Rannsóknarnefnd Alþingis um snjóflóðið í Súðavík, sem féll þann 16. janúar 1995, hefur lokið störfum. Í tilkynningu á vef nefndarinnar segir að hún muni afhenda forseta Alþingis lokaútgáfu skýrslunnar á mánudag.
Að afhendingu lokinni boðar nefndin fulltrúa fjölmiðla á kynningu þar sem farið verður yfir niðurstöður rannsóknarinnar og helstu atriði skýrslunnar. Jafnframt verður skýrslan gerð opinber á heimasíðu rannsóknarnefndarinnar.
Alþingi samþykkti að stofna rannsóknarnefnd, þá fyrstu sem ekki fjallar um fjármálakerfið og mál tengd efnahagshruninu 2008, í kjölfar þess að aðstandendur þrettán þeirra sem létu lífið í flóðinu sem og þeir sem lifðu flóðið af fóru þess á leit við forsætisráðherra og þingið.
Erindi þeirra var sent í kjölfar ítarlegrar umfjöllunar Heimildarinnar um snjóflóðin sem birtist 5. apríl árið 2023.
Í rannsókn Heimildarinnar voru fjölmörg atriði tínd til sem gáfu skýrar vísbendingar um að yfirvöld hefðu sýnt af sér vanrækslu í aðdraganda flóðsins í Súðavík.
Í umfjölluninni kom meðal annars fram að hættumat á svæðinu gerði ráð fyrir snjóflóðavarnargörðum sem aldrei risu, auk þess sem að mistök hafi verið gerð þegar hættumatskort var teiknað, sem tók mið af gömlum loftmyndum sem sýndu ekki alla byggðina í bænum.
Það var svo greint frá því í fyrsta sinn í umfjölluninni að mistök við gerð snjóflóðahættumatsins hafi orðið til þess að almannavarnayfirvöld hafi ranglega haldið að ekkert húsanna sem fór undir flóðið hafi verið á hættusvæði.












































Athugasemdir