra höfðingja“ og „fyrrverandi" segi ég bara: Betur að Viðreisn hefði einhverja slíka í sínum röðum. Eitt er að klúðra niður fylginu en mér sýnist að þið séuð á sömu leið með Evrópumálin. Sparaðu þér svo aldursfordóma næst þegar þú sest við skjáinn, sem þú út af fyrir sig mættir alveg sleppa.“
Ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna, sem Össur sat í sem utanríkisráðherra, sótti um aðild að Evrópusambandinu 17. júlí 2009, sem dregin var til baka af næstu ríkisstjórn.
Í þetta sinn ætlar ríkisstjórnin sér að halda þjóðaratkvæðagreiðslu áður en sótt verður um aðild, og er hún fyrirhuguð vorið 2027.

















































Athugasemdir