Björg Magnúsdóttir vill leiða lista Viðreisnar í komandi borgarstjórnarkosningum. Hún er sú þriðja til að gefa kost á sér til þess en Viðreisnarfólk velur sér oddvita í leiðtogaprófkjöri í lok janúar.
Björg var aðstoðarmaður Einars Þorsteinssonar, oddvita Framsóknarflokksins, þegar hann gegndi embætti borgarstjóra um skeið á kjörtímabilinu. Í tilkynningu vegna framboðsins segist hún hafa séð í því starfi hversu flókið og dýrt borgarkerfið sé, á meðan „grunnþjónustan hefur drabbast niður og traust til borgarstjórnar er í algjöru rugli“.
„Ég vil vera hluti af nýrri kynslóð í borgarstjórn sem er réttu megin við núllið og sinnir vel lögbundnum verkefnum og grunnþjónustu. Setur fókus á leik- og grunnskóla, stöðugt lóðaframboð, raunhæf tækifæri fyrir ungt fólk til að kaupa íbúð og einfaldar eins og hægt er leikreglur fyrir uppbyggingaraðila húsnæðis og fólk sem gerist svo djarft að stofna fyrirtæki eða veita þjónustu í borginni,“ segir hún í tilkynningunni.
Viðreisn á einn borgarfulltrúa í dag, Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur, sem gefur ekki kost á sér til endurkjörs. Flokkurinn mælist með 9,7 prósent fylgi í nýjustu könnun Gallup sem framkvæmd var í desember. Það myndi tryggja flokknum tvö sæti í borgarstjórn.
Auk Bjargar hafa þeir Aðalsteinn Leifsson, aðstoðarmaður utanríkisráðherra og formanns Viðreisnar, og Róbert Róbertsson, sérfræðingur í stjórnsýslu og fyrrverandi bæjarstjóri í Grindavík, gefið kost á sér.














































Athugasemdir