Krónprins Sádi-Arabíu, Mohammed bin Salman, sagði að morðið á dálkahöfundi Washington Post, Jamal Khashoggi, árið 2018 hefði verið „risastór mistök“ þegar leiðtoginn hitti Donald Trump í Hvíta húsinu í dag.
Trump lýsti Khashoggi sem „einstaklega umdeildum“ og bætti við: „Mörgum líkaði ekki við þennan heiðursmann sem þú ert að tala um, hvort sem þér líkaði við hann eða ekki, hlutir gerðust, en hann (prinsinn) vissi ekkert um það.“
Prins Mohammed sagði um morðið – sem framið var af sádí-arabískum útsendurum, mistök. „Það er sársaukafullt og það eru gríðarleg mistök, og við gerum okkar besta til að þetta gerist ekki aftur.“
Khashoggi var myrtur árið 2018 í ræðismannsskrifstofu Sádi-Arabíu í Istanbúl í Tyrklandi. Morðið og sundurlimun blaðamannsins, sem hafði gagnrýnt stjórnvöld í Sádi-Arabíu, olli diplómatískri krísu og leiddi fram gagnrýni frá Trump, sem þá gegndi sínu fyrsta kjörtímabili.
Sádí-arabískir embættismenn sögðu síðar að morðið hefði verið framið af aðilum sem fóru út fyrir verksvið sitt en ekki fyrirskipað af leiðtogum landsins.
Trump veitti fréttamanninum sem spurði um hneykslið ákúrur og skipaði honum að „láta þar við sitja.“
„Þú þarft ekki að gera gest okkar vandræðalegan með því að spyrja svona spurningar.“
Stoltur af krónprinsinum
Á blaðamannafundinum hrósaði Trump árangri krónprinsins í mannréttindamálum.
„Við erum með einstaklega virtan mann í forsetaskrifstofunni í dag, vin minn til langs tíma, mjög góðan vin minn,“ sagði Trump við hlið sádí-arabíska krónprinsins.
„Ég er mjög stoltur af því starfi sem hann hefur unnið. Það sem hann hefur gert er ótrúlegt, hvað varðar mannréttindi og allt annað,“ bætti Trump við.
Hafnar hagsmunaárekstri
Donald Trump hafnaði því um leið að hann glímdi við hagsmunaárekstra í samningaviðræðum við krónprins Sádi-Arabíu eftir að synir hans undirrituðu stóran fasteignasamning í landinu.
„Ég hef ekkert með fjölskyldufyrirtækið að gera. Ég er hættur og ... ég hef helgað 100 prósent af orku minni. Það sem fjölskylda mín gerir er í lagi. Þau stunda viðskipti alls staðar,“ sagði hann og vísaði til sona sinna sem nú stjórna Trump-fyrirtækjasamsteypunni og hafa undirritað nokkra áberandi samninga síðan faðir þeirra komst aftur til valda.













































Athugasemdir (1)