Kólumbíumaðurinn sem lifði af árás Bandaríkjahers á meintan eiturlyfjakafbát í Karíbahafi var látinn laus án ákæru eftir að hafa fengið meðferð við meiðslum sínum, að því er yfirvöld sögðu fréttastofunni AFP í gær.
Þann 18. október var maðurinn, sem er 34 ára gamall, fluttur aftur til Kólumbíu í lífshættulegu ástandi eftir að kafbáturinn sem hann ferðaðist með var sprengdur í loftárás.
Donald Trump Bandaríkjaforseti hélt því fram, án þess að leggja fram sönnunargögn, að farið hefði verið hlaðið fentanýli og öðrum fíkniefnum, en vitað er að fentanýl fer sjaldnast þessa leið til Bandaríkjanna.
Tveir um borð létust og tveir aðrir – Kólumbíumaðurinn og ekvadorskur ríkisborgari – voru handteknir og afhentir heimalöndum sínum.
Kólumbíumaðurinn sem lifði af var lagður inn á sjúkrahús í Bogota og þjáðist af áverkum á höfði og hugsanlegum heilaskemmdum.
Armando Benedetti innanríkisráðherra hafði lýst því yfir að þegar hann næði bata yrði hann „sóttur til saka“ af dómskerfinu sem „glæpamaður“.
Heimildarmaður frá saksóknaraembættinu sagði AFP hins vegar í gær að hann „hefði aldrei verið í haldi“ eftir að hafa verið útskrifaður af sjúkrahúsi þann 22. október.
Heimildarmaðurinn úr dómskerfinu sagði að yfirvöld væru enn að rannsaka hvort maðurinn hefði tengsl við fíkniefnahring.
Ekvadorinn sem lifði af var einnig látinn laus án ákæru í heimalandi sínu.
Svokallaðir eiturlyfjakafbátar – í raun og veru för sem eru aðeins að hluta til á kafi í vatninu – hafa í mörg ár verið notaðir til að flytja kókaín frá Suður-Ameríku, einkum Kólumbíu, til Mið-Ameríku eða Mexíkó, venjulega um Kyrrahafið.
Stjórnvöld í Washington hafa beitt Gustavo Petro, vinstrisinnaðan forseta Kólumbíu, refsiaðgerðum. Hann er harður gagnrýnandi stríðs Trumps gegn eiturlyfjasmyglurum í Rómönsku Ameríku, en er sakaður af Trump-stjórninni um að leyfa eiturlyfjahringjum að dafna.
Petro hafnar ásökunum Bandaríkjanna.
Að minnsta kosti 67 manns hafa fallið í árásum Bandaríkjahers á meinta eiturlyfjasmyglara í Karíbahafi og Kyrrahafi frá því í byrjun september.












































Athugasemdir