Sú skipan mála í alþjóðaviðskiptum sem þróaðist frá lokum seinna stríðs undir forystu Bandaríkjanna er í upplausn. Hvað tekur við er óljóst en viðskiptaleg staða smáríkja hefur versnað verulega í umróti síðustu ára.
Hnignun regluverks alþjóðaviðskipta
Stefnu Trumps Bandaríkjaforseta er kennt um hvernig komið er en rætur vandans liggja þó dýpra. Eftir rýran árangur í Doha lotunni á vegum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (e. World Trade Organizaton) upp úr aldamótum, þar sem átti meðal annars að greiða fyrir viðskipti með landbúnaðarvörur, varð algengara að ríki sniðgengju fjölþjóða regluverk WTO, Bandaríkin meðtalin. Þetta birtist m.a. í fjölgun fríverslunarsvæða og tvíhliða fríverslunarsamningum ríkja á milli. Fríverslunarsamningar eru ekki brot á WTO reglum en fjölþjóða nálgun alþjóðaviðskipta eftir reglum WTO er æskilegri en fjöldi sérsamninga með óljósum áhrifum á önnur ríki. Óánægju tók að gæta með samkeppnisstöðu Bandaríkjanna og einnig ESB fyrir nokkrum árum, ekki síst vegna uppgangs Kína sem margir töldu að hefði ekki fylgt reglum WTO í viðskiptum að fullu og styrkt þannig samkeppnisstöðu sína á kostnað Bandaríkjanna og ESB.
Eftir að Trump varð forseti hefur hallað ört undan fæti. Hann hefur notað verndartolla sem vopn í samskiptum við önnur lönd og í raun riðlað því samkomulagi sem náðst hefur um tollalækkanir eftir áratuga samningaviðræður innan GATT og síðar WTO. Skaðinn sem hlýst af tollastríðinu og niðurbroti WTO-regluverksins kemur fram í minni heimsviðskiptum, lægri hagvexti og verðkerfið fer úr skorðum. Samþætting hagkerfa gegnum innangeiraviðskipti (viðskipti með svipaðar vörur e. intra- industry trade) eða hagkvæmar aðfangakeðjur munu stoppa. Í staðinn fyrir fjölþjóða nálgun mun aflsmunur ráða í viðskiptum landa á milli. Í skrifum fræðimanna svo sem Michael Froman í tímaritinu Foreign Affairs (sept./okt. 2025) er staðhæft að ekki verði aftur snúið til fyrra regluverks um alþjóðaviðskipti eftir daga Trumps á forsetastóli. Ný heimsmynd taki við þar sem viðskiptablokkir eða öflug ríki ráði ferðinni og reyni að tryggja sína hagsmuni. Einkum muni Kína og Bandaríkin takast á. Þótt hér sé ef til vill um óþarfa svartsýni að ræða er ljóst að alþjóðaviðskipti og regluverk kringum þau munu breytast og hugsanlega veikjast á komandi tímum.
Staða smáríkja
Fram að þessu hafa smáríki stundað alþjóðaviðskipti óhindrað innan regluverks WTO. Í samningaviðræðum innan GATT og WTO skiptust aðallega stærri ríki á tilboðum um tollalækkanir sem leiddu til þess að tollar enduðu vel undir 5% í viðskiptum á milli landa í flestum vörutegundum nema þá helst landbúnaðarvörum. Utanríkisviðskipti eru undirstaða hagvaxtar í smáríkjum en vegna smæðar skiptu þau litlu máli í GATT og WTO samningum. Frá sjónarhóli smáríkja voru samningar um frjálsari viðskipti því samgæði (e. public goods) þar sem þau flutu með ókeypis (e. free riders).
Nú er tími ókeypis samfylgdar á enda. Alþjóðlegt viðskiptaumhverfi þar sem styrkur hagkerfa ræður viðskiptakjörum er ekki lengur hagfellt smáum ríkjum sem hafa lítið vöruval að bjóða stórum mörkuðum. Ef langvarandi tollastríð breiðist út geta smáríki lent á milli vita og verið gert að sæta háum tollum fyrir útflutningsvörur sínar sem rýrir lífskjörin.
EES-aðild Íslands tryggir óheftan aðgang að innri markaði ESB en Ísland er ekki innan tollabandalags ESB fyrir utan einstaka sérsamninga vegna fiskafurða sem falla undir landbúnaðarstefnu ESB. Tollabandalagið var þýðingarmikið í upphafi þegar ESB var einn helsti mótaðilinn í tollaviðræðum við Bandaríkin innan GATT. Þegar samningar um tollalækkanir tóku að skila miklum árangri minnkaði þýðing tollabandalagsins. Nú hefur dæmið snúist við og tollabandalagið er orðið að brjóstvörn fyrir ESB gagnvart Bandaríkjunum og Kína.
Tveir kostir fyrir Ísland
Fyrir hagsmuni Íslands eru tveir kostir í stöðunni; reyna að sigla krappan sjó utan tollabandalaga eða njóta skjóls innan ESB. Þótt mögulegt sé að gera fríverslunar- eða sérkjarasamninga við einstök lönd er umhverfi þar sem ríki neyta aflsmunar hættulegt fyrir smáríki. Stærri lönd gætu neytt aflsmunar og gert smáríki háð sér efnahagslega með „hagstæðum“ samningum líkt og Nasistar gerðu mikið af fyrir seinna stríð. GATT-reglurnar miðuðu við að sú saga endurtæki sig ekki. Auk breytinga á viðskiptaumhverfinu hafa öryggis- og varnarmál komist á dagskrá. Eftir að kalda stríðinu lauk var lengi talin lítil hætta á átökum við Rússa sem hafa ekki efnahagslegt bolmagn til að ógna NATO með hernaði. Þótt friður komist á í Úkraníu er eins víst að Rússar reyni að valda usla í Evrópu með netárásum og skemmdarverkum sem ekki sannast á stjórnvöld. Framferði Bandaríkjanna í Venezuela er ekki nýmæli í alþjóðasamskiptum þeirra, hins vegar hafa bandarísk stjórnvöld aldrei áður haft uppi hótanir í garð bandalagsríkja svo sem varðandi Grænland.
Átök um tolla og markaðsaðgengi auk óvissu í varnar- og öryggismálum veikja stöðu smáríkja. Ísland er í þeirri stöðu að geta leitað skjóls innan ESB. Full aðild að ESB er tiltölulega einfalt skref vegna aðildar að EES. Rýnivinna sem framkvæmd var í fyrra umsóknarferli getur nýst. Þótt mikil vinna sé eftir við að samræma íslenska löggjöf lögum ESB er ekki ástæða til að ætla að sérstök vandamál komi fram. Varðandi sjávarútveginn er ljóst að Íslendingar munu aldrei samþykkja samning við ESB sem innifelur framsal á þjóðareign á fiskveiðiauðlindinni. Þetta vita stjórnvöld á Íslandi og í ESB og þar með er ljóst að aðildarviðræður verða ekki kláraðar nema tekið verði tillit til hagsmuna Íslands í sjávarútvegsmálum.
Það er ekki eftir neinu að bíða að endurnýja umsóknarferlið með þjóðaratkvæðagreiðslu sem tryggir ótvírætt samningsumboð. Ef vel er að verki staðið gæti Ísland orðið fullgildur aðili að ESB innan þriggja ára frá upphafi samningaviðræðna.














































Valkostir Íslands eru allmargir og flestir slæmir en langbestur er innganga í ESB.