Hvað er skynsamlegt hlutverk ríkisins í þróun atvinnuveganna?
-
Ríkisvaldið skapi almennt góð skilyrði fyrir vöxt og viðgang atvinnulífsins og komi í veg fyrir með gjöldum og reglum að atvinnustarfsemi valdi skaða á umhverfi og mannlífi.
-
Ríkisvaldið setji í forgang tilteknar greinar atvinnustarfsemi; skilgreini þær sérlega mikilvægar og veiti þeim forgang og fyrirgreiðslu með sértækum hætti og líti fram hjá neikvæðum afleiðingum þeirra á náttúru og umhverfi. Takmörkuðu fjármagni, vinnuafli og aðgangi að auðlindum er þar með beint að útvaldri atvinnustarfsemi og öðrum valkostum þar með settar þrengri skorður.
Í drögum að atvinnustefnu sem birtist í samráðsgátt síðla árs 2025 virðist seinni leiðin vera ráðandi. Þar eru orkufrekur iðnaður, lagareldi og gagnaver í sérstöku uppáhaldi.
Sé litið í spegil hagsögunnar má sjá að lítil og meðalstór fyrirtæki sem spretta fram af hugviti og dugnaði við hagfelld skilyrði hafa löngum reynst vel sem stoðir í efnahagsþróun landsins. Fyrirtæki sem þannig urðu til eru hryggjarstykkið í íslensku efnahagslífi í dag. Ákvarðanir stjórnvalda um áherslur á sérstakar atvinnugreinar hafa hins vegar reynst misjafnlega. Er ekki skynsamlegra að halda sig við það sem betur hefur reynst?
Ef stjórnvöld hyggjast hampa tilteknum atvinnugreinum verður að krefja þau um skýringar á hvers vegna einmitt þær atvinnugreina séu í hávegum hafðar umfram aðrar. Jafnframt verður að gera þá kröfu að greint sé frá þeim neikvæðu áhrifum sem þær sömu atvinnugreinar kunna að hafa á umhverfi og náttúru landsins, og möguleika annarra atvinnugreina að vaxa og dafna.
Í fyrrnefndum atvinnustefnudrögum er orkufrekum iðnaði hampað vegna framlags til útflutningstekna. Litið fram hjá að umtalsverður hluti af þeim gjaldeyristekjum sem skapast við útflutning þessa geira fer í að kaupa erlend aðföng til framleiðslunnar. Reynslan sýnir einnig að lánveitingar erlendra móðurfyrirtækja til dótturfyrirtækja stýra afkomu og skattaskilum á Íslandi. Þá er algjörlega litið fram hjá því að óhjákvæmilegur fylgifiskur orkufrekra fyrirtækja eru fleiri stór raforkuver. Til framleiðslu á raforku til stóriðju hefur nú þegar miklu verið fórnað af unaði íslenskrar náttúru og víðernum. Sú fórn kemur ekki fram í þjóðhagsreikningum. Þessi fórn gengur undir heitinu „ytri kostnaður“. Stofnanir eins og OECD og IMF hafa bent á að Íslendingar þurfi nú að huga betur að þessum þætti þegar teknar eru ákvarðanir um frekari öflun raforku til orkufrekrar framleiðslu. Atvinnustefnu sem ekki fjallar um þennan þátt málsins er ótæk.
Lagareldi er atvinnugrein sem hefur verið rekin með umtalsverðu tapi undanfarin ár. Til viðbótar við það fjárhagslega tap er tjónið vegna náttúru- og umhverfisspjalla sem sjókvíaeldi óneitanlega valdur. Við það bætist álag á vegakerfi landsins vegna flutninga á afurðum lagareldis og hefur skapað mikla viðhaldsþörf á vegum á nokkrum stöðum á landinu. Lagareldi virðistþví alls ekki vera atvinnugrein sem tilefni er til að gera sérstaklega hátt undir höfði í atvinnustefnu.
Í drögum að atvinnustefnu er því haldið fram að gagnaver séu „háframleiðnigrein“ sem er tilgreint sem sérstakt gæðamerki fyrir atvinnustarfsemi. Engin rök eru færð fyrir þeirri fullyrðingu. Í nýlegri blaðgrein um reynslu Dana af gagnaverum segir að reynsla Dana sé sú að starfsemi gagnavera færi Danmörku engan ávinning. Sá ábati sem danskt samfélag átti að njóta hafi reynst innantóm loforð, án efnda. Skv. glænýrri orkuspá munu 2 TWst fara í gagnaver árið 2050 skv. lágspá, en tæplega 6 TWst skv. háspá. Hærri talan er tæplega þriðjungur þeirrar raforku sem er til skiptanna í dag. Óskynsamlegt er að fórna náttúru landsins frekari en orðið er til að skaffa raforku í gagnaver sem skila litlum ávinningi til samfélagsins.
Ekki er hægt að taka stjórnvöld alvarlega í mótun stefnu fyrir atvinnulíf ef þau hampa útvöldum atvinnugreinum án þess að taka með í reikninginn ytri kostnað sem og áhrif þess á uppbyggingu og rekstur atvinnugreina sem ekki eru í uppáhaldi. Stjórnvöld sem móta atvinnustefnu án þess að ígrunda beinan og óbeinan samfélags- og umhverfiskostnað eru á villigötum. Slíkt hugsunarleysi við stefnumörkun er ávísun á vanda sem komandi kynslóðir verða síðar að takast á við. Allt tal um sjálfbærni er markleysa ef ekki er litið til allra hliða sjálfbærni; efnahagslegra, samfélagslegra og umhverfislegra. Sem betur fer er enn tími til að rétta kúrsinn.
Höfundur er lífsreyndur auðlindahagfræðingur og náttúruverndarsinni.
















































Athugasemdir (1)