M
ótmæli hafa staðið yfir í meira en tvær vikur og eru þau ein alvarlegasta ógn við klerkastjórn Írans í mörg ár, bæði hvað varðar umfang og eðli. Þó er of snemmt að spá fyrir um yfirvofandi fall íslamska lýðveldisins að sögn sérfræðinga.
Mótmælin þróuðust úr því að vera af efnahagslegum toga yfir í kröfur um allsherjarbreytingu á klerkakerfinu sem hefur verið við stjórnvölinn í Íran frá byltingunni 1979 þegar Íranskeisara var steypt af stóli.
Yfirvöld hafa beitt harðræði sem, að sögn mannréttindasamtaka, hefur leitt til dauða hundruða manna á meðan stjórn æðsta leiðtogans Ayatollah Ali Khamenei, sem nú er 86 ára, hefur enn valdið í höndum sér.
„Þessi mótmæli eru að öllum líkindum alvarlegasta ógnin við íslamska lýðveldið í mörg ár, bæði hvað varðar umfang og sífellt skýrari pólitískar kröfur,“ sagði Nicole Grajewski, prófessor við Sciences Po Centre for International Studies í París, í samtali við AFP.
Hún taldi óljóst hvort mótmælin myndu steypa stjórninni af stóli og benti á „hversu djúpt og seigt kúgunarkerfi Írans er.“
Írönsk yfirvöld hafa boðað til eigin gagnmótmæla og mættu þúsundir á þau í gær.
Thomas Juneau, prófessor við Háskólann í Ottawa, sagði: „Á þessum tímapunkti met ég það enn ekki svo að fall stjórnarinnar sé yfirvofandi. Aftur á móti er ég óvissari um það mat en áður.“
Að mati sérfræðinga munu eftirfarandi þættir ráða því hvort leiðtogar íslamska lýðveldisins haldi völdum:
1. Viðvarandi mótmæli
Lykilþáttur er „einfaldlega stærð mótmælanna; þau fara vaxandi en hafa ekki náð þeim fjölda sem myndi marka þáttaskil,“ sagði Juneau.
Mótmælahreyfingin hófst með verkföllum á basarnum í Teheran þann 28. desember sem þróuðust út í fjöldamótmæli í höfuðborginni og öðrum borgum frá fimmtudeginum síðastliðnum.
Síðustu stóru mótmælin í Íran voru árin 2022–2023. Þau urðu í kjölfar dauða ungu konunnar Mahsa Amini sem hafði verið drepin í haldi lögreglu fyrir að brjóta klæðareglur kvenna. Þá fóru árið 2009 fram fjöldamótmæli eftir umdeildar kosningar.
Yfirvöld hafa nú lokað fyrir netaðgengi í nokkra daga sem gerir fólki erfiðara fyrir að meta umfang yfirstandandi mótmæla þar sem færri myndbönd hafa ratað á netmiðla.
Arash Azizi, fyrirlesari við Yale-háskóla, sagði að „mótmælendur þurfi enn að kljást við að hafa ekki varanleg, skipulögð tengslanet sem geta barist gegn kúguninni.“
Hann sagði að einn möguleiki væri að „skipuleggja verkföll í mikilvægum atvinnugreinum“ en það krefðist forystu sem enn væri ekki til staðar.
2. Samheldin elíta
Þótt ástandið á götum úti sé afar mikilvægt segja sérfræðingar litlar líkur á breytingum án þess að sprungur myndist innan forystunnar og liðhlaup eigi sér stað innan öryggissveita.
Hingað til hafa engin ummerki verið um slíkt þar sem allar stoðir íslamska lýðveldisins, frá þinginu til forsetans og byltingarvarðaliðsins (IRGC), hafa fylkt sér á bak við Khamenei.
„Eins og staðan er núna eru engin skýr merki um liðhlaup í hernum eða klofning meðal háttsettra í elítu stjórnarinnar. Sögulega séð hefur þetta verið mikilvæg vísbending um hvort mótmælahreyfing geti leitt til falls stjórnarinnar,“ sagði Grajewski frá Sciences Po.
Jason Brodsky hjá bandarísku samtökunum United Against Nuclear Iran sagði mótmælin „söguleg“ en bætti við að nokkur mismunandi atriði þyrfti til að fella stjórnina. Þar á meðal „liðhlaup í öryggissveitunum og sprungur í pólitískri elítu íslamska lýðveldisins.“
3. Hernaðaríhlutun Ísraels eða Bandaríkjanna
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sem hefur hótað hernaðarlegum hefndaraðgerðum vegna harðræðisins, tilkynnti á mánudag 25 prósenta tolla gegn viðskiptalöndum Írans.
Hvíta húsið sagði að Trump forgangsraðaði diplómatískum aðgerðum en hefði ekki útilokað árásir. Bandaríkin tóku stuttlega þátt í 12 daga stríði Ísraels gegn Íran í júní í fyrra.
Það stríð leiddi til dauða nokkurra háttsettra íranskra öryggisfulltrúa, neyddi Khamenei til að fara í felur og afhjúpaði hversu djúpt leyniþjónusta Ísraels hafði seilst inn í íslamska lýðveldið.
Bandarískar árásir myndu gjörbreyta ástandinu að sögn sérfræðinga.
Íranska utanríkisráðuneytið sagði á mánudag að það hefði opnar samskiptaleiðir við Washington þrátt fyrir skort á stjórnmálasambandi.
„Bein hernaðaríhlutun Bandaríkjanna myndi gjörbreyta framvindu kreppunnar,“ sagði Grajewski.
Juneau bætti við: „Stjórnin er viðkvæmari en hún hefur verið, bæði innanlands og landfræðilega, síðan á verstu árum Íran-Írak stríðsins“ sem stóð frá 1980–1988.
4. Skipulögð andstaða
Reza Pahlavi, sonur keisarans sem steypt var af stóli og býr nú í Bandaríkjunum, hefur gegnt stóru hlutverki í að hvetja til mótmæla og slagorð sem styðja konungsveldið hafa verið áberandi.
En þar sem engin raunveruleg pólitísk andstaða er eftir innan Írans er samfélag útlaga enn verulega klofið milli pólitískra fylkinga sem eru þekktar fyrir að berjast jafn mikið innbyrðis og gegn íslamska lýðveldinu.
„Það þarf að vera forystubandalag sem raunverulega táknar breiðan hóp Írana en ekki bara eina pólitíska fylkingu,“ sagði Azizi.
5. Heilsa Khameneis
Khamenei hefur nú verið við völd síðan 1989 þegar hann varð æðsti leiðtogi, embætti sem hann á að gegna til lífstíðar, eftir dauða Ruhollah Khomeini, stofnanda byltingarinnar.
Hann lifði af stríðið við Ísrael og kom fram opinberlega á föstudag til að fordæma mótmælin með ögrandi hætti.
Óvissa hefur lengi ríkt um hver gæti tekið við af honum en meðal möguleika eru annars vegar dularfullur en valdamikill sonur hans, Mojtaba, eða hins vegar að valdið verði fært til nefndar frekar en einstaklings.
Atburðarás af þeim toga, milli óbreytts ástands og algerrar breytingar, gæti leitt til „meira og minna formlegrar yfirtöku byltingarvarðanna,“ sagði Juneau.













































Athugasemdir