Metfjöldi greindist á Íslandi með ónæmu sýklana karbapenemasa-myndandi Enterobacterales (CPE) í fyrra, eða 18 manns. Almennt er þó lítið um sýklalyfjaónæmi á Íslandi en það er talið ein heilsta heilbrigðisógn mannkyns.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá sóttvarnalækni á vef Embættis landlæknis í dag.
Dagurinn í dag er helgaður vitundarvakningu um sýklalyf hjá Sóttvarnastofnun Evrópu (ECDC) og hefst vitundarvika um sýklalyfjaónæmi á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) einnig í dag.
„Tilgangur þessarar vitundarvakningar er að minna almenning, stjórnvöld, heilbrigðisstarfsfólk og aðra aðila á þá ógn sem stafar af útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería í heiminum,“ segir í tilkynningu sóttvarnalæknis.
Þá verður árlegt málþing sóttvarnalæknis að þessu sinni helgað hjúkrunarheimilum þar sem notkun sýklalyfja og byrði af völdum ónæmra sýkla eru mest hjá elstu aldurshópunum. Málþingið verður þriðjudaginn 18. nóvember á Hrafnistu á Sléttuvegi en einnig verður boðið upp á þátttöku með fjarfundi.
Lítið miðað við Evrópu
Í tilkynningunni segir að notkun sýklalyfja hjá fólki á Íslandi árið 2024 hafi verið svipuð og undanfarin ár en um þriðjungur landsmanna hafi fengið að minnsta kosti eina sýklalyfjaávísun á árinu. „Flestum sýklalyfjum var ávísað utan sjúkrahúsa, oftast af heimilislækni. Á Íslandi er notkun breiðvirkra sýklalyfja almennt lítil sem er jákvætt þar sem breiðvirk sýklalyf stuðla frekar að auknu sýklalyfjaónæmi. Notkun sýklalyfja er mest hjá yngstu og elstu aldurshópunum,“ segir í tilkynningunni.
„Sýklalyfjaónæmi í bakteríum hér á landi er almennt lítið miðað við mörg ríki ESB/EES, þó aukning hafi orðið á vissum gerðum ónæmra sýkla,“ segir ennfremur. „Sérstakar áhyggjur vekur aukning á karbapenemasa-myndandi Enterobacterales (CPE) á milli ára, en 18 einstaklingar greindust með CPE í fyrsta sinn árið 2024, sem er metfjöldi. Algengasta gerð tilkynningarskyldra ónæmra sýkla eru sýklar sem mynda breiðvirka beta-laktamasa (ESBL/AmpC), en þessi gerð ónæmra sýkla greinist oftast hjá eldra fólki, sérstaklega konum, og sérstaklega í tengslum við þvagfærasýkingar.“
Rannsókn á hjúkrunarheimilum hérlendis sýndi að um 7% íbúa tóku eitt eða fleiri sýklalyf á þeim tíma sem rannsóknin fór fram. Yfir helmingur af öllum sýklalyfjum voru gefin í fyrirbyggjandi tilgangi, sem er hátt í samanburði við önnur ESB og EES ríki. Þar af var nær helmingur til að fyrirbyggja þvagfærasýkingar.
Spítalasýkingar algengar í Evrópu
Þá segir í tilkynningu sóttvarnalæknis að árlega fái 4,3 milljónir sjúklinga á Evrópska efnahagssvæðinu að minnsta kosti eina sýkingu sem tengist heilbrigðisþjónustu – „spítalasýkingu“ – og að margar séu vegna ónæmra sýkla.
„Sýking sem tengist heilbrigðisþjónustu er sýking sem einstaklingur fær meðan á dvöl eða meðferð í heilbrigðiskerfinu stendur og var ekki til staðar við komu,“ segir í tilkynningunni. „Þetta getur til dæmis verið á sjúkrahúsi, á heilsugæslu eftir inngrip, á hjúkrunarheimili, eða í tengslum við heimahjúkrun. Dæmi um algengar sýkingar sem tengjast heilbrigðisþjónustu eru þvagfærasýkingar (oft tengdar þvagleggjum), lungnabólga (til dæmis tengd öndunarvél), blóðsýkingar (tengdar æðaleggjum) og skurðsárasýkingar.“
Á hverjum tíma eru um 7% sjúklinga á sjúkrahúsum í ESB og EES, eða einn af hverjum 14, með að minnsta kosti eina sýkingu sem tengist heilbrigðisþjónustu. Á hjúkrunarheimilum eru um 3% íbúa með að minnsta kosti eina slíka sýkingu.
„Miklar vonir eru bundnar við innleiðingu nýlegrar aðgerðaáætlunar stjórnvalda“
„Ein af hverjum þremur örverum sem finnast í sýkingum tengdum heilbrigðisþjónustu eru bakteríur sem eru ónæmar fyrir mikilvægum sýklalyfjum, sem takmarkar möguleika til að meðhöndla sýkingar og á hverju ári deyja yfir 35.000 manns í ríkjum ESB/EES vegna sýkinga af völdum sýkla sem eru ónæmir gegn sýklalyfjum. Dánartíðni vegna þessara sýkinga er sambærileg við samanlagða dánartíðni inflúensu, berkla og HIV/alnæmis á svæðinu,“ segir í tilkynningunni.
Loks segir að þó staðan á Íslandi sé að mörgu leyti góð hvað varðar notkun sýklalyfja og sýklalyfjaónæmi sé mikið starf óunnið. „Miklar vonir eru bundnar við innleiðingu nýlegrar aðgerðaáætlunar stjórnvalda,“ en sóttvarnarlæknir tekur einnig þátt í alþjóðlegum verkefnum til þess að sporna við útbreiðslu sýklalyfjaónæmis.













































Athugasemdir