„Að vandlega ígrunduðu máli hef ég ákveðið að segja af mér embætti mennta- og barnamálaráðherra vegna veikinda,“ segir Guðmundur Ingi Kristinsson í tilkynningu. Hann undirgekkst hjartaaðgerð fyrir skömmu og er nú í endurhæfingu eftir hana.
Guðmundur segir í tilkynningunni, sem hann birtir á Facebook, að það hafi verið heiður að gegna embætti mennta- og barnamálaráðherra. „Ég styð ríkisstjórnina heilshugar í þeim góðu verkefnum sem fram undan eru á næstu misserum,“ segir hann í annars stuttri yfirlýsingu.
Í tilkynningunni segist hann ætla að einbeita sér að því að ná bata og svo snúa aftur sem óbreyttur þingmaður í þinglið Flokks fólksins, „þegar heilsa leyfir“.
Guðmundur Ingi er annar þingmaður Flokks fólksins til að segja af sér þessu tiltekna ráðherraembætti. Sjálfur tók hann við embættinu þegar Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingkona flokksins, sagði af sér í kjölfar fréttaflutnings RÚV af því að hún hafi eignast barn með táningi sem hún hafði kynnst í kristnum söfnuðu sem þau tilheyrðu þegar hún var sjálf 22 ára, og af viðbrögðum hennar við því að amma barnsins vildi eiga fund með forsætisráðherra til að upplýsa hana um málið.
Óvíst er hver tekur við embættinu en Inga Sæland, formaður Flokks fólksins og félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur synnt því í fjarveru Guðmundar Inga. Hún hefur líka sinnt embætti innviðaráðherra í feðraorlofi Eyjólfs Ármannssonar.

Pískrað hafði verið um að kynna ætti breytta ráðherraskipan Flokks fólksins á ríkisstjórnarfundi á morgun. Óljóst var þó hvort til stæði að skipta Guðmundi Inga út tímabundið eða varanlega. Hann hefur nú sjálfur tilkynnt um varanlegt brotthvarf sitt úr ráðuneytinu. Inga hefur hins vegar ekkert viljað gefa uppi um hver stígur inn í ríkisstjórn í hans stað.
Auk ráðherranna núverandi og fyrrverandi eru í þingliði flokksins þau Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, fyrrverandi borgarftullrúi, Lilja Rafney Magnúsdóttir, sem er jafnframt varaformaður þingflokksins, Ragnar Þór Ingólfsson, formaður þingflokksins og fyrrverandi formaður VR, Sigurður Helgi Pálmason og Sigurjón Þórðarson.
Ingu er líka frjálst að leita út fyrir þingflokkinn eftir ráðherra, líkt og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar og utanríkisráðherra, þegar hún gerði Daði Már Kristófersson, varaformann Viðreisnar, að fjármálaráðherra utan þings.















































Athugasemdir