Árið 1955 fannst leikkonunni Marilyn Monroe hún hjakka í sama farinu. Hún var 29 ára og naut vinsælda sem gamanleikkona en vildi alvarlegri hlutverk. Hún skráði sig í leiklistarnám og við árslok samdi hún lista um það hvernig hún hygðist gera 1956 að árinu sínu:
- Vera dugleg að gera ...
- Alltaf að mæta í tíma
- Vinna mikið ...
- Horfa í kringum mig ...
- Vera duglegri að vinna í vandamálum mínum og fóbíum ...
- Ef mögulegt: Taka háskólakúrs í bókmenntum
- Huga að verkfærinu mínu – persónu og líkama (hreyfing)
- Reyna að skemmta mér þegar ég get – nóg á ég eftir að vera vansæl
Sjötíu árum eftir að Marilyn Monroe hóf nýtt ár með lista, leggjum við mörg drög að því hvernig við megum gera árið 2026 að okkar.
Missti trú á ástinni
Gjarnan er sagt að „lífið sé það sem kemur fyrir mann á meðan maður er upptekinn við að gera önnur plön“.
Sviplegt andlát bandaríska leikstjórans Rob Reiner og eiginkonu hans, Michele Singer Reiner, við lok árs vakti óhug, en þau fundust látin á heimili sínu í desember eftir stunguárás.
Rob og Michele kynntust við gerð rómantísku gamanmyndarinnar When Harry Met Sally. Hugmyndin að kvikmyndinni spratt upp úr skilnaði Robs.
Rob hafði misst trú á ástinni. Í upphaflegu handriti myndarinnar náðu Harry og Sally ekki saman. Áform um nöturleg endalok runnu hins vegar út í sandinn þegar Rob hitti Michele á tökustað. Rob varð yfir sig ástfanginn og sannfærði handritshöfund myndarinnar, Noru Ephron, um að breyta endi myndarinnar svo að því lyki með hjónabandi.
Það sem gefur lífinu þýðingu
Hvernig ætlar þú að gera árið 2026 að árinu þínu?
- Skrá þig á námskeið?
- Lesa fleiri bækur?
- Hreyfa þig?
Í ár er hálf öld liðin frá andláti þýska heimspekingsins Martins Heidegger. Heidegger sagði dauðann gefa lífinu þýðingu. Taldi hann okkur aðeins lifa til fulls þegar við værum meðvituð um endanleikann. Ekki þó með því að gera meira heldur þvert á móti gera minna. Því hver einasta athöfn væri í senn staðfesting og fórn; hver einasta ákvörðun útilokaði óteljandi aðrar leiðir sem við hefðum getað farið.
„Er þetta það sem ég vil gera í dag?“
Kvikmyndina When Harry Met Sally má finna á flestum listum yfir bestu áramótakvikmyndir sögunnar.
Árið 2006 greindist Nora Ephron, handritshöfundur myndarinnar, með krabbamein. Nálægð Noru við dauðann gjörbreytti sýn hennar á lífið. „Er þetta það sem ég vil gera í dag?“ spurði Nora sig daglega síðustu æviárin. Vitneskju hennar um Kardashian-fjölskylduna fór aftur en í staðinn gafst henni aukið svigrúm til að sinna kvikmyndagerð og vinum sem hún sendi gjarnan smákökur í pósti.
Eitt af síðustu ritverkum Ephrons fyrir andlát hennar árið 2012 voru tveir listar. Annar listinn samanstóð af því sem hún myndi sakna: Börnin mín, vor, haust, að lesa uppi í rúmi, hlátur, jólatré, vöfflur. Hinn innihélt það sem hún myndi ekki sakna: Tölvupóstur, hárþvottur, ryksugan, fermingarveislur, pallborðsumræður um konur í kvikmyndum.
Lífið er takmörkuð auðlind. Við höfum ekki tíma til að gera allt sem okkur langar eða aðrir vilja að við gerum. Allt sem við tökum okkur fyrir hendur kemur í veg fyrir að við gerum eitthvað annað.
Í stað þess að semja lista yfir það sem við ætlum að gera um áramót væri ef til vill gjöfulla að semja lista yfir allt sem við hyggjumst sleppa 2026.
Gleðilegt ár, kæru lesendur.
















































Athugasemdir