Einar Þorsteinsson, fyrrverandi borgarstjóri og oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík, sakar félagsmálaráðherra og ríkisstjórnina um að stilla fólki með fötlun upp á milli steins og sleggju „eina ferðina enn“ með því að láta fjármagn ekki fylgja lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Einar segist styðja að samningurinn sé lögfestur. „En mér finnst einfaldlega andstyggilegt af Ingu Sæland og félögum hennar í ríkisstjórninni að koma svona fram við fólk með fötlun,“ skrifar hann í grein á Vísi í dag.
ÖBÍ krefst svara frá borginni
Tilefni skrifa hans er bréf formanns Öryrkjabandalags Íslands til borgarstjórnar, þar sem spurt er hvers vegna Reykjavíkurborg geri ekki ráð fyrir fjármögnun 42 nýrra umsókna um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA). Einar segir kostnað samninganna nema um 2,5 milljörðum króna og að bréfið komi sér „ekki á óvart“.
„Inga Sæland, félagsmálaráðherra felldi tár þegar Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks var lögfestur á dögunum,“ skrifar hann og bætir við að hún hljóti einnig að fá klapp á bakið frá fjármálaráðherra fyrir að koma kostnaðinum yfir á sveitarfélögin „en ríkisstjórnin fær hrósið“.
Einar segir ríkið hafa látið hjá líða að framkvæma lögbundið mat á fjárhagslegum áhrifum lagasetningarinnar og gagnrýnir að borgarstjóri Reykjavíkurborgar hafi þagað þunnu hljóði meðan málið fór í gegnum þingið.
Ekki króna frá ríkinu
„Hneykslið í þessu máli er að Inga Sæland og ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur ákváðu að láta ekki eina einustu krónu fylgja þessari ákvörðun þingsins,“ skrifar hann og líkir stöðunni við það að „velja kampavín á veitingastað en senda reikninginn á næsta borð“.
„Ríkið veitir réttindin í orði en tryggir ekki fjármagn til að hægt sé að veita þjónustuna,“ segir Einar, sem vísar til úttektar Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu þar sem áætlað er að árlegur viðbótarkostnaður sveitarfélaga eftir lögfestinguna gæti numið um 14 milljörðum króna.
„Ef ríkisstjórnin ætlar að láta taka sig alvarlega og Inga Sæland ætlar ekki að verða sér til ævarandi skammar hvet ég hana til að fylgja lögum og láta gera ítarlegt kostnaðarmat og breyta svo fjárlagafrumvarpinu þannig að verkefnið verði full fjármagnað. Annað eru svik við fólk með fötlun.“













































Athugasemdir