„Það er náttúrulykt í náttmyrkrinu.“ Á þessum orðum hefst eitt af mínum uppáhalds jólalögum, „Notalegt“, með þeim Sigurði Guðmundssyni og Sigríði Thorlacius. Myndin sem kemur upp í hugann er af snævi þakinni götu í skímu af ljósastaurum og jólaseríum, snjór sem fellur ofurvarlega til jarðar, andrúmsloft sem skapast einungis þegar maður býst síst við því. Inni í þessari mynd er ekki hægt að flýta sér, heldur er eins og það hægist ósjálfrátt á manni.
Ég fór nýlega upp í bústað þar sem annar taktur ríkir. Lifnaðarhættirnir eru frá öðrum tíma, þegar hlutirnir kröfðust meiri fyrirhafnar og þolinmæði. Í miðju rýminu má finna plötuspilara og heljarinnar plötusafn sem samanstendur af hinum ýmsu tónlistarstefnum. Platan sem varð fyrir valinu oftar en einu sinni voru jólalög Kalla Bjarna – „A Charlie Brown Christmas“. Um stofuna flæddu tónar nostalgíunnar og einhver ofurviðkvæm værð færðist yfir hlustendurna. Þegar nálin hafði lokið ferð sinni inn að miðju vínylsins heyrðist ekkert nema örlítið þrusk úr hátölurunum. Ég slökkti á tækinu og þögnin tók yfir. Þögn sem má aðeins finna inni í skógi, fjarri fólksbílum og strætisvögnum. Mér fannst eitt augnablik eins og ég fyndi fyrir þögninni. Gæti snert hana.
Kannski er það einmitt málið með þennan síðasta mánuð ársins, að hann sé tíminn til þess að finna. Finna fyrir kuldanum á nefbroddinum. Finna fyrir hlýjunni af kertaljósinu í stofunni. Finna fyrir nærveru fólksins í kringum okkur. Finna fyrir söknuðinum eftir þeim sem eru okkur fjarverandi. Finna til með þeim sem eiga um sárt að binda, eru einmana, heyja sínar baráttur. Fyrir tilstilli náttúrunnar býður þessi tími upp á alltumlykjandi myrkur sem veitir tækifæri til þess að líta aftur yfir farinn veg og hugsa sér ljósið sem bíður handan myrkursins. Í jólamyrkrinu má hlusta á jólaþögnina.


























































Athugasemdir